Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Eggert Haukdal:
    Virðulegi forseti. Það ber að fagna þeirri umræðu sem hér fer fram vegna till. hv. 3. þm. Vesturl. um framkvæmdir við Þjóðleikhúsið. Þetta mál er mjög ofarlega í umræðu manna. Allir eru sammála um nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir í Þjóðleikhúsinu. Til þess verks var ákveðin fjárveiting á fjárlögum og að sjálfsögðu er ekki hægt að vinna fyrir meira fé í ár en því nemur. Þetta mál virðist nú allt vera komið úr böndunum og því ekki óeðlilegt að flytja þá tillögu sem hér liggur fyrir, en þessi tillaga hefði ekki verið flutt fyrir nokkrum vikum síðan, þó sæist í hvað stefndi. Nú eru stjórnarflokkarnir hins vegar í því að láta hver annan vita af sér opinberlega. Og í því ljósi skýrist tillöguflutningurinn að hluta þótt ég dragi ekki í efa að hv. flm. hafi þá skoðun á málinu sem í tillögunni felst. Sá er hér talar er stuðningsmaður þessarar tillögu. En það er ekki til að blanda sér í deilur stjórnarliða eða koma höggi á hæstv. menntmrh. sem þó sannarlega hefur ekki ratað rétta veginn í þessu máli. Ég hef einfaldlega þá skoðun að það eigi að endurbæta Þjóðleikhúsið með eðlilegum hætti án gjörbyltingar.
    Örfá orð um gang þessa máls. Fyrst skal nefna að byggingarnefnd Þjóðleikhússins hefur ekki fengið það forgangsverkefni í skipunarbréfi sínu að gera breytingar á byggingu hússins. Henni var einungis falið að skipuleggja viðgerðir á húsinu í samráði við forkönnun húsameistaraembættisins. Samkvæmt öllum gögnum hefur nefndin unnið með eðlilegum hætti allt fram á síðasta sumar. Þegar starfsmönnum var kynnt áætlun nefndarinnar voru engar stórfelldar breytingar fyrirhugaðar á húsinu, aðeins viðgerðir. Hingaðkoma erlends ráðgjafa virðist hafa gerbreytt tilgangi viðgerðanna og þær hugmyndir fundið hljómgrunn meðal nokkurra leikara við Þjóðleikhúsið. Það eru tillögur hans sem snúa öllu á haus. Það er gott að sækja góð ráð til annarra þjóða. Margir hér á landi líta um of til annarra þjóða eins og allt sé gott sem þaðan kemur. Austur
fyrir tjald hafa margir lengi horft um fyrirmyndir en það er erfitt nú þessa mánuðina. Margir líta oft til Washington og nú er Brussel í tískunni. Gott er í þessu sambandi að minnast orða skáldsins sem hvatti menn til að muna vel hvað íslenskt er um alla vora tíð.
    Þegar byggingarnefnd kynnir tillögur sínar um miðjan nóvember er starfsmönnum Þjóðleikhúss nánast stillt upp við vegg. Stjórn hússins er þegar farin að miða allar sínar aðgerðir við lokun þótt fjvn. hafi þá enn ekki verið tilkynnt um hversu stórfelld endurbyggingin sé og enn séu engar nákvæmar áætlanir til um kostnað né nokkrar teikningar nema forvinnuuppdrættir. Undirstrika verður að víðtæk kynning fer aldrei fram á hugmyndum byggingarnefndar. Þær hafa enn ekki verið ræddar í Félagi íslenskra leikara svo nokkru nemi hvað þá almennt meðal listamanna. En áætla má að svo fjárfrek framkvæmd hafi áhrif á allt fjárstreymi til

lista í landinu. Kynning á niðurstöðu nefndarinnar er gerð rétt fyrir frágang fjárlaga. Þegar greinar fara að birtast sem mæla gegn framkvæmdum á faglegum grundvelli leikhúsfræði, reynslu og byggingarfræði þá svarar byggingarnefnd engu. Það er ekki fyrr en leiðari birtist í Morgunblaðinu að frá henni berst greinargerð sem er engin viðbót við fyrri málflutning og svarar í engu mótmælum gegn breytingunum.
    Rök gegn breytingunum eru m.a. eftirtalin:
    Þær eru skýlaust brot á höfundarrétti sem ekki er forsvaranlegt frá byggingarsögulegu og siðferðilegu sjónarmiði. Höfundarréttur Guðjóns Samúelssonar er lítilsvirtur. Þær eru byggðar á veikum leikhúsfræðilegum og faglegum kröfum um sjónlínu og skort á nálægð, nánast persónulegum smekk. Grundvöllur þeirra frá byggingarfræðilegum sjónarmiðum hefur verið harðlega gagnrýndur af Hannesi Davíðssyni, Skúla Norðdahl og fleirum, eins og þegar hefur komið fram í þessari umræðu. Bent hefur verið á ítrekað að með breytingum af þessu tagi er verið að skerða rekstursmöguleika hússins um ókomna framtíð og um leið að breyta rekstursforminu á afdrifaríkan hátt.
    Mjög er óttast að fjárfrekar og umdeildar aðgerðir af þessu tagi komi til með að hafa áhrif á allan leikhúsrekstur í landinu. Minnka fjárstreymi til annarra leikflokka og jafnvel til nokkurs tíma, draga úr þeim geira menningar okkar. Enn er á það bent að eðli þeirra breytinga sem eru í uppsiglingu kallar á framhaldsaðgerðir á sviði og í aðstöðu baksviðs. Ljóst er að þær eru hugsaðar í beinum tengslum við yfirgripsmikið plan frá húsameistara ríkisins um stórt svæði austan og norðan við núverandi hús. Þá er á það bent, m.a. af Sveini Einarssyni og Jóni V. Jónssyni og fleirum, að með breytingunni er burt numið dæmi um sögulega byggingu sem er í samræmi við margar aðrar víða um lönd en einstæð hér á landi.
    Hljómburður hússins hefur þótt afbragðsgóður. Óvíst er hvernig hann verður eftir breytingar. Listrænir viðburðir eru tengdir umhverfi og í endurminningum leikhúsgesta er salur Þjóðleikhússins hluti af leikhúslífi síðustu 40 ára. Allar breytingar þarf að framkvæma varlega. Ekki eru breytingar þær sem fyrirhugaðar eru eingöngu bundnar við áheyrendasal og leiksvið heldur á líka
að breyta anddyri, fatageymslu og öllum inngöngudyrum, sem sé framhúsi breytt frá neðsta gólfi og upp úr. Áætlaður kostnaður við breytingarnar er samkvæmt áætlun húsameistara 540 millj. kr. Af fenginni reynslu við aðrar opinberar framkvæmdir er vart að treysta að það standist. Ekki er gert ráð fyrir neinum lagfæringum baksviðs, svo sem á hreinlætisaðstöðu eða mötuneyti fyrir starfsfólk.
    Eitt af því sem talað er um að breyta er sviðsopið. Það á að breikka en við það verður tjaldið sem er eldvörn milli sviðs og sals of lítið svo sníða þarf nýtt sem kostar tug milljóna. Ekkert tillit hefur verið tekið til álits húsafriðunarnefndar, mótmæla Bandalags ísl. listamanna, mótmæla arkitekta, né undirskriftalista almennra borgara.

    Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.