Utanríkismál
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. --- sem ég vona að heyri mál mitt --- var að koma á framfæri úr ræðustól áðan ábendingum til Alþb. varðandi afstöðu til Atlantshafsbandalagsins. Ég frábið mér ráð af hans hálfu í þeim efnum og það enda þótt hann sé að vitna til flokka á erlendri grund sem hann tiltók í máli sínu. Alþb. hefur ekki haft það til siðs að vera að leita eftir ráðum til flokka erlendis varðandi stefnu sína í utanríkismálum. Það eru aðrir sem standa hæstv. utanrrh. nær sem hafa tíðkað það að leita slíkra ráða varðandi utanríkismál og að því er varðar hernaðarbandalagið NATO ( GHG: Það er varnarbandalagið NATO) hernaðarbandalagið NATO. Vísa ég til þeirrar samþykktar sem sú stofnun gerði á 40 ára afmæli sínu sl. vor og fram kemur m.a. á bls. 98--100 í skýrslu hæstv. ráðherra, tölusettum liðum þar sem kemur fram lið eftir lið eftir lið að þetta hernaðarbandalag áskilur sér rétt til þess að beita kjarnavopnumn að fyrra bragði.