Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er leitt til þess að vita að umræða um Þjóðleikhúsið skuli leiða til einhverrar samanburðarfræði við Borgarleikhús og þá helst að skilja að það sé einhver öfund leikara Þjóðleikhússins sem ráði ferðinni. Óánægja með sal og starfsaðstöðu í Þjóðleikhúsinu er síður en svo ný af nálinni. Erfiðleikar í vinnu eru öllum kunnir sem þar starfa. Við þekkjum öll vondar sjónlínur, vondan hljómburð, erfiðleika við hönnun og meðferðir leikmynda, erfiðleika við að lýsa sýningar og þann skort á sambandi við áhorfendur sem oft er og áhorfendur finna auðvitað líka. Þetta allt er öllum fullljóst sem þarna vinna.
    Ekki hefur kröfuharkan þó verið meiri en svo að engum datt í hug að fara fram á þessar breytingar og leggja í kostnað þeirra vegna einna. En þegar fyrir lá að þyrfti vegna viðhalds og endurbóta, m.a. í öryggisskyni, að leggja í gífurlegan kostnað var einboðið að reyna að bæta leikhúsið og laga annmarka þess í leiðinni, ekki leikaranna vegna heldur leiklistarinnar og áhorfenda vegna. Ef leikarar, listamenn og starfsfólk hússins væru að hugsa um eigin hag mundu þeir t.d. neita að vinna áfram við þær aðstæður sem öllu starfsfólki Þjóðleikhússins eru boðnar þar baksviðs. Þeim aðstæðum er ekki hægt að lýsa svo ómögulegar sem þær eru. En starfsmenn, trúir listinni, vilja að fyrst sé leið listarinnar til áhorfenda gerð greiðari og betri og svo langt hafa þeir gengið að þeir hafa meira að segja sætt sig við það að fé til endurbóta og viðhalds sem fyrst og fremst stafar af vanrækslu sé að stórum hluta til sótt í vasa þess fólks sem hefur um árabil starfað við Þjóðleikhúsið. Því að staðreyndin er sú að svo stórlega hefur dregið úr starfsemi Þjóðleikhússins að hluti af þeim þremur hundruðum sem áformað er að leggja í þessar endurbætur núna, 100 millj., eru teknar beint úr starfseminni og þetta hygg ég að sé
alveg einsdæmi í meðferð opinberra bygginga hér á landi að starfsfólk í rauninni fjármagni endurbætur og viðhald.
    Ég hef oft gert leikhús og leiklist með einum eða öðrum hætti að umtalsefni hér og því miður oft við litlar undirtektir. Því er auðvitað gott og ég þakka þann áhuga sem menn hafa sýnt hér á leiklistinni þó að gjarnan mætti vera meiri þekking í för hjá sumum sem hafa tekið til máls. En þessi samanburður milli Borgarleikhúss og Þjóðleikhúss, og að halda það að Borgarleikhús hafi gert Þjóðleikhús ónauðsynlegt, sýnir auðvitað mikið skilningsleysi og það að fólk hefur lítið fylgst með þeirri starfsemi sem verið hefur undanfarin ár. Leikfélag Reykjavíkur hafði oftast síðustu ár annað húsnæði til umráða. Um árabil voru sýningar tvisvar til þrisvar í viku í Austurbæjarbíói sem tekur 1000 manns í sæti þannig að fylltist það tvisvar eða þrisvar í viku var það álíka áhorfendafjöldi og sá sem fer í Borgarleikhúsið á viku. Seinna hafði Leikfélag Reykjavíkur svo skemmu úti á Granda sem það fyllti kvöld eftir kvöld til viðbótar við starfsemina

við Tjörnina. Þjóðleikhúsið hefur líka haft yfir öðrum sviðum að ráða en stóra sviðinu og þau aðsóknarmetár sem hafa verið á Íslandi hafa einmitt verið þegar Þjóðleikhúsið var með starfsemi mjög víða með leikhópum sem fóru mjög víða og Leikfélag Reykjavíkur hafði til umráða annað stórt hús. Svo að það er alger misskilningur að verið sé að bæta svo mjög við sætafjölda í leikhúslífi Reykvíkinga. Því að eign þjóðarinnar á Þjóðleikhúsi birtist með þeim einum hætti að þjóðin greiði til Þjóðleikhúss og Þjóðleikhúsið sinni ekki landsbyggð verður að vísa heim til föðurhúsanna. Auðvitað má til sanns vegar færa að Þjóðleikhúsið hefur ekki uppfyllt skyldur sínar sem skyldi við landsbyggð. Það hefur það heldur ekki gert við ýmislegt annað, svo sem íslenska leikritun, nýjungar og formtilraunir af ýmsu tagi. Allt þetta stafar einmitt af ákvörðunum sem teknar eru hér á hinu háa Alþingi. Það eru fjárveitingar af skornum skammti sem hafa komið í veg fyrir að Þjóðleikhúsið hafi getað verið eign allrar þjóðarinnar með þeim hætti sem það gjarnan vildi.
    Talandi um áhugastarfsemi víða um land held ég að það viðurkenni allir atvinnuleikarar og aðrir listamenn sem vinna við leikhús, að rætur leikhússins liggja svo sannarlega í áhugamennskunni og þann áhuga sem landsmenn upp til hópa virðast hafa á leiklist má auðvitað að stórum hluta til rekja til þeirrar starfsemi. Þetta eru alls ekki andstæður heldur styður hvað annað í þessu efni.
    Það er skyndilega talað um að Þjóðleikhúsið muni standa frjálsum leikhópum fyrir þrifum eða fjárveitingar til þessara endurbóta í Þjóðleikhúsinu. Til þess var og höfðað að ég hefði starfað í Alþýðuleikhúsi og þekkti þann skort á fjármagni sem frjálsir leikhópar byggju við. Auðvitað þekki ég hann og ástæðan fyrir því að ég varð að yfirgefa það leikhús var að ég og mín fjölskylda hafði hreinlega ekki efni á því að borga með okkur í fleiri, fleiri ár til þess að geta sinnt því starfi. En það að þeir leikhópar hafa ekki fengið fjármagn og það að áhugastarfsemin hefur ekki fengið fjármagn er ekki vegna fjár sem hefur verið veitt til þjóðleikhúss heldur vegna þess að fyrir því hefur ekki verið skilningur að það þyrfti kannski fleira en Þjóðleikhús eitt. Og þessu á síður en svo að stefna saman sem einhverjum andstæðum.
    Hv. 16. þm. Reykv. gerði hér að umræðuefni framtíðaráætlanir byggingarnefndar. Í raun og veru er ástæðulaust að hafa áhyggjur af þeim framtíðaráætlunum. Þær eru ekki á dagskrá, til þeirra eru ekki fjárveitingar. Þarna er einungis verið að reyna að gera sér einhverja heildarmynd af því sem hugsanlega gæti gerst í framtíðinni þannig að þær breytingar sem nú eru gerðar inni í Þjóðleikhúsi séu gerðar í einhverju samhengi við vaxandi starfsemi Þjóðleikhússins á næstu árum. Og við skulum vona að hún vaxi. Með vaxandi borg og auknum mannfjölda vaxi starfsemi Þjóðleikhúss. Ég held að það hafi mátt viðhafa þessi vinnubrögð annars staðar og menn hafi víða sopið seyðið af því að hafa einmitt ekki gert sér

einhverja heildarmynd áður en út í framkvæmdir var lagt. Það er ekki þar með sagt að hún geti ekki tekið breytingum þegar þar að kemur en nauðsynlegt er að reyna að hafa heildarsýn þannig að ekki sé verið að brjóta og byggja eitthvað sem þarf síðan að breyta aftur á morgun.
    Hvað breytingar í sal varðar vil ég að lokum aðeins segja þetta, virðulegur forseti. Fólk gengur inn í Þjóðleikhús, það sest þar inn í sal, það horfir í kringum sig en innan tíðar dofna og slokkna ljósin í salnum og tjaldið er dregið frá og ljósin á sviðinu kvikna og þá skiptir hús ekki lengur máli heldur, ef vel tekst til, einungis það sem fram fer á sviðinu og því á allt sem gert er að miða að því að þess verði notið sem best.