Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Með þessari þáltill. fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu Evrópusamnings um varnir gegn pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Samningur þessi var gerður í Strasborg 26. nóv. 1987. Markmið samningsins er að efla vernd þeirra sem sætt hafa frelsissviptingu gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Samningurinn kemur ekki í stað Mannréttindasáttmála Evrópu og málsmeðferðar sem hann gerir ráð fyrir. Markmiði samningsins skal náð með fyrirbyggjandi aðgerðum. Er gert ráð fyrir að sett verði á fót nefnd sem með vitjunum rannsakar aðstæður þeirra sem sætt hafa frelsissviptingu, geri athugasemdir ef ástæða er til og geri tillögur til viðkomandi ríkis um bætta meðferð eða aðbúnað.
    Í athugasemdum með till. er gerð grein fyrir hlutverki nefndarinnar og skyldum aðildarríkja í samskiptum við hana. Ríkisstjórnin hefur lagt fyrir hv. Alþingi frv. til laga þar sem sett eru fram fyrirmæli til þess að tryggja að Ísland geti fullnægt skyldum samkvæmt samningnum.
    Ég leyfi mér að leggja til, virðulegi forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.