Lögheimili
Miðvikudaginn 04. apríl 1990


     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um frv. til laga um lögheimili.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Ævar Ísberg vararíkisskattstjóra.
    Nokkurn tíma hefur tekið að fjalla um frv. í nefndinni því að ekki hefur legið ljóst fyrir hvaða afleiðingar frv. hefði á skattlagningu námsmanna sem eru við nám á Norðurlöndum. Nefndinni hefur nú borist bréf frá fjmrh. þar sem því er lýst yfir að ráðuneytið sé nú að athuga þetta atriði og ef við athugunina komi í ljós að frv. skerði rétt námsmanna erlendis þá muni hann leggja fram á Alþingi frv. til laga um breytingu á tekjuskatts- og eignarskattslögum er tryggi að ný lögheimilislög hafi ekki áhrif á skattlega meðferð námsmanna sem eru við nám erlendis. Yfirlýsing fjmrh. er birt sem fylgiskjal með áliti þessu.`` Þar segir:
    ,,Ráðuneytinu hefur verið kynnt frv. til laga um lögheimili sem hv. félmrh. hefur lagt fram á Alþingi. Sérstaklega hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvaða afleiðingar breyting 9. gr. frv. hefur í för með sér varðandi skattlagningu námsmanna, en samkvæmt henni geta þeir námsmenn, sem skráðir eru með fasta búsetu erlendis, ekki átt samtímis lögheimili hér á landi eins og verið hefur. Þetta snertir eingöngu námsmenn á Norðurlöndum.
    Nú er verið að skoða í ráðuneytinu hvaða afleiðingar umrætt frv. hefur á skattlagningu námsmanna sem eru við nám erlendis. Ef í ljós kemur að umrædd breyting muni skerða rétt námsmanna samkvæmt skattalögum mun undirritaður leggja fram á Alþingi frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem tryggir að umrætt frv. til laga um lögheimili muni ekki hafa áhrif á skattalega meðferð námsmanna sem eru við nám erlendis.``
    Undir bréfið ritar hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson.
    ,,Með hliðsjón af bréfi fjmrh., sem og að brýnt er að fá frv. lögfest mælir nefndin með samþykkt þess með þeirri breytingu að gildistökuákvæði þess færist frá 1. júní 1990 til 1. janúar 1991. Þessi breyting er gerð til að veita Hagstofu Íslands meiri tíma til að undirbúa framkvæmd laganna en gildistökuákvæði frv. hafði miðast við að það yrði afgreitt fyrr á þessu þingi.``
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn, Danfríður Skarphéðinsdóttir þó með fyrirvara.