Virðisaukaskattur af snjómokstri
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta svar hæstv. fjmrh. sem við vorum að hlusta á. Hann hefur sýnilega tekið þarna alveg rétta stefnu eins og stundum áður. Það er auðvitað alveg sjálfsagt mál að fella þennan virðisaukaskatt niður, enda var það a.m.k., leyfi ég mér að fullyrða, meining hv. fjh.- og viðskn. Nd. þegar hún fjallaði um virðisaukaskattslögin að svo yrði gert. Því til stuðnings vil ég nefna að í gildi var í söluskattslögunum heimild til fjmrh. að endurgreiða söluskatt af snjómokstri. Það var auðvitað eðlilegt að svo yrði einnig með virðisaukaskattinn. Þessi heimild var komin inn í lögin fyrir forgöngu okkar Karvels Pálmasonar, ef ég man rétt, og hún var réttmæt og sjálfsögð og ég er mjög ánægður að fjmrh. skuli verða við þessu. Ég átti raunar aldrei von á öðru og það má kannski leggja honum það til lasts að vera ekki búinn að því fyrr en við verðum bara að láta þetta gott heita og ég er honum þakklátur fyrir.