Bifreiðaskoðun í Vestmannaeyjum
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans, ekki síst síðustu setninguna sem hann mælti. Það sem hvarflar kannski að manni stundum þegar maður hugsar um öll þau miklu umferðarslys sem verða hér á Íslandi hvort menn verji ekki allt of miklum peningum og kostnaði í þessa svokölluðu bifreiðaskoðun, hvort ekki væri kannski einfaldast að leggja hana niður eða færa alfarið inn á verkstæðin eins og ég minnist að margir hv. þm. lögðu til í umræðunni hér um þessi mál á sínum tíma. Menn þyrftu þá að fara í ljósaskoðun, bremsuskoðun og stýrisskoðun og fengju um það stimpil af verkstæði sem mundi kosta tiltölulega lítið en mundu síðan taka alla þessa miklu peninga sem fer í allt þetta bákn sem byggir sig upp innan frá, eins og Bifreiðaskoðun Íslands, nýttu þá peninga til baráttu í umferðinni til að taka virkilega á þeim sem þar fara gáleysislegast um vegina því að fyrst og fremst liggur vandinn í því að mennirnir bregðast sjálfir. Vandinn liggur ekki í því að bifreiðarnar hafi brugðist, ástæðan er oftast önnur.