Framtíð gamla miðbæjarins í Reykjavík
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um framtíð gamla miðbæjarins í Reykjavík. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins að leita þegar í stað eftir samvinnu við borgaryfirvöld í Reykjavík og samtök fólks í miðborginni um að gera þróunaráætlun um framtíð gamla miðbæjarins í Reykjavík.``
    Ástæðan fyrir því að tillagan er flutt er sú að gamli miðbærinn hefur átt undir högg að sækja. Það hefur hallað undan fæti. En með ,,gamla miðbænum`` í málflutningi þessum er átt við svæðið sem liggur eins og tré með ræturnar í gamla Grjótaþorpinu, sjálfur stofninn liggur upp Laugaveg og Hverfisgötu að Hlemmi og strætin út frá þeim götum. Við erum því að tala um svæðið frá Vesturgötu, þ.e. frá Garðastræti og alveg upp fyrir Hlemm. Ekki kvosina gömlu heldur mun stærra svæði.
    Á þessu svæði hefur þróast verslun, viðskipti og þjónusta. En reksturinn á nú undir högg að sækja og æ fleiri fyrirtæki kjósa annaðhvort að flytja rekstur sinn í nýrri borgarhverfi eða loka búðum sínum og fyrirtækjum og því miður er sjón sögu ríkari þegar gengið er um miðbæinn og hvert verslunarplássið af öðru er með hvítt kalk í gluggum. Með deyjandi athafnalífi í miðborginni hverfur líka mannlífið. Breyttir verslunarhættir hafa leitt fólk í önnur borgarhverfi til að sinna viðskiptum sínum og núna
síðast inn í Kringlu, eftir að þar var opnuð stór og glæsileg verslunarmiðstöð undir einu þaki.
    Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér í þingsölum og kem með þessa tillögu er einfaldlega sú að í Reykjavík er Alþingi. Það er í hjarta gamla miðbæjarins. Reykjavíkurborg er höfuðborg alls landsins og allra landsmanna og því er það í rauninni mál allra landsmanna hvernig höfuðborgin dafnar og hvernig gamli miðbærinn í henni dafnar. Ríkið er líka stærsti húseigandinn hér á svæðinu. Hér eru flest hús í eigu ríkisins, þ.e. ríkið á fleiri hús en aðrir aðilar, þótt margir einstaklingar eigi náttúrlega flest húsin hér samanlagt. Þess vegna er ábyrgð Alþingis mikil því það er hlutverk Alþingis að gæta fasteigna ríkisins. Eins og nú er komið málum hér í gamla miðbænum lækka fasteignir í verði, líka þær fasteignir sem ríkið og ríkisfyrirtæki eiga. Þannig að Alþingi ber ábyrgð á því að svo verði ekki. Það er hlutverk Alþingis að reyna að snúa vörn í sókn til þess að eignir ríkisins lækki ekki í verði umfram það sem orðið er.
    En gamli miðbærinn er líka mikið meira en hluti af peningalegri eign ríkisins. Þar eru fleiri þjóðminjar en á nokkrum öðrum stað á Íslandi. Þar er bæjarstæði Ingólfs, Innréttingar Skúla Magnússonar, hús á borð við Dómkirkjuna, Menntaskólann, Stjórnarráðshúsið, gamla Hegningarhúsið og sjálft Alþingishúsið. Þess vegna hefur gamli miðbærinn ekki bara viðskiptalegt gildi heldur ekki síður menningarlegt gildi.
    Á sínum tíma var gerð úttekt á þeirri þróun sem hlaut að fylgja í kjölfar þess að opna verslunarmiðstöð

á borð við Kringluna í samkeppni við gamla miðbæinn. Þessi skýrsla er til hjá borgarstjórn Reykjavíkur og meiri hlutanum í borgarstjórn. Raunar var borgarstjórn allri kunnugt um þetta áður en Kringlan var opnuð. Í þessari skýrslu var tíundað rækilega hvað gerst hefur í öðrum löndum þegar verslunarmiðstöðvar af þessari stærð rísa upp, hvernig gamlir miðbæjarkjarnar bókstaflega tapa vægi og lognast smám saman út af. Ráðamönnum Reykjavíkurborgar var því fullkomlega ljóst að hverju þeir gengu þegar Kringlan var opnuð. Þrátt fyrir það létu þeir undir höfuð leggjast að gera einhverjar þær ráðstafanir sem hefðu orðið til þess að halda mannlífinu og halda athafnalífinu í miðbænum í því horfi sem það var áður. Engar ráðstafanir voru gerðar, ekkert var gert til þess að fjölga bílastæðum eða breyta og bæta aðkomuleiðir að gamla miðbænum. Þvert á móti var fjölgað hér í liði stöðumælavarða og kranabílar teknir í notkun til þess að draga brotlegar bifreiðar af götum borgarinnar, þær geymdar í bílageymslu yfir nóttina og eigendum gert að greiða stórfé til að fá þær leystar úr haldi. Þannig lagðist borgarstjórnin af alefli á að ganga af gamla miðbænum dauðum á sama tíma og Kringlan opnaði.
    Reykjavíkurborg er nú að eyða milljörðum í að byggja tvær byggingar í Reykjavík sem ekki verður í fljótu bragði séð að þjóni mörgum þegar upp er staðið. Annars vegar er ráðhús sem hefur verið valið það undarlega bæjarstæði að setja það ofan í Reykjavíkurtjörn og hins vegar einhvers konar veitingastaður sem hefur verið valið jafnundarlegt bæjarstæði eða uppi á hitaveitugeymunum á Öskjuhlíð. Það er ljóst að veitingahúsið mun aldrei geta staðið undir sér. Þó svo að einhverjar leigutekjur fáist fyrir að leigja það veitingamönnum munu þær tekjur í mesta lagi duga til þess að halda húsinu við.
    Ráðhúsið var og er ákaflega umdeild bygging. Rúmlega 15 þús. Reykvíkingar mótmæltu því á sínum tíma og sendu inn mótmælaskjöl til borgarstjórnar sem borgarstjórn hunsaði og gerði grín að.
    Þessi vitlausa röð á verkefnum í Reykjavíkurborg hefur gert það að verkum að engir peningar eru aflögu þó svo að menn mundu kjósa að söðla um og verja peningum til að glæða miðborgina aftur lífi, til að miðborgin verði aftur eftirsóknarverður staður fyrir lifandi fólk. Hvað þá að til séu peningar til að nota til að byggja upp eðlilegt
æskulýðsstarf í staðinn fyrir að skilja miðborgina eftir auða um nætur, börnum og hröfnum að leik. Eða þá, við förum ekki út í þá sálma, að Reykjavíkurborg mundi reyna að hjálpa því fólki sem verður gjaldþrota. Má segja að ein Reykjavíkurfjölskylda verði gjaldþrota á dag og er það varlega áætlað. Fólksstraumurinn liggur nú til annarra landa. Það er aftur komin upp Ástralíutilfinning í borgrlífið. Hundruðum saman flytjast Reykvíkingar til Svíþjóðar og annarra landa í leit að þeim vonum sem brugðust hér í Reykjavík. Það þyrfti ekki mörg hundruð þúsundin ef á réttum tíma væri veitt sú aðstoð sem þarf því meðalgjaldþrotið er fáein hundruð þúsunda.

Oft er um áætlanir skatta eða annarra gjalda að ræða. Reykjavíkurborg hefði ekki þurft að eyða miklum peningum til að hjálpa því fólki sem nú á um sárt að binda en borgarstjórn kaus þess í stað að nota peningana til að byggja ráðhús úti í tjörn og veitingahús uppi á hitaveitugeymum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég óska eftir því að till. fari til seinni umræðu og til hv. félmn.