Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Flm. (Eiður Guðnason):
    Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður sem hér hafa orðið um þessa litlu tillögu mína. Hv. 1. þm. Vesturl. tók til orða á þann veg að betur hefði slík afstaða legið fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Rétt er það og satt. En þegar fjárlög voru afgreidd í þessum virðulega sal, hvað lá þá fyrir um þetta mál hjá hinum almenna þingmanni? Jú, í fjárlögum eins og samþykkt eru stendur undir liðnum Þjóðleikhús: ,,Fjárfestingar 275 millj.`` Eitt orð.
    Í fjárlagafrv. sem þingmenn hafa til handargagns og lesa auðvitað gaumgæfilega og tileinka sér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Talsverð óvissa ríkir um rekstur Þjóðleikhússins á ári komanda. Stofnuninni hefur ekki tekist að halda rekstri innan fjárlaga undanfarin ár. Húsið sjálft er í fremur lélegu ásigkomulagi og fyrirhugaðar eru umfangsmiklar endurbætur á því.``
    Þar stendur hvergi og það var engum sagt að það ætti að byggja nýtt hús inni í gamla húsinu. Það var talað um endurbætur á Þjóðleikhúsinu, það var talað um viðhald og viðgerðir og um það voru allir sammála. Það er engin röksemd þegar hv. 1. þm. Suðurl. kemur í þennan ræðustól og segir: Það þarf að brjóta svo mikið til að laga lagnakerfin að það er eins gott að gera þá eitthvað meira. Það eru ekki rök í þessu máli. Og af því að ég er byrjaður að beina orðum mínum til hv. 1. þm. Suðurl. þá tók hann þannig til orða um húsameistara ríkisins og hans persónu að það var hv. 1. þm. Suðurl. ekki til sóma svo mjög vægt sé til orða tekið. Það gefur okkur ekkert rétt til þess í þessum ræðustól að taka fyrir nafngreinda einstaklinga úti í bæ og segja að þeir hafi í málefnum sínum og vinnu fyrir hið opinbera verið eins og vindhanar frá degi til dags eins og hv. þm. sagði hér. Ég tel þetta óviðurkvæmileg ummæli, óviðeigandi og ósmekkleg og væri hv. 1. þm. Suðurl. sæmst að taka þessi orð aftur og biðjast á þeim velvirðingar. (Gripið fram í.) Hann hefur enn tækifæri til að gera það. Það kemur í ljós hvort hann treystir sér til þess.
    Hv. 3. þm. Suðurl. gerði því skóna að hér væri um eitthvert deilumál milli stjórnarflokkanna að ræða. Það er grundvallarmisskilningur, mikill misskilningur, hv. þm. Eggert Haukdal. Þetta mál á ekkert skylt við slíkt. Ég er að vísu aðili að ríkisstjórn með hæstv. menntmrh. Svavari Gestssyni. Það þýðir ekki að ég sé sammála öllu sem hann gerir og ég hef fullan rétt til þess að láta þær skoðanir mínar í ljós, bæði í þessum ræðustól og með því að flytja þingmál. Það geri ég, það hef ég gert og það mun ég gera. Og það á einfaldlega ekkert skylt við flokkspólitík fremur en það að 1. þm. Suðurl. og 3. þm. Suðurl. sem varða dyrnar í þennan sal eru í sama flokki en þeir eru gersamlega ósammála um þetta mál. Þetta kemur bara flokkspólitík ekkert við. Þetta mál er langt þar fyrir ofan og utan.
    Hv. þm. Árni Johnsen taldi að ég hefði tekið mér stór orð í munn að tala um að fólkið í landinu vildi

þetta ekki. Ég sagði það aldrei. Það er misheyrn hjá hv. þm. eins og ýmislegt fleira. Það er ákaflega margt fólk í þessu landi tel ég mig geta sagt sem ekki vill þetta. Leikararnir í Þjóðleikhúsinu eiga ekki Þjóðleikhúsið. (Gripið fram í.) Þeir hafa sama rétt og við. Við höfum rétt til að tjá okkar skoðanir og þeir hafa það, vissulega. Ekki dreg ég það í efa. Og sjálfsagt hafa þeir um margt betra vit á ýmsu þar en mörg okkar. En það breytir ekki því að aðrir hafa leyfi til að hafa skoðanir á þessu og hafa það. Og ég leyfi mér líka að draga það í efa þegar hv. 1. þm. Suðurl. fullyrðir hér í ræðustól að innan við 20 arkitektar hafi kynnt sér málið. Það er mikill sleggjudómur.
    Nú er ekki svo að það sé alger einhugur í röðum listamanna eða leikara um þær breytingar sem á að gera. Ég er með í höndum greinargerð leikstjóra Þjóðleikhússins, Brynju Benediktsdóttur og Benedikts Árnasonar, frá því í maí 1989. Þar er fjallað um sal og framhús og segir m.a.:
    ,,Þær breytingar sem við teljum að gera eigi á sal eru óverulegar hvað snýr að áhorfendum.``
    Og svo segir: ,,Svo sem áður var minnst á viljum við breyta áhorfendasal sem allra minnst, aðeins bæta inn í hann þeim útbúnaði fyrir leiksýningar sem nútímaleikhús kallar á.`` Það er óhætt að taka undir hvert einasta orð. En ef það er rétt að búið sé að eyða tugum milljóna, ég held að mig misminni ekki að ég hafi heyrt nefndar 50 millj. í hönnunarkostnað, þá spyr ég: Hvar fengu menn umboð til slíkra útláta? Hið háa Alþingi hefur aldrei samþykkt það. Það hefur aldrei verið lagt fyrir Alþingi. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þessar breytingar nái fram að ganga fyrr en þingviljinn í málinu hefur komið fram, þ.e. fyrr en atkvæði hafa gengið um þessa tillögu, vegna þess að það er ekki rétt að þingmenn hafi samþykkt þessar breytingar með samþykkt fjárlaga. Það er einfaldlega rangt. En auðvitað hljóta menn að doka við með framkvæmdir. Ég vona að þessi tillaga fái skjóta afgreiðslu í nefnd. Auðvitað hljóta menn að doka við þangað til þingviljinn liggur fyrir. Ég veit ekkert hver niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu verður. Verði hún sú að tillagan verði felld er auðvitað ekkert annað að gera en að una því. Þá er málið afgreitt og
uppgert. Það er hægt að segja það alveg hreint út. Ég ætla ekki að nota það orðalag sem hv. 1. þm. Suðurl. notaði hér áðan, ég skrifaði það eftir honum, ,,svo hreint sé úr pokahorninu talað``. ( ÁJ: Er eitthvað óhreint við þetta?) Þetta er, hv. þm., ekki góð íslenska. Ég hélt satt að segja að ég væri að hlusta á hana Bibbu.
    En alveg burt séð frá öllu því sem hér hefur verið sagt þá eigum við að gera vel við okkar Þjóðleikhús. Það á að laga það sem vanrækt hefur verið og bæta. Ég get ekki að því gert að í minn huga kemur það æ oftar að auðvitað er nauðsynlegt að starfsaðstaða sé góð og allt slíkt í góðu lagi. En ég á góðar minningar um margar mjög eftirminnilegar og áhrifamiklar stundir þar sem íslenskir listamenn hafa flutt góða list í þessu vonda húsi, sem hv. þm. Þórhildur

Þorleifsdóttir fann flest eða allt til foráttu áðan. Ég á líka afar góðar minningar um list sem risið hefur hátt í Iðnó hérna við Tjörnina sem fullnægir sjálfsagt engum kröfum sem nú eru gerðar. Ég held að við getum áfram átt góða leiklist og að mikilhæfir listamenn geti starfað við góð skilyrði í okkar Þjóðleikhúsi, enda þótt ekki sé byggt nýtt hús inni í því gamla.