Fiskvinnslustefna
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Það skýtur auðvitað skökku við að verið sé að tala um mótun einhverrar sérstakrar fiskvinnslustefnu á sama tíma og uppi eru hótanir frá talsmönnum núv. hæstv. ríkisstjórnar um að koma í veg fyrir að sjávarútvegurinn í landinu fái sjálfur að njóta þess afkomubata sem menn búast við að bíði handan við hornið í formi hækkaðs afurðaverðs.
    Ekki voru fyrr farin að berast til landsins tíðindi af því að væntanlegar væru verðhækkanir á fiski erlendis en menn voru farnir að tala um það hvernig væri hægt að búa þannig um hnútana að fiskvinnslan og sjávarútvegurinn gætu örugglega ekki fengið að njóta afrakstursins af þessari hækkun. Strax var farið að tala um það að láta fiskvinnsluna borga inn í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins þrátt fyrir að allir séu sammála um að hann í núverandi mynd sé gjörsamlega ónothæfur. Í annan stað birtust hótanir um sérstakar gengishækkanir til þess að koma í veg fyrir að fiskvinnslan fengi að njóta afraksturs af betra afurðaverði.
    Einnig er ljóst að sú fiskveiðistefna sem mótuð er í frv. til laga sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram tryggir ekki stöðu fiskvinnslunnar. Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni að innan sjávarútvegsnefnda þingsins er uppi vilji til þess að skoða það mál miklu ítarlegar og athuga það sérstaklega í samhengi við þær hugmyndir sem fram hafa komið í Færeyjum um fiskvinnslukvóta í stað fiskveiðikvóta.