Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Sú umræða sem hefur spunnist síðustu vikur vegna viðhalds á Þjóðleikhúsinu er slæm fyrir íslenska leiklist. Hún er fyrst og fremst slæm fyrir lifandi íslenska leiklist sem tengist hvorki þessu húsi né nokkru öðru húsi. Það er einhvern veginn búið að koma því inn í þjóðina að íslensk leiklist standi og falli með þessu húsi, sem ég ber mikla virðingu fyrir og sem er, eins og hér hefur verið sagt, kannski einhver ljósasti vottur um arkitektúr Guðjóns Samúelssonar.
    Ég verð að segja það að mitt ferðalag upp í Þjóðleikhús núna í vikunni varð kannski öðru fremur til þess að rugla mig enn frekar í ríminu en áður. Sömuleiðis þau gögn sem okkur voru þar fengin í hendur því ég fékk það svo sterklega á tilfinninguna á eftir að málið snerist, eins og hér var réttilega bent á af flm. þessarar till., að verulegu leyti um einhverja samanburðarfræði við nýbyggt Borgarleikhús, því miður. Það þarf ekki annað en að lesa þau gögn sem okkur voru fengin þar í hendur.
    Ég vil taka það líka fram að ég ber mikla virðingu fyrir þeim arkitektúr sem Guðjón Samúelsson skapaði hér á landi. Mér finnst það í sjálfu sér engin rök sem hér er talað um, að hann hafi á einhverju stigi teiknað einhvern veginn öðruvísi. Ég sæi menn fara að skafa upp olíumyndir stórmeistaranna vegna þess að þeir höfðu á einhverju stigi síns listaverks skapað það öðruvísi en endanlega gerðin var. Það dettur ekki nokkrum lifandi manni í hug. Þetta verða menn að taka inn í þessa umræðu vegna þess að í ræðum manna hér, m.a. hv. 1. þm. Suðurl. sem hér talaði áðan, er lögð áhersla á það að hérna gangi menn fram með það framar öðru að vernda hina upphaflegu hugsun eða vernda listaverk listamannsins. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir í þessari umræðu.
    En ég vil taka það skýrt fram hér líka til að taka af öll tvímæli að ég tel að öflugt stofnanaleikhús sé okkur bráðnauðsynlegt. Það hlýtur að verða
kjölfestan í því lifandi leikstarfi sem þróast umhverfis það, líkt og við vitum og sjáum og skiljum að Sinfónían er kjölfestan í íslensku tónlistarlífi og reyndar íslensku tónlistarnámi líka. Ég get hins vegar ekki gert að því að eftir því sem lengra líður á þessa umræðu hugsa ég meira um málið og það hvernig við ætlum að vernda lifandi leiklist, ekki bara þá leiklist sem þrífst í stofnanaleikhúsunum okkar heldur líka úti um allt land. Ég var fyrir nokkrum vikum á frumsýningu í minni heimabyggð. Þar var flutt enskt leikverk sem leikhópur þar sem hefur starfað í mörg ár setti upp af miklum dugnaði. Þessi leikhópur er búinn að koma sér upp ljósabúnaði, hljóðbúnaði og ýmsum öðrum búnaði sem er nauðsynlegur til að leikstarfsemi þrífist að lágmarki. Þetta á sér stað úti um allt land, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á sér líka stað í frjálsum leikhópum, sem mér hefur fundist að hafi ekki síður en stofnanaleikhúsin verið vaxtarbroddurinn í íslensku leikhúslífi síðustu

tvo áratugina. Og ég veit að hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir, fyrrv. þátttakandi í Alþýðuleikhúsinu, skilur þetta sjónarmið.
    Ég held áfram þar sem ég hætti áðan, að smám saman fer sú hugsun að mótast með mér að ég spyr sjálfan mig: Er það rétt stefna fyrir okkur, þessar 250 þúsund sálir sem hér búum og viljum lifa öflugu listalífi, að okkar leiklistarlíf þróist yfir í það að hér í höfuðborginni verði tvö mjög stór stofnanaleikhús? Við skulum gera okkur grein fyrir því að Borgarleikhúsið mun vaxa. Það mun vaxa og ná því að fylla það nýja húsnæði sem því hefur verið aflað, sem þeir hafa aflað sér og með góðri aðstoð annarra. Það verður ekki langt þangað til að þau 40 stöðugildi sem Reykjavíkurborg hefur fram að þessu styrkt Leikfélag Reykjavíkur með hrökkva mjög skammt til þess að fylla upp í þá starfsemi sem getur rúmast í því mikla og glæsilega húsi. Hvað þýðir það fyrir aðra lifandi leiklist? Hvert verður leitað eftir þeim peningum? Ég hlýt að spyrja sjálfan mig: Er ekki tímabært að ríki og borg kanni þann möguleika að þau sameinist um að reka öflugt stofnanaleikhús í því húsnæði sem Borgarleikhúsið hefur nú til umráða sem gæti orðið, eins og ég sagði áðan, kjölfesta í íslensku leikhúslífi?
    Þetta þyrfti ekki að þýða að listaverk Guðjóns Samúelssonar gæti ekki haft áfram fullverðug verkefni. Það mundi þýða að við gætum lægt þessar öldur, við gætum tekið okkur sæmilegan tíma til að endurbyggja það hús og fá því að nokkru ný verkefni sem gætu tengst leiklist, gætu tengst tónlist, gætu tengst hátíðarsamkomum á vegum ríkis og borgar, gætu tengst ótal mörgum hlutum svo sem ráðstefnuhaldi. Og að lokum, ég vildi sjá það að þar væru enn þá aðstæður til leikhúshalds þar sem lifandi leiklist utan af landi gæti komið og sýnt sinn afrakstur. Verkefnin eru því óþrjótandi. Og nú skulum við vinda okkur að því í umræðunni á næstunni að beina henni að því að skapa lifandi leiklist góðan ramma til starfa.
    Ég vil sjá fjármagni veitt víðar frá ríkinu. Ég vil sjá því skipt, kannski svolítið öðruvísi en nú er. Ég vil sjá því ekkert síður veitt til þess að styrkja frjálsa leikhópa, ekki bara úti um land heldur sem eru starfandi hér
líka. En ég sé ekki að íslenskt þjóðfélag hafi efni á því að auki að ætla að reka tvö stór stofnanaleikhús í samkeppni hvort við annað.