Alþjóðasamþykkt um stefnu í atvinnumálum
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið lögð fyrir Alþingi þáltill. um heimild Alþingis fyrir því að Ísland fullgildi samþykkt sem afgreidd var á 48. Alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var árið 1964 og fjallar um stefnu í atvinnumálum.
    Í athugasemdum með þáltill. er gerð nokkur grein fyrir aðdraganda þess að Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi samþykkt nr. 122. Ég tel rétt að draga fram mikilvægustu atriðin í því sambandi.
    Á 45. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1961 var samþykkt einróma ályktunartillaga sem m.a. fól í sér eindregin tilmæli til stjórnarnefndar ILO um að leggja áherslu á að taka stefnu í atvinnumálum sem allra fyrst á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins og ekki síðar en árið 1963. Markmiðið væri að afgreiða viðeigandi gerð sem stuðlaði að auknu framboði atvinnu eftir leiðum sem bent var á í tillögunni. Stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar samþykkti á 152. fundi sínum í júní 1962 að boða til undirbúningsfundar um þetta málefni.
    Á fundi stjórnarnefndar í nóvember það ár var samþykkt að taka stefnu í atvinnumálum til umræðu á 48. þinginu 1964 með það að markmiði að afgreiða viðeigandi gerð um þetta málefni. Áðurnefndur undirbúningsfundur, sem haldinn var haustið 1963, afgreiddi drög að alþjóðasamþykkt og tillögu sem lögð var
til grundvallar umræðum á Alþjóðavinnumálaþinginu sumarið 1964. Þingnefnd sem fjallaði um drögin varði þremur fundum í að ræða hvort stefnt skyldi að afgreiðslu alþjóðasamþykktar eða ekki. Að afloknum umræðum um það atriði var samþykkt með nokkrum meiri hluta atkvæða að stefnt skyldi að afgreiðslu alþjóðasamþykktar. Allmargir voru þessu andvígir og skorti töluvert á fulla samstöðu um þessi atriði.
    Flestir sem tóku afstöðu gegn því að stefnt skyldi að afgreiðslu á alþjóðasamþykkt lýstu yfir þörf á mikilli framleiðni og frjálsu vali starfs. Af ýmsum ástæðum töldu þeir að þeirri þörf yrði ekki fullnægt með afgreiðslu alþjóðasamþykktar um þetta málefni. Þessir fulltrúar bentu á að atvinnumál væru viðamikill málaflokkur þar sem stefnumörkun væri erfið vegna margra óvissuþátta. Í alþjóðasamþykkt um þetta efni gæti í besta falli falist viljayfirlýsing um markmið sem stefnt væri að á þessu sviði. Af þeirri ástæðu yrði erfitt fyrir alþjóðavinnumálaskrifstofuna að hafa með því eftirlit hvort aðildarríki hugsanlegrar samþykktar stæðu við þær skuldbindingar sem þau gengjust undir með fullgildingu. Einnig var vakin á því athygli að atvinnuástandið í mörgum þróunarlöndum væri með þeim hætti að fullgilding af þeirra hálfu væri nánast marklaus og mundi vekja tálvonir meðal íbúa þeirra landa.
    Talsmenn þess að Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi alþjóðasamþykkt bentu á, máli sínu til stuðnings, að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, svo og ríki sem höfðu tekið undir Mannréttindayfirlýsingu samtakanna, viðurkenndu rétt manna til launavinnu þeim og

fjölskyldum þeirra til framfærslu. Lögð væri áhersla á þennan rétt í Fíladelfíuyfirlýsingu Alþjóðavinnumálaþingsins árið 1944, um hlutverk og markmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Alþjóðasamþykkt um stefnu í atvinnumálum gæti orðið grundvöllur þróunaráratugar Sameinuðu þjóðanna. Með slíkri samþykkt yrði lögð áhersla á mikilvægi þess að nýta þá auðlind sem felst í vinnuframlagi fólks. Af hálfu þessara aðila var viðurkennt að samþykkt um þetta efni mundi aðeins fela í sér viljayfirlýsingu en ekki nákvæmlega skilgreindar skuldbindingar. Ekki væri hætta á að þetta mundi grafa undan áliti á alþjóðasamþykktum ILO. Hitt yrði þvert á móti tilefni til gagnrýni ef Alþjóðavinnumálastofnunin léti hjá líða að afgreiða alþjóðasamþykkt þar sem lýst væri yfir lágmarksmarkmiðum í atvinnumálum.
    Niðurstaða Alþjóðavinnumálaþingsins varð því sú að afgreiða stutta alþjóðasamþykkt sem felur í sér að aðildarríkin lýsi því m.a. yfir sem meginmarkmiði að framfylgja stefnu er miði að því að veita öllum næga arðbæra atvinnu eftir frjálsu vali.
    Auk samþykktarinnar afgreiddi vinnumálaþingið ítarlega tillögu nr. 122 um stefnu í atvinnumálum. Í henni er bent á ýmsar leiðir til að ná markmiðum samþykktarinnar. Þess skal getið að 70. Alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var 1984 afgreiddi tillöguna um stefnu í atvinnumálum. Á þessa tillögu nr. 169 ber að líta sem endurskoðun og viðauka við tillögu nr. 122/1964. Í nýju tillögunni eru áherslur nokkuð aðrar en í hinni eldri. Benda má á ákvæði um aukna áherslu á starfsmenntun starfsfólks vegna nýrrar tækni. Þó tillagan sé birt í skýrslu félmrn. um 70. Alþjóðavinnumálaþingið sem kom út árið 1985 er hún birt til hægðarauka hér í fylgiskjali.
    Í tillögum nr. 122 og 169 um stefnu í atvinnumálum er bent á margar leiðir sem geta falist í stefnu í vinnumarkaðsmálum. Ég vil vekja athygli á nokkrum þeirra. Í 14. gr. í tillögu nr. 122 er lögð áhersla á hlutverk vinnumiðlunar í því að framleiðni fyrirtækja verði sem mest, m.a. með því að útvega fólk til starfa til þess að hindra samdrátt í framleiðslu vegna manneklu. Þeir sem
þekkja til starfsemi vinnumiðlunar í landinu vita að á þessu sviði þarf að gera betur. Efla þarf starfsemi vinnumiðlunarinnar, m.a. með auknu samstarfi sveitarfélaga og gera hana virkari en hún er.
    Einnig er vakin athygli á gildi starfsþjálfunar og endurmenntunar sem gerir starfsfólki kleift að takast á við ný eða breytt verkefni. Loks er minnt á gildi starfsmenntunar, eins og ég vék að áður. Þar er m.a. kveðið á um það að aðildarríki skuli kappkosta að tryggja með viðeigandi ráðstöfunum að launafólki séu gefin tækifæri með menntun og þjálfun til að aðlagast nýjum kröfum vegna tæknibreytinga. Við þetta má bæta að í ýmsum ályktunum Evrópubandalagsins á sviði vinnumarkaðsmála er fjallað um mikilvægi starfsmenntunar og er ljóst að bandalagið kemur til með að verja verulegum fjárupphæðum til þeirrar starfsemi á næstu árum.

    Þótt í fullgildingu alþjóðasamþykktar nr. 122 felist einungis skuldbinding um að fylgt sé stefnu sem miði að því að veita öllum næga arðbæra atvinnu eftir frjálsu vali felur hún í sér hvatningu til að móta heildarstefnu í atvinnumálum sem taki til fjölmargra þátta. Samkvæmt samþykktinni hafa stjórnvöld gott svigrúm til stefnumótunar sem tekur mið af séraðstæðum í hverju landi þar sem hún er mjög almennt orðuð og er vísað til tillögunnar um nánari útfærslu.
    Ég vil að síðustu, virðulegi forseti, geta þess að leitað hefur verið álits þriggja aðila á því hvort fullgilda eigi alþjóðasamþykkt nr. 122. Þeir eru Alþýðusamband Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasamband Íslands. ASÍ mælir eindregið með því að ríkisstjórninni
verði heimiluð fullgilding. Vinnumálasambandið og VSÍ leggjast ekki gegn fullgildingu. Loks er rétt að það komi fram að alþjóðasamþykkt nr. 122 er meðal þeirra sem flest aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa fullgilt. Hinn 1. jan. 1989 höfðu 72 ríki fullgilt samþykktina.
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn.