Gjöld fyrir lækninga- og sérfræðileyfi
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hjá fyrirspyrjanda var reglugerðin um aukatekjur ríkissjóðs endurskoðuð um síðustu áramót. Meginforsenda þeirrar endurskoðunar var sá vilji Alþingis, sem fram kom í samþykkt fjárlaga, að aukatekjur ríkissjóðs voru hækkaðar um 200 millj. kr. frá því sem var á árinu 1989. Fjmrh. var þess vegna falið af Alþingi að afla þessara tekna með því að breyta reglugerðinni um aukatekjur ríkissjóðs. Það var einnig ljóst að í þessari reglugerð gilti mikið ósamræmi milli hinna ýmsu gjalda og reglugerðin hafði ekki í mjög langan tíma verið tekin til endurskoðunar til þess að tryggja innra samræmi milli hinna ólíku gjalda. Má í því sambandi nefna að eitt leyfisgjaldið var í gömlu reglugerðinni 75.000 kr. á sama tíma og önnur voru á bilinu 2000--6000 kr. Þess vegna var talið eðlilegt að taka upp samræmingu á þessum gjöldum og taka mið við þá samræmingu af mikilvægi þeirra leyfa sem veitt voru, taka mið af því hvort leyfin væru veitt einu sinni á starfsævinni eða hvort þau væru veitt oft, hver væri tekjumöguleiki þeirra starfsstétta sem þarna ættu í hlut og ýmislegt fleira.
    Í samræmi við þessi grundvallarsjónarmið voru margvísleg gjöld hækkuð í þessari reglugerð. Má í því sambandi nefna að leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi hækkaði úr 4000 kr. í 50.000 kr., leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti hækkaði úr 14.300 kr. í 75.000 kr. og starfsleyfi löggiltra endurskoðenda hækkaði úr 4600 kr. í 50.000 kr.
    Sú hækkun sem fyrirspyrjandi gat um er því í samræmi við margar aðrar breytingar sem gerðar voru á reglugerðinni og bak við hana liggja þau sömu almennu rök og ég nefndi hér áðan og snerta aðrar breytingar sem gerðar voru.
    Ég hef lýst því yfir að þessi reglugerð verði síðan um næstu áramót tekin til endurskoðunar og nánari samræmingar, bæði í ljósi þeirra ábendinga sem fram hafa komið og eins út frá öðrum almennum viðmiðunum. Það er svo rétt að
geta þess einnig að þessi reglugerð tók engum breytingum um áramótin 1988 og 1989 vegna þeirrar verðstöðvunar sem þá var í gildi þannig að hinar mjög svo lágu upphæðir sem í gömlu reglugerðinni voru höfðu verið óbreyttar um mjög langan tíma.