Utanríkismál
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég hafði satt að segja ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umræðum en tilefni gafst eins og hv. alþm. vita og við hlustuðum á hér áðan. Auðvitað væri hægt að hafa langt mál um ræður hæstv. utanrrh. hér í dag en ég tel það ekki þjóna neinum tilgangi. Ég get tekið undir síðustu orð hans hér úr ræðustólnum, að allt sé óráðið. Hvað ætla menn að gera ef Evrópubandalagið verður allt annað en við höldum að það væri á þessari stundu o.s.frv. Allt er þetta auðvitað laukrétt. Við erum ekki að ákveða örlög heimsins og meira að segja ekki okkar eigin örlög á þessari dagstund. Við verðum auðvitað að fylgjast með framvindunni og breyta til ef viðhorf breytast og þau eru að breytast á hverjum einasta degi. Það væri þess vegna ekkert ljótt við það þó Alþfl. skipti um skoðun. Það væri heldur ekkert ljótt við það að Sjálfstfl. gerði það. En svo vill til, að því er varðar a.m.k. fyrri spurningu hæstv. utanrrh., að hvorugur flokkurinn hefur breytt um skoðun. Það er laukrétt að flokkarnir eru sammála um það að halda áfram þessum EFTA-samningum við Evrópubandalagið um evrópskt efnahagssvæði. Þeirri spurningu er auðsvarað. Þetta vita allir.
    Hitt er líka rétt að ég hef æðioft varað mjög við því að við færum að taka upp samninga við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál. Ekkert er fjarlægara. Um sjávarútvegsmál höfum við nákvæmlega ekkert að semja við Evrópubandalagið. Við erum ekki að sækjast eftir neinum fiskveiðum hjá þeim eða neinu slíku og munum aldrei láta þá, aldrei og aldrei, fá neinar fiskveiðiheimildir hjá okkur. Það er ósköp einfalt. Málið snýst um það að við erum að fara fram á þá réttlætiskröfu að teknar séu upp viðræður auðvitað við framkvæmdastjórnina, eins og ráðherrann margendurtók hér, við framkvæmdastjórnina, og hana í heild, um breytingu á bókun 6 til samræmis við breyttar viðskiptavenjur, til samræmis við það að þeir hafa notið aukinna tollfríðinda hér á landi meðan tollar sem
við greiðum til Evrópubandalagsríkjanna hafa stórlega hækkað. Það hvarflar ekki að mér að Evrópubandalagið mundi neita slíkum tilmælum. Það er svo augljóst mál að framkvæmdastjórnin, þ.e. auðvitað deild 1, ekki sjávarútvegsdeildin, mundi taka þessum tilmælum vel. Ég held að við getum jafnvel enn þá náð slíkum samningum þó við höfum stigið víxlspor. Ég hef líka sagt margsinnis úr þessum ræðustól að eini maðurinn sem ekki mætti senda til Evrópubandalagsins til að biðja um viðræður væri sjútvrh. --- og alls ekki um sjávarútvegsmál. Ég hef sagt að annaðhvort forsrh. eða utanrrh. ættu að fara þessa ferð eða báðir saman. Ég er ekkert að gera mannamun. Þetta er alveg augljóst, við höfum ekkert við deild 21, held ég að hún sé, að ræða. Það er deild sem er með 60 manna starfsliði, langsamlega minnsta deildin. Ég held að starfsmenn bandalagsins séu um 25 þúsund. Þetta eru menn sem eru að mæla möskva og fylgjast með einhverju skipulagi á veiðum,

áhrifalausir með öllu. Og einu sinni enn, samanlagðar tekjur Evrópubandalagsríkjanna af fiskveiðum og fiskvinnslu eru 0,1% af þjóðartekjum þessara þjóða samanlagt. Deild sem enginn maður veit að er til nema hún sé leituð uppi. Og þess vegna átti sjútvrh. ekki að fara þessa ferð. En það er liðin tíð og þýðir ekki að vera að ásaka hann eða aðra. Auðvitað hafa einhverjir embættismenn eða aðrir ráðlagt honum að fara þessa ferð. Sú ferð hefur verið farin. En ég vona að ferð þessa svokallaða sjávarútvegsráðherra Evrópubandalagins, hvað heitir hann nú? ( Gripið fram í: Marin.) Já, ég vil helst ekki muna þetta orð, Marin. ( Viðskrh.: Átti að verða sjómaður, Marin.) Nú, það var gott. Ég vona að ferð hans til Íslands verði aldrei farin. Verði ferðin sem aldrei var farin.
    Hér var hæstv. sjútvrh. í ræðustól á föstudag að lýsa því yfir að bréf hefðu borist um það að sjávarútvegsmál og veiðar innan efnahagslögsögu Íslendinga mundi bera á góma þegar þessi maður kemur. Auðvitað á bara að segja manninum að hann skuli ekkert vera að borga neinn farseðil. Um það verður ekkert rætt. Og þó að þetta sé indæll maður vafalaust, ég hef ekki séð hann, þá á hann ekkert erindi til Íslands. En ég ætla ekkert að vera að orðlengja um þetta.
    Það er augljóst mál að það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði í lokaorðum sínum hér um daginn þegar við ræddum þessa tillögu um viðauka við bókun 6, það er svo margt og miklu meira sem við getum sameinast um en það sem skilur okkur að. Hann er margbúinn að segja í dag að báðar þessar leiðir verði farnar. Og hann sagði alltaf: Við framkvæmdastjórnina, ekki þennan ráðherra sjávarútvegsmála. Hann hefur nákvæmlega ekkert með málið að gera. Það höfum við allt saman bókfært og skjalfest í bréfum frá okkar eigin sendiráði að viðskiptasamninga gerir deild 1 eins og hún alltaf hefur gert. Og hver er merkasti samningurinn og sá sem afsannar algerlega að sameiginleg fiskveiðistefna eða sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins geti gilt í öðrum löndum er nákvæmlega bókun 6? Hún var gerð til þess að koma erlendum skipum út úr íslenskri landhelgi. Það voru æðstu ráðamenn Evrópu og Caston Thorn, sem þá var æðsti maður framkvæmdastjórnarinnar, sem leystu það mál. Síðan þann dag hefur aldrei komið til greina að Evrópubandalagsríki fengju aðgang að
íslenskri landhelgi. Ég vona að þetta verði síðasti dagurinn sem Alþingi og alþingismenn þurfa að líða þá áþján að heyra á þetta minnst.