Utanríkismál
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Matthías Á. Mathiesen:
    Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður en það voru þó örfá atriði í ræðu hæstv. utanrrh. sem ég aðeins vildi drepa hér á.
    Það var í fyrsta lagi þegar hann ræddi hér um fund embættismanna Evrópubandalagsins í sl. viku. Ég trúi því ekki að nokkuð sem þar kom fram hafi komið hæstv. utanrrh. á óvart, að hann hafi ekki vitað allt sem þar kom fram. Það höfum við vitað og það hefur áður komið fram einmitt hjá embættismönnum Evrópubandalagsins. Þess vegna er lögð áhersla á það að við stjórnmálamenn Evrópubandalagsríkjanna sé talað til að gera þeim grein fyrir hver eru okkar sjónarmið. Ég met það svo að sú ferð sem hæstv. forsrh. fer með hæstv. utanrrh. í þessum mánuði sé einmitt til þess að gera það. Það staðfestir það sem sjálfstæðismenn hafa verið að segja og sögðu í umræðunum í haust og hæstv. utanrrh. hefur tekið undir. Það er ekki um annaðhvort eða að ræða, það er hvort tveggja. Það verður að vera svo til þess að hagsmunum okkar verði best borgið þegar fram í sækir.
    Út af því sem hæstv. ráðherra sagði áðan að menn væru að spilla fyrir, og ég met svo að þar eigi hann við það útspil eða það sem hæstv. utanríkisráðherra Danmerkur sagði, þá trúi ég ekki að hæstv. utanrrh. viti ekki hvað gerðist í Lúxemborg sl. mánudag og hvað þar fór fram og hverjar voru skoðanir hæstv. utanríkisráðherra Evrópubandalagsins alls. Á þeim fundi er það hæstv. utanríkisráðherra Danmerkur sem undirstrikar þýðingu þess að Evrópubandalagið skoði og meti stöðu EFTA, þó sérstaklega Norðurlandanna, einfaldlega vegna þess að Austurríki og staða þess er mikið breytt frá því sem hún var á sl. ári. Austurríki er, svona eins og sagt er, við dyrnar til inngöngu ef ekki nást þeir samningar sem nú er unnið að. Hlutleysisstefna Austurríkis gildir ekki það sama í dag og hún gilti fyrir 6--7 mánuðum síðan. Sú mikla breyting sem hefur orðið í Austur-Evrópu gerir það einmitt að verkum. Ég held þess
vegna að við eigum að meta það jákvætt sem utanríkisráðherra Danmerkur hefur verið að gera og hefur verið að segja og líta á það út frá þeim sjónarhóli. Það staðfestir einmitt það sem kemur fram hjá utanríkisráðherrum Evrópubandalagsins sl. mánudag.
    Síðan kom hæstv. utanrrh. og leitaði að stefnu Sjálfstfl. Hún hefur alla tíð verið skýr og kom skýrt fram í þessum umræðum, eins og hann áttaði sig réttilega á hjá formanni Sjálfstfl. Hann vék þar hins vegar að og talaði um stefnu ríkisstjórnarinnar og vildi meina að hún væri alveg ljós. En þá spyr ég: Stefna ríkisstjórnarinnar? Mér er ljóst hver er stefna utanrrh. í málinu. En fyrirvari og samþykkt ríkisstjórnarinnar sem kynnt var hér á Alþingi 29. nóv. sl. er þess eðlis að einn stjórnarflokkurinn hefur ekki veitt utanrrh. umboð til að ganga til þeirra samninga sem hann er núna að ganga til í viðræðunum á milli EFTA og Evrópubandalagsins. Það er skýrt tekið fram í ræðu

hæstv. fjmrh. hér á þingi 29. nóv. Ég skal lesa það upp, með leyfi forseta:
    ,,Þetta, virðulegur forseti, er sú samþykkt sem þingflokkur Alþb. gerði í morgun. Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var í hádeginu í dag samþykktu ráðherrar Alþb. þá bókun sem forsrh. kynnti hér áðan með sérstakri`` --- og nú bið ég utanrrh. að taka eftir, því það sem hann sagði hér áðan um hver væri stefna ríkisstjórnarinnar getur ekki staðist samkvæmt því sem hér stendur --- ,,með sérstakri tilvísun til þeirrar samþykktar sem þingflokkurinn gerði í morgun og kynnt var rækilega á ríkisstjórnarfundinum.`` Í þeirri samþykkt segir að áður en gengið verður til þeirra samninga sem núna á að ganga til verði málið tekið upp og rætt. Og þingflokkur Alþb. áskilji sér fullkomlega rétt til þess að hafa aðra afstöðu í málinu. Í samþykkt Alþb. segir, með leyfi forseta:
    ,,En áður en til þátttöku í beinum og formlegum samningaviðræðum komi verði málið tekið til sérstakrar umfjöllunar og afgreiðslu í ríkisstjórn.`` Sú afgreiðsla hefur ekki farið fram. Ekki hef ég heyrt hæstv. utanrrh. gera grein fyrir því. Hann sagði hér áðan, sem ég vissi og veit: Það er ekki breyting hjá mínum flokki þó að hér hafi komið einn þingmaður og sagt: Við eigum að horfa á einhverja aðra möguleika í sambandi við þessar viðræður, þá var það hans og mér er það fullkomlega ljóst. En hann sagði einmitt: Það er ekki breyting hjá mér eða mínum flokki.
    Afstaða Sjálfstfl. er skýr. Þar hefur enginn vafi verið á að þessum umræðum sem nú hafa farið fram á að halda áfram. Okkar skoðun er sú að því fyrr því betra. Það kom hins vegar fram hjá utanríkisframkvæmdastjóra Evrópubandalagsins á fundinum sl. mánudag að hann metur það að samningarnir sem menn telja að eigi að gerast á þessu ári muni ekki verða gerðir á þessu ári. Það er vissulega ástæða fyrir okkur að vega og meta hver staðan í þessu máli er, hverjar eru líkurnar. Hæstv. utanrrh. hefur sagt sína skoðun á því. Ég met það svo sjálfur að á það verði að reyna hverjir eru okkar fyrirvarar, með hvaða hætti við getum komið þeim málum fyrir sem við þurfum á að halda í sambandi við þessar viðræður til þess, og því fyrr þeim mun betra fyrir okkur. En komi þá í ljós að mönnum mistakist, því það spyr sig margur að því í dag hvort það náist að gera samninga um evrópskt efnahagssvæði, þurfum við að gera
okkur grein fyrir því hvar við ætlum okkur hlut í þessum málum og staðsetningu í þessu öllu.
    Afstaða Sjálfstfl. er ljós, en afstaða ríkisstjórnarinnar er ekki ljós í þessu máli. Afstaða utanrrh. er hins vegar ljós. Það liggur alveg ljóst fyrir. En hér höfum við heyrt talsmann Alþb. og hér liggur það ljóst fyrir hver staða þeirra er.