Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um flutning Lyfjatæknaskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands til menntmrn. sem flutt er á þskj. 871. Fjórir skólar heilbrigðisstétta eru nú reknir af heilbr.- og trmrn. Það er Ljósmæðraskóli Íslands, Lyfjatæknaskóli Íslands, Sjúkraliðaskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands. Heilbrrn. hefur hins vegar verið þeirrar skoðunar að rekstur skóla væri á verksviði menntmrn. eða ætti að vera það. Af þessum sökum hefur hjúkrunarnám sem áður var í höndum heilbr.- og trmrn. verið fært undir yfirstjórn menntmrn. og sama máli gegnir um nám í röntgentækni svo nýleg dæmi séu tekin.
    Á síðustu árum hefur verið boðið upp á sjúkraliðanám í fjölbrautaskólum. Heilbrrn. telur því að ekki sé lengur þörf á Sjúkraliðaskóla Íslands og hefur ráðuneytið nú þegar hafið undirbúning að því að skólinn verði lagður niður frá og með 1. nóv. 1990.
    Samkomulag hefur nú náðst milli heilbr.- og trmrn. annars vegar og menntmrn. hins vegar um frekari framgang þessa máls. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að yfirstjórn Lyfjatæknaskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands flytjist til menntmrn. frá og með 1. júlí 1990 ef frv. þetta verður að lögum á þessu þingi. Gert er ráð fyrir að framlög í fjárlögum ársins 1990 flytjist milli ráðuneytanna sem þessu nemur, samningar um húsaleigu, ráðningarsamningar o.fl.
Jafnframt hefur verið gert samkomulag um það að heilbrrn. leggi niður Ljósmæðraskóla Íslands á árinu 1992. Þetta þýðir að sá hópur ljósmæðranema sem byrjar nám haustið 1990, þ.e. á komandi hausti, verður sá síðasti sem lýkur námi frá skólanum og mun starfsemi skólans lögð niður í framhaldi af námslokum þess hóps vorið 1992. Á vegum menntmrn. er nú hafin athugun á framtíðarskipan ljósmæðranáms og hugsanlegum tengslum þess við námsbraut í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands. Breyta þarf fimm lögum svo að breytingar þessar sem ráðherrar heilbrigðismála og menntamála hafa samið um nái fram að ganga. Breytingarnar eru þessar:
    Breyta þarf 15. gr. laga um lyfjadreifingu nr. 76/1982, með síðari breytingum, en þar er fjallað um menntun lyfjatækna. Breyta þarf tveimur ákvæðum í lögum um sjúkraliða nr. 58/1984, með síðari breytingum. Fyrri breytingin tekur mið af þeirri skipulagsbreytingu sem verður á námi sjúkraliða eftir að Sjúkraliðaskólinn er lagður niður. Síðari breytingin fellir niður heimild heilbrrh. til að setja reglur um nám sjúkraliða.
    Breyta þarf einni grein í lögum nr. 40/1985, um Þroskaþjálfaskóla Íslands, í þá veru að í stað heilbr.- og trmrh. komi menntmrh. Og breyta þarf tvennum lögum vegna fyrirhugaðra breytinga á ljósmæðranámi. Annars vegar þarf að setja sólarlagsákvæði í lög nr. 35/1964, um Ljósmæðraskóla Íslands, þannig að þau falli úr gildi 31. des. 1992. Hins vegar þarf að breyta

1. mgr. 2. gr. ljósmæðralaga, nr. 67/1984, til samræmis við breytt ljósmæðranám.
    Herra forseti. Ég hef nú rakið þær breytingar á lögum sem samkomulag heilbr.- og trmrh. og menntmrh. um fyrirkomulag náms nokkurra heilbrigðisstétta kallar á. Þess er vænst að máli þessu megi ljúka á yfirstandandi þingi því áformað er að flutningur þeirra skóla sem færast eiga milli ráðuneytanna verði hinn 1. júlí n.k. og þeir hefji störf undir forustu mennmtmrn. á n.k. hausti.
    Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.