Félagsráðgjöf
Miðvikudaginn 04. apríl 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 41/1975, um félagsráðgjöf, sem flutt er á þskj. 842.
    Lög um félagsráðgjöf voru samþykkt árið 1975 og frá þeim tíma hafa félagsráðgjafar verið lögvernduð heilbrigðisstétt þannig að hér er ekki verið að löggilda nýja heilbrigðisstétt og vil ég að það komi fram í upphafi máls míns.
    Í kjarasamningum við félagsráðgjafa sem undirritaðir voru 14. apríl 1987 var gerð sérstök bókun þar sem því var lofað að kannaðir yrðu möguleikar á sérfræðiviðurkenningum innan félagsráðgjafar. Sálfræðingar fengu sambærilega bókun í sinn kjarasamning á sama tíma og voru lög þess efnis samþykkt vorið 1988, lög nr. 68/1988, þannig að nú þegar hefur verið staðfest það ákvæði sem fylgdi bókun með kjarasamningum sálfræðinga.
    Frv. það sem hér er lagt fram er samið í heilbr.- og trmrn. í samvinnu við Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa. Frv. gerir ráð fyrir að efnd verði fyrrnefnd loforð til félagsráðgjafa um sérfræðiviðurkenningar. Jafnframt eru gerðar nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum um félagsráðgjöf því síðan lögin voru samþykkt árið 1975 hefur nám félagsráðgjafa færst til Háskóla Íslands en áður þurftu félagsráðgjafar að sækja nám sitt til útlanda. Í frv. er og tillaga um ákvæði sem vantar í gildandi lög um félagsráðgjöf en er að finna í lögum um aðrar heilbrigðisstéttir. Þetta ákvæði leggur þær skyldur á herðar félagsráðgjöfum að þeir þekki skyldur sínar skv. lögum, viðhaldi þekkingu sinni og tileinki sér nýjungar er varða starfið. Sumum kann nú e.t.v. að þykja ástæðulaust að taka slíkt fram í lögum. En þetta er í lögum um aðrar heilbrigðisstéttir eins og fram hefur komið og þótti ástæða til þess að það væri hér líka þannig að samræmis gætti. Loks er bætt inn ákvæði um að félagsráðgjafar starfi á eigin ábyrgð og er það í samræmi við þá hefð sem skapast hefur um störf félagsráðgjafa.
    Herra forseti. Þetta er stutt frv. og grg. og athugasemdir við einstakar greinar frv. eru þess eðlis að það á að vera nokkuð skýrt öllum. Ég tel því ástæðulaust að hafa um þetta lengri framsögu en óska eftir því að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.