Gjöld fyrir lækninga- og sérfræðileyfi
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans, en ég verð að segja að ég er mjög óánægð með þau vegna þess að mér finnst í raun enginn rökstuðningur hafa komið fram fyrir þessari hækkun í máli hans annar en ,,af því bara`` --- af því bara það vantar fé í ríkissjóð. Og ég skil vel að hæstv. fjmrh. leiti víða fanga, mér finnst það mjög eðlilegt, en það verður alltaf að vera ákveðin sanngirni í skattheimtu og það verður að gæta samræmis í skattlagningu. Mér finnst þetta í grundvallaratriðum röng aðferð við skattheimtu og ég skal segja honum hvers vegna.
    Í fyrsta lagi, hvað varðar almenna lækningaleyfið er hér verið að skattleggja fólk í námi sem er þegar skuldugt og á eftir að búa við framhaldsnám erlendis við aukinn tilkostnað. Það er ekki hægt í raun finnst mér að skattleggja væntanlega tekjumöguleika. Það hlýtur að þurfa að skattleggja tekjur þegar þeirra hefur verið aflað og það er auðvitað sjálfsagt að gera það og ég bendi hæstv. ráðherra á aðferðir til þess. Það er hægt að setja þak á greiðslur Tryggingastofnunar til lækna. Það er hægt að skattleggja tekjur lækna og þá sérstaklega með hátekjuþrepi ef um mjög háar tekjur er að ræða. Það er eðlilegt að læknar, eins og aðrir, greiði til samneyslunnar eins og ég tók skýrt fram. En þarna gætir mikils misræmis.
    Það eru ýmsar aðrar stéttir sem líka hafa tekjumöguleika í framtíðinni. Hvað með lyfsala? Hvað með verkfræðinga, t.d.? Það væri hægt að telja marga aðra. Hvað með aðrar heilbrigðisstéttir eins og sjúkraþjálfara? Þeir hafa væntanlega líka tekjumöguleika í framtíðinni. Þarna gætir því mikils misræmis. Síðan veit ég til þess að hæstv. heilbrmrh. hefur mótmælt þessari auknu gjaldtöku. Ég veit líka til þess að mótmæli hafa borist frá Félagi unglækna.
    Á þessum forsendum, að þarna gætir ekki sanngirni og þarna er misræmi mikið, vil ég biðja hæstv. ráðherra um að endurskoða málið. Ég veit að fulltrúar þeirra
hópa sem hér er um að ræða hafa verið að reyna að ná tali af honum en ekki hefur gefist neitt færi á því síðan þessi hækkun varð. Mér finnst að hæstv. ráðherra beri skylda til þess að endurskoða þessar hækkanir eins og þær eru grundvallaðar eða skýra þær með betri rökum en hann hefur gert hingað til vegna mótmæla sem fram hafa komið.
    Ég tek undir það með hæstv. ráðherra, sem oft hefur komið fram í máli hans áður, að sjálfsagt er að skattleggja þá sem eru aflögufærir til þess að standa undir því velferðarþjóðfélagi sem við viljum öll byggja, en það verður að vera samræmi í þeirri skattlagningu og það verður a.m.k. að vera nokkur sanngirni.