Gjöld fyrir lækninga- og sérfræðileyfi
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Um síðustu áramót var skyndilega hækkað gjald fyrir almennt lækningaleyfi úr 4000 kr. í 15.000 kr. og fyrir sérfræðileyfi úr 14.300 kr. í 75.000 kr. Þessar hækkanir, sem urðu samkvæmt reglugerð nr. 644 1989, samsvara um 1250% og eru ekki í neinu samræmi við aðrar almennar verðhækkanir í landinu eða launaþróun. Gætir nú óeðlilegs misræmis á þeim gjöldum sem einstakar heilbrigðisstéttir þurfa að greiða fyrir sambærilegt leyfi. Þess ber að geta að svipaðar hækkanir munu hafa orðið á leyfisgjaldi til tannlækna og lögfræðinga og ýmissa annarra. Þeir sem venjulega greiða gjald fyrir almennt lækningaleyfi eru unglæknar sem lokið hafa námi í læknadeild og svonefndu kandídatsári. Þeir hafa um 85.000 kr. á mánuði á þeim tíma í fastalaun og er gjaldið því um 60% af þeirri upphæð. Auknir tekjumöguleikar unglækna liggja svo í yfirvinnu en hún ræðst af fjölda stöðugilda á sjúkrahúsum hverju sinni. Aðstoðarlæknar hafa yfirleitt engar ,,faldar tekjur`` og virðist því hægur vandi að krefja þá um almenna skatta sem þeim ber að greiða. Langflestir, ef ekki allir, unglæknar eru í raun enn í námi þegar þeir fá almennt lækningaleyfi þar sem þeir eiga fyrir höndum sérnám í a.m.k. fimm ár, oftast erlendis. Sérfræðileyfi fá læknar síðan að loknu sérnámi áður en þeir sækja um stöður á Íslandi.
    Það er eðlilegt að læknar greiði almenna skatta til samneyslunnar eins og aðrir þegnar samfélagsins í hlutfalli við tekjur sínar og eignir. Hins vegar eiga þeir, eins og aðrar heilbrigðisstarfsstéttir, lögum samkvæmt rétt á því að fá leyfi til starfa að uppfylltum ákveðnum menntunarskilyrðum. Á þessi leyfi hefur því fyrst og fremst verið litið sem staðfestingu á menntun og þjálfun og fyrir þau greitt vægt gjald í samræmi við þann almenna skilning að nám skuli vera öllum aðgengilegt án tillits til efnahags. Ég veit ekki til þess að slík leyfi séu greidd háu verði í nágrannalöndum okkar og undrast því eins og margir aðrir þessa ráðstöfun fjmrh. Því hef ég leyft mér að spyrja:
    ,,Hvaða forsendur liggja til grundvallar skyndilegri hækkun á gjaldi fyrir lækningaleyfi úr 4000 í 50.000 kr. og fyrir sérfræðileyfi úr 14.300 í 75.000 kr.?``