Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að tvær skýrslur liggja fyrir sem varða vinnu kvenna á landsbyggðinni, önnur frá félmrh., hin frá landbrh. Skýrsla landbrh. hefur ekki enn verið lögð fram í ríkisstjórninni en ég hef fengið hana til skoðunar. Skýrsla félmrh. var lögð fram í ríkisstjórninni 16. des. sl. og jafnframt lagði félmrh. þá fram þrjár tillögur.
    Í fyrsta lagi að sérstök fjárveiting að fjárhæð 15 millj. kr. yrði á fjárlögum ársins 1990 og veitt Byggðastofnun til að vinna að þessum málum á grundvelli skýrslunnar.
    Í öðru lagi að atvinnuráðgjöf verði efld og stefnt að því að iðnráðgjöfum fjölgi og verði a.m.k. tveir í hverju kjördæmi.
    Í þriðja lagi starfsmenntun í atvinnulífinu. Félmrh. beiti sér fyrir námskeiðum fyrir atvinnulausar konur í samvinnu við ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofu ráðuneytisins.
    Þessar tillögur voru allar samþykktar í ríkisstjórninni og án tafar var gerð tillaga til fjvn. um þessa fjárveitingu, að þetta yrði tekið inn við 3. umr. fjárlaga. Því er skemmst frá að segja að fjvn. hafnaði þeirri tillögu ásamt reyndar nokkrum öðrum svipuðum málum sem þá lágu fyrir.
    Ég hef engu að síður sent skýrsluna með bréfi til Byggðastofnunar og óskað eftir því að skýrslan verði þar kynnt og verði lögð til grundvallar við áætlanir og uppbyggingu atvinnumála í strjálbýli. Og þótt ég hafi hér ekki formlega fengið skýrslu landbrh. vakti ég einnig athygli á þeirri skýrslu í umræddu bréfi og lagði til að hún yrði einnig höfð til hliðsjónar.
    Þetta hefur verið rætt við framkvæmdastjóra Byggðastofnunar sem mun að sjálfsögðu verða við þessum tilmælum og ég geri ráð fyrir að skýrslurnar verði því þar til meðferðar. Vitanlega væri mjög æskilegt að fá til þess sérstaka
fjárveitingu og ég veit að Byggðastofnun veitir ekki af því. Ég á nú samt von á því, miðað við þær ágætu móttökur sem þetta hefur fengið þar, að Byggðastofnun muni gera það sem í hennar valdi er til að stuðla að framgangi þessara mála. En ég hygg að það muni ekki enn þá vera komið það langt að unnt sé að segja frá því hvernig Byggðastofnun hyggst gera það. Byggðastofnun er hins vegar að sjálfsögðu í öllu sínu starfi með atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og það hefur vitanlega komið fram m.a. í viðræðum sem ég átti við framkvæmdastjóra Byggðastofnunar að mjög stór þáttur í þeirri atvinnuuppbyggingu varðar vitanlega atvinnu kvenna. Má þar nefna fiskvinnsluna, ferðaþjónustuna og margt fleira sem þessu tengist. En í þessum skýrslum eru eigi að síður margar ábendingar til viðbótar.
    Hvað síðari spurninguna snertir er rétt að vekja athygli á því að öryggi í álagningu og innheimtu virðisaukaskatts er tvímælalaust mun meira en í söluskattskerfinu, m.a. vegna þess að margvíslegri óvissu er eytt varðandi skattskyldumörkin og að

heilsteyptara og rökréttara skattkerfi kemur í stað þess sem fyrir var. Undandráttur ætti einnig að minnka vegna þess, eins og ég gat um áðan, að sá sem dregur veltu undan virðisaukaskatti kemst ekki hjá því að greiða sjálfur skatt af aðföngum sínum. Þrátt fyrir þetta er það rétt hjá fyrirspyrjanda að þörf er á að hafa virkt eftirlit og í upphafi þessa árs var lögð rík áhersla á að upplýsa bæði fyrirtæki og hinn almenna borgara um þær reglur sem gilda um rétt skattskil. Í því sambandi vil ég greina frá því að í dag verður tilkynnt um sérstaka herferð fjmrn. sem fram mun fara á næstu vikum þar sem rík áhersla verður lögð á það að kynna fyrir almenningi hvernig peningakassar eiga að líta út, hvernig ber að nota þá við afgreiðslu í verslunum þannig að þeir skuli ávallt vera lokaðir við upphaf afgreiðslu gagnvart hverjum einstaklingi svo að almenningur geti haft virkt eftirlit með því hvort sá sem skipt er við fylgir lögum og reglum í þessum efnum. Sé aftur á móti afgreitt og gefið til baka upp úr opnum kassa án þess að inn sé stimplað er augljóslega verið að leggja drög að því að viðkomandi fyrirtæki geti skotið undan skattinum.
    Í þessari kynningarherferð verður einnig lögð áhersla á að útskýra nákvæmlega hvernig nótur eigi að líta út þannig að almenningur geti fylgst með því að öllum slíkum skilyrðum sé fullnægt þegar þeir eiga viðskipti og vakin líka athygli á því að almennur borgari sem tekur þátt í nótulausum viðskiptum glatar verulegum réttindum. Ef hann verður síðan fyrir tjóni vegna þessara viðskipta eða varan eða þjónustan reynist ekki uppfylla þær kröfur sem ætlast var til í upphafi getur hinn almenni borgari ekki leitað réttar síns hjá viðkomandi verslun eða framkvæmdaaðila ef um nótulaus viðskipti hefur verið að ræða.
    Í þessu sambandi er ætlunin að leita liðsinnis hjá hinum almenna borgara til þess að tryggja virkt eftirlit í framkvæmd. Meginástæðan er auðvitað sú að virðisaukaskatturinn er vörslufé. Hann er ekki skattur viðkomandi fyrirtækis eða rekstraraðila heldur er hann vörslufé úr almennum sjóði landsmanna sjálfra sem viðkomandi rekstraraðila hefur verið falið að geyma um takmarkaðan tíma.
    Ég vænti þess að þessar aðgerðir muni þess vegna á næstunni skila jafnjákvæðum árangri og hinar hertu innheimtuaðgerðir sem fjmrn. beitti sér fyrir á sl. ári skiluðu.