Dómsvald í héraði
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Eins og fram kemur hef ég undirritað nál. sem hér er til umræðu með fyrirvara. Fyrirvari minn byggist á setningu bráðabirgðalaga svo skömmu áður en áætlað var að þing kæmi saman. Eins og fram kom við undirbúning þessa máls, þ.e. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, vorum við kvennalistakonur hlynntar því frá upphafi og studdum að sjálfsögðu það frv. sem varð að lögum á síðasta þingi. Það er hins vegar spurning hvort hér bar svo brýna nauðsyn til, eins og segir í stjórnarskránni, að nauðsynlegt hafi verið að setja bráðabirgðalög. Ég vil aðeins benda á að þegar þingi var frestað 22. des. sl. var það gert með eftirfarandi orðum hæstv. forsrh.: ,,Enda verði þingið kvatt til fundar á ný eigi síðar en 22. jan. 1990.``
    Það hefði ekkert verið því til fyrirstöðu ef svo mikið lá við, ef svo brýna nauðsyn bar til, að kalla þingið saman níu dögum fyrr og ég þykist þess fullviss að alþingismenn allir hefðu verið reiðubúnir til að afgreiða þetta mál þá þegar.