Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að heimila ríkisstjórn að fullgilda fyrir Íslands hönd samþykkt ráðs Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, frá 14. júní 1989, um breytingar á stofnsamningi samtakanna. Í greinargerð sem fylgir tillögunni er í stutt máli rakin forsaga þessarar ákvörðunar. Með henni er komið í höfn áratuga baráttumáli Íslendinga innan samtakanna, að helstu útflutningsvörur Íslands njóti sömu fríverslunarkjara og iðnaðarvörur.
    Það er rétt að EFTA-ríkin eru ekki veigamestu útflutningsmarkaðir okkar. Útflutningur okkar á markaði þeirra nemur um eða innan við 10% af okkar heildarútflutningi. Full fríverslun með sjávarafurðir milli aðildarríkjanna er því ekki verulegt fjárhagslegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að svo stöddu, nema útflutningur til þessara landa aukist á næstunni. Okkur hefur vissulega verið ljós þessi staðreynd, en tilgangurinn af okkar hálfu var fyrst og fremst sá að berjast fyrir því grundvallaratriði að fullt jafnræði ríkti um viðskipti með helstu útflutningsvörur allra aðila EFTA-samningsins. Þetta baráttumál hefur nú náðst fram og því fylgir jafnframt annað sem kann að verða enn veigameira fyrir okkur en ábatinn af fríverslun með sjávarafurðir innan EFTA. Það er sú staðreynd að krafan um viðskiptafrelsi með sjávarafurðir er nú sameiginleg krafa allra EFTA-ríkjanna í viðræðum þeirra við Evrópubandalagið og evrópska efnahagssvæðið. Hvernig því máli reiðir af kemur að sjálfsögðu ekki í ljós fyrr en komið er út í raunverulegar samningaviðræður en fullur stuðningur félaga okkar í EFTA ætti að styrkja stöðu okkar í þeim viðræðum.
    Rétt er að geta þess hér varðandi túlkun á 10. gr. samningsins að af henni, þ.e. af fríverslun með allan fisk, þar á meðal ferskan fisk, leiðir að selja
megi hann í öllum samningsríkjum á sama hátt og aðrar fríverslunarvörur. Landanir fiskiskipa í höfnum annars samningsaðila eru því eins og hver önnur vörusala og því ekki nema sjálfsagðar og eðlilegar ef slík sala er metin fjárhagslega hagkvæm. Varðandi landanir er þó um þann fyrirvara að ræða að neita megi löndun fiskiskipa eins samningsaðila í höfn annars ef um er að ræða fisk úr sameiginlegum fiskstofnum sem ekki hefur verið gert samkomulag um skiptingu á eða ekki falla undir viðeigandi eftirlitskerfi einstakra aðildarríkja. Sá fyrirvari ætti að vera næg trygging fyrir því að við gætum aldrei skaðast af fríverslunarfyrirkomulaginu þótt deilur um fiskstofna kæmu upp.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði þessari þáltill. vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.