Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Út af því sem sagt var hér áðan um það að ríkisstjórnin sjálf hefði ekki gert neitt í þessu máli má nú kannski segja að það sé sjaldan sem ríkisstjórnin sjálf vinnur að slíkum málum heldur felur öðrum að sinna þeim. En þó vil ég undirstrika það sem ég sagði að ríkisstjórnin samþykkti allar tillögur félmrh. strax. Og ríkisstjórnin hefur nú ekki fjárveitingavaldið. Það hefur verið talað um það æðimikið hér á Alþingi að ríkisstjórnin leyfir sér að fara út fyrir það og ríkisstjórnin hefur tekið sig á skulum við segja í þeim efnum og forðast það og mun ekki gera það nema um algera neyð sé að ræða.
    Vissulega er þetta mikilvægt mál en t.d. fyrir ríkisstjórnina að veita aukafjárveitingu eftir að fjvn. hefur hafnað þessu kemur held ég ekki til greina. Við áttum ekki annan kost en ríkisstjórnin mun fylgja þessu eftir við aðra fjárlagagerð t.d. og allan fjárhag Byggðastofnunar verður að taka til meðferðar við næstu fjárlagagerð.
    Ég vil lýsa þeirri afstöðu minni að ég tel það mistök að mynda sérstaka deild kvenna við Byggðastofnun. Ég tek undir það að það þarf að fá fleiri konur þar til starfa. Það er alveg hárrétt. En mér sýnist að þetta verði að ganga hönd í hönd, störf kvenna og karla í dreifbýlinu og beri ekki að aðskilja. Ég vildi láta þessa skoðun mína koma fram fyrst þetta bar á góma.