Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem er á þskj. 857 og ég mæli nú fyrir, á rætur sínar að rekja til þingsályktunar um auglýsingalöggjöf frá 18. mars 1987. Fyrsti flm. þeirrar þáltill. var Steingrímur J. Sigfússon.
    Að lokinni gagnasöfnun í viðskrn. skipaði ég hinn 15. mars 1988 nefnd sem hefur undirbúið löggjöf um auglýsingar á grundvelli þessarar þingsályktunar. Í frv. kemur fram að nefndin hefur athugað dreifð lög og reglur um auglýsingar hér á landi, svo og lög og reglur erlendis um þetta sama efni. Nefndin kannaði mismunandi leiðir varðandi undirbúning heildarlöggjafar um auglýsingar á Íslandi. Hún taldi ekki rétt að ganga svo langt að steypa öllum hinum dreifðu ákvæðum laga og reglna um auglýsingar hér á landi saman í eina heildarlöggjöf er heyrði undir viðskrh. fyrst og fremst vegna þess hversu ólík þessi ákvæði eru og um margt sérhæfð eða sérfræðileg. Ég nefni sem dæmi ákvæði lyfjalaga sem eru mjög ítarleg um gerð auglýsinga og birtingu þeirra. Mér þótti réttara eins og nefndinni að viðkomandi aðilar bæru áfram ábyrgð á þeim sérsviðum sem
þeim stæðu næst. Þá þótti heppilegra að byggja upp almenna auglýsingalöggjöf í því formi að nýjum kafla um auglýsingar væri aukið í lögin um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti fremur en að hafa sérstök auglýsingalög.
    Í lagafrv. eru ákvæði er byggja á hinni almennu grein verðlagslaganna um villandi auglýsingar en frv. gengur þó lengra. Það tekur á ýmsum öðrum grundvallaratriðum, t.d. nauðsyn varúðar í auglýsingum sem höfða til barna og nauðsyn þess að auglýsingar séu ekki aðeins á lýtalausri íslensku í sjónvarpi og hljóðvarpi heldur hvar sem þær birtast. Þessi ákvæði eru í frv. Rétt þótti að hafa fá ákvæði í hinum almennu auglýsingalögum en ítarlegri útfærslu á lagaákvæðunum í reglugerð sem auðvelt væri að breyta eftir þörfum í tímans rás. Í reglugerðinni skyldi m.a. byggt á siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi sem eru mjög ítarlegar.
    Þá er í frv. gerð tillaga um kerfi til þess að taka á úrlausnaratriðum um auglýsingar, kerfi sem byggist á virku valdi og starfi auglýsinganefndar sem njóti aðstoðar Verðlagsstofnunar, þeirrar opinberu stofnunar sem einna helst skal sinna neytendavernd hér á landi. Það má ætla að kerfi þetta verði virkara og liprara en núverandi kerfi og bind ég vonir við það að þessi auglýsinganefnd geti gert mikið gagn til að bæta framkvæmd auglýsinga og að búa til farveg fyrir neytendur að koma á framfæri athugasemdum sínum og kvörtunum.
    Markmiðið með hinum nýju ákvæðum í lögum og reglugerð er að stuðla enn frekar en nú er gert að heilbrigðri samkeppni á auglýsingamarkaðnum og vernda betur hagsmuni neytenda, fyrst og fremst barna, eins og fram kemur í frv. Það er ekki vanþörf

á því að gefa hagsmunum barna sérstakan gaum á okkar tímum þegar áhrif fjölmiðlanna eru jafnmikil og raun ber vitni. Auglýsingaákvæði annarra íslenskra laga eða reglna á grundvelli þeirra, sem jafnframt þarf að virða, byggjast alls ekki endilega á þessum sömu sjónarmiðum.
    Ég vík þá, virðulegur forseti, að nokkrum einstökum þáttum frv. og mun einkum geta helstu nýmæla sem í því er að finna.
    Í a-lið 1. gr. felst það nýmæli að ákvæði laga og reglugerðar verði ítarlegra en áður, m.a. um auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi þar sem ýmsar reglur hafa þó verið settar eins og þingheimi er kunnugt. Þá verður meira samræmi milli krafna um auglýsingar hvort sem þær birtast í sjónvarpi eða hljóðvarpi annars vegar eða öðrum fjölmiðlum hins vegar en þar hefur nokkur mismunur verið á og reyndar þannig að kröfurnar til auglýsinga, sem birtast í hljóðvarpi og sjónvarpi, eru mun ríkari en til annarra auglýsinga.
    Með b-lið 1. gr. eru tekin upp í íslensk lög hefðbundin ákvæði reglugerðar um auglýsingar í útvarpi en samkvæmt þeim skulu auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi vera á lýtalausri íslensku en erlendur söngtexti má þó vera hluti auglýsingar. Samkvæmt gildandi reglum má erlent tal ekki vera hluti auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi og var ekki talið fært að gera vægari kröfur í þessu frv. en gerðar hafa verið hér á landi að undanförnu. Það skal tekið fram að í reglugerðinni um auglýsingar í útvarpi er fjallað um það að þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött eða móttökustöð frétt með dagskrárefni er sýnir atburði er gerast í sömu andrá skuli auglýsingar, sem eru hluti af slíku dagskrárefni, vera undanþegnar íslenskukröfunni sem finna má í reglugerðinni. Sama mun samkvæmt eðli máls leiða af ákvæðum þessa frv., þó með þeim fyrirvara að unnt kann að vera að taka á auglýsingum sem beint er sérstaklega að Íslandi eins og fram kemur í athugasemdum með frv.
    Það nýmæli felst einnig í b-lið 1. gr. að þar er einnig sett fram sem aðalregla að aðrar auglýsingar en auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi skuli vera á lýtalausri íslensku. Þegar sérstaklega stendur á má auglýsingatexti þó vera á erlendu máli, t.d. þegar auglýsingum er aðallega beint til erlendra
manna. Nánar má kveða á um þetta í reglugerð. Undantekningartilfellin geta m.a. náð til auglýsinga í alþjóðlegum flugstöðvum, minjagripaverslunum og á alþjóðlegum vörusýningum. Ætla má að auglýsingar í dagblöðum yrðu í algerum undantekningartilfellum á erlendu máli eingöngu. Þá getur farið saman í auglýsingu íslenskur og erlendur texti, t.d. á veggauglýsingum í flugstöð.
    Í c-lið 1. gr. er byggt á gildandi ákvæðum verðlagslaganna um rangar, ófullnægjandi eða villandi auglýsingar.
    Ákvæði í d-lið 1. gr. eru þess efnis að auglýsingar skuli þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingu sé að ræða og að þær skuli skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla. Þessar reglur eru

efnislega samhljóða ákvæði reglugerðar um auglýsingar í útvarpi og er þarna annað dæmi um það að setja almennar reglur sem eru eins fyrir alla fjölmiðla. Ákvæði frv. eru þó reyndar víðtækari en reglurnar í útvarpinu þar sem þau ná ekki einungis til auglýsinga í sjónvarpi og hljóðvarpi. Í þessu felst nýmælið.
    Í d-lið 1. gr. er einnig lögfest það ákvæði reglugerðar um auglýsingar í útvarpi að auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi skuli fluttar í sérstökum auglýsingatímum. Í 3. gr. þeirrar reglugerðar segir að auglýsingatímum skuli jafnan haga þannig að ekki leiði til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi. Því virðist ekki útilokað samkvæmt gildandi reglum að auglýsingar geti tengst dagskrá að einhverju leyti. Til nánari skýringar vil ég í þessu sambandi vísa til athugasemdar í frv. um 11. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins um sjónvarpsstarfsemi frá 1989. Þar er aðalreglan sú að auglýsingar skuli birtar milli dagskrárliða en hins vegar er greint frá nokkrum leyfðum undantekningum. Með tilliti til aukins samstarfs Evrópuríkja er útlit fyrir að reglur og framkvæmd hér á landi verði með svipuðum hætti er fram líða stundir og örlar reyndar þegar á þeirri þróun.
    Í e-lið 1. gr. frv., sem yrði 49. gr. verðlagslaganna, felst það mikilvæga nýmæli að lögfest er ákvæði varðandi auglýsingar er höfða til barna. Það ákvæði að auglýsingar skuli miðast við að börn sjái þær og heyri og sérstakrar varúðar skuli gætt þegar þær höfða til barna á sér fyrirmynd í reglugerð um auglýsingar í útvarpi en nær hér ekki einungis til þeirra heldur til auglýsinga almennt og jafnvel ekki aðeins í fjölmiðlum. Þá telst til bóta að útfæra má þetta ákvæði í reglugerð, eftir því sem þurfa þykir, og m.a. byggja á ákvæðum siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi. Þar er að finna ýmis ákvæði sem varða börn, m.a. ákvæði um það að auglýsingar skuli ekki innihalda neitt sem hvatt geti til ofbeldisverka eða stutt slíkt athæfi. Svipaðar athugasemdir eiga við um það ákvæði í e-liðnum að þess skuli gætt, þegar börn koma fram í auglýsingum, að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er. Hér er um að ræða lögfestingu á ákvæðum er ná til fleiri tegunda auglýsinga en verið hefur. Þetta ákvæði má einnig útfæra nánar í reglugerð. Í þessu sambandi má til fróðleiks benda á að í I. viðauka við bresku auglýsingasamþykktina eru nefnd ýmis dæmi um auglýsingar sem geta orðið til þess að börn komist í hættu.
    Þá þótti rétt að hafa í f-lið 1. gr. ákvæði um uppsetningu auglýsinga á mannvirkjum til þess að draga úr hættu á því að menn lími upp auglýsingaspjöld sem erfitt sé að ná af en fái fremur leyfi til að setja upp slík spjöld innan á búðargluggum eða á annan hátt sem eigi veldur umhverfisspjöllum. Ákvæði f-liðarins eru nýmæli í íslenskri löggjöf.

    Í g-lið 1. gr. er mælt fyrir um það að ráðherra setji nánari ákvæði um framkvæmd auglýsingaákvæðanna í reglugerð er byggist m.a. á siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi. Þetta er mikilvægt ákvæði og nýmæli í okkar lögum. Ákvæði siðareglnanna og jafnvel annarra erlendra heimilda eru birt í viðaukum við frv. þar sem er að finna mjög ítarlegt efni um þau gögn erlend og innlend sem nefndin, sem frv. samdi, viðaði að sér og kannaði. Sem dæmi um breytingu, er stuðlað getur að bættri auglýsingamenningu ef það orð mætti nota, má nefna að í viðbót við ákvæði verðlagslaganna um villandi auglýsingar, sem eru almenns eðlis, kæmu í reglugerð sérstök ákvæði um lán og fjárfestingu byggð á siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins. Þar gæti t.d. staðið svo að ég taki dæmi: ,,Auglýsingar skulu ekki hafa orðalag sem líklegt er til að villa um fyrir almenningi hvað snertir lánskjör, eðli boðinna verðbréfa, raunverulegan eða áætlaðan hagnað eða innlausnarskilmála.`` Þetta nefni ég sem dæmi um reglur sem kynnu að verða settar á grundvelli þessara laga og tengjast að sjálfsögðu nýjungum á okkar fjármagnsmarkaði þar sem skylda um upplýsingar og þar með að mínu áliti um auglýsingar þarf að vera ótvíræð þannig að réttur þeirra sem skipta við verðbréfafyrirtæki sé ótvíræður.
    Í h-lið 1. gr. segir að ábyrgðin á því að ákvæði í lögum og reglugerð séu haldin hvíli á auglýsanda, semjanda auglýsingar eða auglýsingastofu eða útgefanda, eiganda fjölmiðils eða öðrum birtingaraðila. Þessir aðilar koma helst við sögu auglýsingagerðar og hljóta hver um sig að bera ábyrgð á verkum sínum eftir því sem við á en ætla má að aðalábyrgðin hvíli jafnan á auglýsanda, t.d. varðandi það að rétt sé farið með staðreyndir en slíkt gæti
t.d. starfslið fjölmiðils í fæstum tilfellum metið. Í þessu tilfelli má vísa til ákvæða útvarpslaga um ábyrgð. Ábyrgðin yrði nánar útfærð í reglugerð og þá byggt á ákvæðum siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins sem beitt hefur verið í framkvæmd á Íslandi með frjálsu samstarfi viðkomandi aðila. Þetta ákvæði er nýmæli, a.m.k. formlega séð, í okkar lögum. Ekki þykir unnt að gera hér vægari kröfur varðandi ábyrgð í lögum enda yrðu lög og reglugerð á grundvelli þeirra ella óvirk að meira eða minna leyti.
    Í i-lið 1. gr. er gert ráð fyrir því að viðskrh. skipi til fjögurra ára í senn fimm menn og jafnmarga varamenn í auglýsinganefnd er gegni lykilhlutverki í því að framfylgja ákvæðum verðlagslaga og reglugerðar á grundvelli þeirra að því er varðar auglýsingar. Rétt þykir að gera þá kröfu að formaður nefndarinnar sé lögfræðingur, svo og að aðrir nefndarmenn séu sérfróðir um öll svið auglýsinga. Þannig væri einn þeirra með sérþekkingu á sviði fjölmiðlunar en að öðru leyti yrðu nefndarmenn skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. auglýsingastofa, Verslunarráðs Íslands og Neytendasamtakanna. Þessir þrír síðastnefndu aðilar hafa reyndar tilnefnt fulltrúa í sérstaka siðanefnd sem starfað hefur hér á landi að því að framfylgja

siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi á frjálsum grundvelli. Samkvæmt tillögu frumvarpsins tæki auglýsinganefndin við hlutverki verðlagsráðs, sem skipað er níu mönnum, og gegnir nefndin reyndar mun víðtækara hlutverki varðandi auglýsingar þar eð byggt yrði á fleiri ákvæðum í lögum og ítarlegri reglugerð. Telja má að nýju ákvæðin geti aukið skilvirkni í meðferð auglýsingamála en það er mála sannast að verðlagsráð hefur ekki gegnt þar mjög atkvæðamiklu hlutverki.
    Samkvæmt j-lið 1. gr. mundi Verðlagsstofnun sinna þjónustuhlutverki við auglýsinganefnd en stofnunin hefur sinnt auglýsingamálum til þessa á grundvelli verðlagslaganna einna.
    Úrræði auglýsinganefndar samkvæmt k-lið 1. gr. yrðu svipuð og úrræði verðlagsráðs í lögum nú, m.a. bann, jafnvel að viðlögðu févíti, krafa um útsendingu leiðréttingar eða viðbótarskýringar og sátt. Það nýmæli felst í ákvæðinu að formaður auglýsinganefndar, sem er lögfræðingur, eða starfandi formaður nefndarinnar getur bannað auglýsingu til bráðabirgða ef hún er ekki talin vera í samræmi við ákvæði laga eða reglugerðar með vissum skilyrðum og þá um stuttan tíma. Þetta er gert til þess að auglýsingaákvæðin verði sem virkust og má nefna að þetta er í fullu samræmi við ákvæði tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins frá 1984 um villandi auglýsingar þar sem fram kemur að aðildarríki bandalagsins skuli tryggja skjóta meðferð mála og bráðabirgðaráðstafanir eða endanlegar ráðstafanir í því skyni. Sé vafi á ferðinni mundi formaður eða starfandi formaður kalla auglýsinganefndina saman í stað þess að grípa til bráðabirgðabanns. Ekkert mundi banna auglýsinganefnd eða formanni hennar að birta skriflegt og rökstutt bann opinberlega en reynslan hefur sýnt að birtingin ein getur reynst áhrifarík.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að hafa öllu fleiri orð um þetta frv. að sinni og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Vænti ég þess að nefndin geti afgreitt þetta mál á tiltölulega stuttum tíma þar eð ekki ætti að þurfa að vera mikill ágreiningur um ákvæði þess sem fyrst og fremst hafa þann tilgang að hafa í íslenskum lögum skýr ákvæði til að girða fyrir villandi upplýsingar í auglýsingum og til þess að vernda hagsmuni neytenda og sérstaklega barna gagnvart misvísandi, villandi og hættulegum auglýsingum.