Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil nefna það, vegna þess máls sem hér var mælt fyrir af hæstv. utanrrh., að vissulega skiptir miklu að við njótum sömu kjara með okkar fiskafurðir og gilda um iðnaðarvörur í fríverslun. Það er verulegt hagsmunamál Íslands að full viðurkenning fáist á slíku, bæði á vettvangi EFTA og ekki síður, enn frekar raunar, gagnvart Evrópubandalaginu þannig að þær tollahindranir sem eru nú í viðskiptum við Evrópubandalagið með fiskafurðir verði felldar niður.
    Ég vil jafnframt benda á það að gæta verður þess við meðferð þessa máls og túlkun á okkar kröfum varðandi fríverslun að samningar um þessi mál leiði ekki til þess að við missum möguleika á að stýra ráðstöfun fiskafla og tryggja að vinnsla haldist í landinu. Ég tel það vera hættulegt fyrir íslenska hagsmuni ef við færum að berjast fyrir algerri fríverslun með fisk, fisk upp úr sjó, óunninn eða hálfunninn fisk, og hefðum ekki eðlilega möguleika á því að stýra löndun aflans. Það liggur ljóst fyrir að alger fríverslun á þessu sviði mundi gera það ókleift og óheimilt að reisa skorður við útflutningi á óunnum eða hálfunnum fiski. Mér finnst sem við meðferð þessa máls á fyrri stigum hafi ekki verið nógsamlega fjallað um þetta efni. Mér er til efs að þeir fyrirvarar sem felast í þessum samningi séu næg trygging í því.
    Með þessum orðum vil ég ekki draga úr þýðingu þess að við fáum fulla viðurkenningu á því gagnvart okkar viðskiptaaðilum að verslun með fiskafurðir hljóti hliðstæða meðferð og iðnvarningur. Þar er hins vegar um unnar afurðir að ræða, fullbúnar á markað. Allt öðru máli gegnir um óunninn fisk og hálfunnar afurðir. Þar hljótum við að gæta að okkar hagsmunum og verðum að hafa það í huga við meðferð málsins. Á þetta verður væntanlega litið í þeirri þingnefnd sem fær mál þetta til meðferðar.