Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Í umræðum um ráðstafanir vegna kjarasamninga í Ed. 22. febr. sl. spurði ég hæstv. forsrh. hvað liði því átaki í atvinnumálum kvenna sem fyrirheit er gefið um í sáttmála hæstv. ríkisstjórnar. Í svari hans kom fram að gerð hefði verið athyglisverð skýrsla um atvinnumál kvenna á landsbyggðinni. Segir þar orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,En einnig kom fram að við gerð fjárlaga hafi félmrh. farið þess á leit að fá 15 millj. kr. fjárveitingu til að byrja að framkvæma þær tillögur sem fram komu í skýrslunni.``
    Nú eftir áramótin kom fram önnur skýrsla um atvinnumál kvenna á vegum landbrn. og fjallar hún um stöðu bændakvenna og óskir þeirra um atvinnu. Í þeirri skýrslu kemur fram að 91% þeirra kvenna sem svöruðu telja nauðsynlegt að eiga kost á vinnu utan húss en það er reyndar nokkru lægra hlutfall kvenna eða 51% sem óska eftir vinnu fyrir sig sjálfar.
    Í könnun landbrn. kemur mjög greinilega í ljós sérstaða kvenna í landbúnaði og sérstaða kvenna á vinnumarkaðinum yfirleitt. 72% þeirra sem áhuga hafa á vinnu vilja óreglulega vinnu eða sveigjanlega.
    Miðvikudaginn 7. mars sl. hélt Marta B. Jensdóttir, sem vann að þeirri athugun þriggja ráðuneyta sem hér er spurt um, fyrirlestur byggðan á könnun sinni á vegum kvennarannsóknahópsins við Háskóla Íslands. Af máli hennar mátti heyra að hún hefur mjög gott yfirlit yfir stöðuna í atvinnumálum kvenna um land allt og ýmsar hugmyndir sem leitt gætu til úrbóta. Sú skýrsla sem hún fjallaði þar um hefur eftir því sem ég best veit hvergi birst og því hef ég
leyft mér að spyrja hæstv. forsrh. á þskj. 817:
,,1. Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin fylgja eftir skýrslu þeirri um atvinnumál kvenna á landsbyggðinni sem unnin var á vegum félmrn., iðnrn. og landbrn. á síðasta ári?
    2. Er ætlunin að gefa skýrsluna út? Ef svo er, hvenær má vænta þess að hún líti dagsns ljós?``