Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegur forseti. Það var ekki meining mín að taka þátt í umræðunni um þessa þáltill. Hún getur verið ágæt út af fyrir sig en það hefði verið betra að slík afstaða hefði legið fyrir þegar fjárlög voru samþykkt og málið var til umræðu í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.
    Það sem ég vil taka fram í sambandi við þetta mál er fyrst og fremst það að ég get lýst því yfir að ég er mjög fylgjandi því að Þjóðleikhúsið fái þá meðferð sem því ber í opinberum byggingum. Ég tel að staða þess í opinberum byggingum sé sérstæð hvort sem við tölum um hönnuð þessarar byggingar á sínum tíma þá hefur Þjóðleikhúsið það gildi í þjóðfélaginu bæði að því er varðar listir, menningu og aðra sögu leiklistar að ég held að það sé ekki hægt að horfa fram hjá því að Alþingi ber að stuðla að því að þessu húsi sé sýndur sá sómi að endurbyggja það á þann veg að það geti talist sá menningarauki sem Þjóðleikhúsið á að vera. Út frá þessu hefur mín afstaða mótast í sambandi við meðferð þessa máls í fjárlögum.
    Þegar fjvn. skoðaði húsið í ársbyrjun 1989 og raunar árið 1988 einnig var um það að ræða að átta sig á því hvernig þetta hús leit út. Niðurstaðan varð sú að við vorum sammála byggingarnefnd sem þá starfaði um að hér yrði að taka til höndum myndarlega og þess vegna var þetta sett inn í fjárlög 1989 og reiknað með að taka húsið til meðferðar í 1 1 / 2 ár og þá var áætlunin um 240 millj. kr. Það sem kom upp síðar var það, eins og allir hv. þm. vita, að fjvn. tók málið til endurskoðunar og féllst á að taka endurnýjun á Þjóðleikhúsinu inn á sitt prógram sem svaraði 540 millj. kr. miðað við þá grófu áætlun sem lá fyrir frá byggingarnefnd án þess að hún væri skilgreind nákvæmlega í meðförum nefndarinnar heldur kom það skýrt fram, sem ég þarf ekki að endurtaka hér, að formaður fjvn. lýsti þ°ví skilmerkilega við 2. umr. fjárlaga hvernig fjvn. leit á þetta mál. Það var ákveðið að leggja til að þessi framkvæmd færi fram á árunum 1990 og 1991. Fjárlög voru samþykkt og
engin slík rödd sem hér hefur hljómað síðan heyrðist við afgreiðslu fjárlaga og þessa ákvörðun. Síðan gerist það að málið kemur í hendur á byggingarnefnd á ný eftir þessa samþykkt. Gera má ráð fyrir að fjármagnið sem byggingarnefnd hafði til umráða hafi verið 301 millj. kr., þ.e. 275 millj. í fjárlögum og 75 millj. í lánsfjárlögum frá árinu 1989 til framkvæmda sem þá fóru ekki fram.
    Þetta er sá grunnur sem byggingarnefndin hafði og mér, sem sat í fjvn. og var fulltrúi Alþingis í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, bar að sjálfsögðu ásamt félögum mínum í þeirri nefnd að sjá um það að þessi framkvæmd sem fyrirhuguð var færi fram í samræmi við lög og reglur um opinberar framkvæmdir. Þess vegna voru þær kröfur gerðar til byggingarnefndar að það yrði nákvæmlega tilgreint hvernig hægt væri að framkvæma endurbætur á Þjóðleikhúsinu innan þessa fjárlagaramma. Þetta hefur

síðan staðið yfir frá því í janúar á þessu ári og allt til þessa dags. Og ég ætla ekki á þessari stundu að fara að tíunda hvernig hér hefur verið að máli staðið. Það hefur verið sífelld vinna í þessu. Ég get sagt það svona í framhjáhlaupi að það eru 322 teikningar um þessa framkvæmd í umferð og það segir sína sögu um umfang málsins.
    Eftir daginn í dag eða á morgun liggur sjálfsagt fyrir niðurstaða um það frá hendi samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir hvernig á þessu máli verður tekið en ég get ekki látið hjá líða að koma hér upp og mótmæla ummælum varaformanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins um húsameistaraembætti ríkisins. Mér finnst ekki hægt að segja slíkt um opinberan embættismann þó hann sé kannski ekki á þeirri línu sem menn hefðu kosið í sambandi við þetta mál, að lýsa hann óhæfan í sambandi við meðferð þessara mála. Mér finnst það ósæmilegt. Og það greiðir ekki götu þessara mála ef þeir menn sem eru kosnir í byggingarnefnd fyrir svona viðamikla og mikilvæga byggingu ætla að halda uppi því málfari að rakka menn niður á ljótri íslensku fyrir þeirra störf því hvað sem má segja um húsameistaraembættið er ljóst mál að Garðar Halldórsson, húsameistari ríkisins, stendur fyrir sínu í sambandi við þau störf sem hann vinnur.
    Það var þetta sem mér líkar ekki og ég verð að segja eins og er að ég verð að biðja varaformann byggingarnefndar Þjóðleikhússins að taka þessi orð aftur. Mér finnst að það sé ástæða til. Við erum búnir að halda marga fundi í samstarfsnefndinni með þessum aðilum og ræða þessi mál og það er margt sem mætti um það segja sem ég ætla ekki að upplýsa hér á þessu stigi mála, það getur komið síðar. En ég verð þó að upplýsa á þessari stundu að það sem stendur í vegi fyrir því að veita heimild til þess að hefja framkvæmdir í Þjóðleikhúsinu er það að sú kostnaðaráætlun sem byggingarnefndin leggur fram er 75 millj. kr. hærri en fjármagn það sem er á fjárlögum segir til um. Það er vandinn og hvernig hann verður leystur kemur væntanlega í ljós núna næstu daga.