Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf en ég verð reyndar að segja að þau ollu mér töluverðum vonbrigðum vegna þess að í máli hans kom fram að hæstv. félmrh. hefði lagt fram skýrslu sína 16. des. sl., farið hefði verið fram á 15 millj. kr. fjárveitingu en fjárveitingavaldið sá sér ekki fært að verða við þeirri ósk. Það kom einnig fram í máli hans hvaða tillögur hæstv. félmrh. lagði fram og ég held að þar sé um að ræða mjög þörf atriði bæði í sambandi við atvinnuráðgjöf og starfsmenntun. En mér þykir vera mikill hægagangur á þessu máli og þess vegna hef ég vikið að því oft héðan úr þessum ræðustól. Skýrslan er greinilega send núna Byggðastofnun til athugunar og eftir því sem best er vitað þá hefur Byggðastofnun heldur ekki mikið fé aflögu þannig að það er kannski ekki hægt að ganga út frá því að hún muni leggja á þetta mál þá áherslu sem nauðsynleg er.
    Ég vil taka undir það sem hv. 7. þm. Norðurl. e. sagði áðan og minna á kvennadeild Byggðastofnunar sem við lögðum til að yrði stofnuð til þess að vinna sérstaklega að atvinnuþróun fyrir konur. Ég vil einnig minna á tillögu frá okkur kvennalistakonum sem samþykkt var nýlega hér í Sþ. um að komið verði á fót svokölluðum fjarvinnustofum. Þó þar sé e.t.v. ekki um þúsundir atvinnutækifæra að ræða gæti það eflaust haft mikið að segja í ýmsum byggðarlögum að fá einhver slík verkefni og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að framkvæma þá tillögu hið allra fyrsta.
    Þá vil ég einnig taka undir það sem hv. 7. þm. Norðurl. e. sagði um það að nauðsynlegt er að konur hafi þetta verk með höndum. Það sama kemur fram í skýrslu landbrn. Þrjár konur hafa unnið þá skýrslu í sameiningu og það kemur fram í inngangi með henni skýrslu að þær hafa mjög góðan og næman skilning einmitt á hinum sérstöku vandamálum kvenna úti á landsbyggðinni hvað atvinnumál varðar.
    Það eru óneitanlega viss vonbrigði að útgáfa skýrslu hæstv. félmrh. skuli aðeins vera í athugun og vona ég að hún líti dagsins ljós sem fyrst. Ég sé reyndar ekki ástæðu til þess að gera margar fleiri skýrslur, hvorki um þetta mál né um launakjör kvenna. Það sem þarf fyrst og fremst er að grípa til raunhæfra aðgerða.