Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir var samið af nefnd sem í sátu fulltrúar fjmrn. og Seðlabanka. Tilefni frv. er fyrst og fremst að á undanförnum árum hafa átt sér stað verulegar breytingar á innlendum og erlendum peningamarkaði og ljóst er að þær breytingar munu halda áfram af enn meira krafti á næstu árum. Þessar breytingar hafa leitt til þess að hefðbundið hlutverk fjmrn. annars vegar og Seðlabanka hins vegar hvað snertir þau verkefni sem snúa að fjárþörf ríkisins með lántökum og sölu á spariskírteinum og ríkisvíxlum eru ekki í dag þess eðlis að hægt sé að hafa þau í höndum fjmrn. sem slíks eða Seðlabankans.
    Ég veit að ég þarf ekki að rekja fyrir hv. þingdeildarmönnum að það hafa orðið miklar breytingar á undanförnum árum á íslenskum peningamarkaði. Viðskiptabankarnir hafa breytt mjög starfsemi sinni og aukin samkeppni hefur færst í þennan markað, m.a. með stofnun sérstakra verðbréfafyrirtækja og sjóða. Þess vegna er það mjög mikið mál og mikilvægt verkefni fyrir ríkissjóð á okkar tímum að þurfa að afla innlends lánsfjár í samkeppni við fjölmarga aðra aðila á innlendum peningamarkaði vegna þess að í fjárlögum og lánsfjáráætlun hvert ár er fjmrh. lögð sú skylda á herðar að afla innlends lánsfjár í formi sölu á spariskírteinum og ríkisvíxlum á markaði þar sem frjáls samkeppni er við aðrar peningastofnanir.
    Einnig er ljóst að á erlendum lánamörkuðum hafa verið að eiga sér stað mjög miklar breytingar sem gera það að verkum að það er ekki jafneðlilegt og áður var að Seðlabanki einn og sér annist lántökuverkefni fyrir hönd ríkissjóðs, m.a. vegna þess að aðrar kröfur eru gerðar til Seðlabanka nú á tímum og í framtíðinni en var áður. Sérstaklega er það talið óeðlilegt að Seðlabanki sé í reynd fulltrúi ríkissjóðs á erlendum lánamörkuðum við þær lántökur heldur sé annar og óháður aðili, þ.e. óháður Seðlabankanum, sem það annast. Má í því sambandi nefna sem dæmi að nýlega hefur komið upp mál eins og lesa mátti um í fjölmiðlum þar sem Englandsbanki mat lántökukostnað og vaxtagjöld vegna lána til Landsvirkjunar með öðrum hætti en innlendir aðilar og Seðlabanki Íslands þurfti að gefa álitsgerðir um það efni sem sjálfstæður aðili gagnvart Englandsbanka.
    Í ljósi þessara miklu breytinga var talið nauðsynlegt að vel athuguðu máli í fjmrn. og í Seðlabankanum að gera svipaða breytingu hjá okkur á Íslandi og gerð hefur verið í flestum nágrannalöndum okkar. Þetta frv. sem hér er flutt miðar að því að festa ákveðinn lagaramma um þessa starfsemi.
    Frv. felur í sér að í fyrsta lagi er Lánasýslu ríkisins ætlað að sinna ábyrgðar- og endurlánamálum sem hingað til hafa verið starfrækt í Ríkisábyrgðasjóði og þau málefni þannig færð undir þennan nýja aðila.
    Í öðru lagi að sinna sölu og innlausn innlendra markaðsbréfa og starfrækja þjónustumiðstöð fyrir kaupendur slíkra verðbréfa. Í upphafi sl. árs sögðu

viðskiptabankarnir upp þeim samningi sem þeir höfðu gert við fjmrn. um sölu spariskírteina ríkissjóðs og fjmrn. var knúið til þess að halda út á markaðinn og keppa við bankastofnanir og verðbréfasjóði um sölu spariskírteinanna. Það varð þess vegna að grípa til þess með nokkurri skyndingu að koma því í ákveðið form. Gerður var um það samningur milli Seðlabankans og fjmrn. að þjónustumiðstöðin yrði sett á laggirnar en hins vegar var það ljóst að finna yrði henni lagaramma til frambúðar vegna þess að slík starfsemi þyrfti að byggjast á slíkum ákvæðum. Þess vegna er í þessu frv. ákveðið að þessi mikilvæga sala á spariskírteinum ríkissjóðs og reyndar ríkisvíxlum falli undir þennan þátt. Í því sambandi vil ég árétta það sem ég sagði áður að það er óeðlilegt að fjmrn. sem stofnun eða Seðlabanki sem slíkur verði samkeppnisaðilar beint, án slíkrar þjónustumiðstöðvar eða söluaðila, við viðskiptabanka, lífeyrissjóði eða verðbréfasjóði.
    Í þriðja lagi er þessum nýja aðila falið að annast erlend lánamál ríkissjóðs. Á síðustu árum hefur mikill fjölbreytileiki komið fram á erlendum lánamörkuðum. Það eru þess vegna miklir möguleikar til að spara verulega lántöku- og vaxtakostnað ríkisins með því að vera vel vakandi fyrir breytingum og hugsanlegum endurnýjunarlánum á þeim markaði þar sem um mjög háar upphæðir er að ræða þannig að örlítil frávik í vaxta- og lántökukostnaði geta sparað Íslendingum háar upphæðir.
    Þessir þrír þættir verða verkefni Lánasýslu ríkisins og í frv. er kveðið nánar á um það með hvaða hætti þessu verður fyrir komið. Ég vil taka það skýrt fram að hér er ekki verið að setja á laggirnar eitthvert nýtt bákn nema síður sé. Það er fyrst og fremst verið að flytja á eina hendi þá starfsemi sem nú er þegar fyrir hendi hjá þremur aðilum, í fjmrn., hjá Seðlabanka og hjá þjónustumiðstöðinni, og það er ekki reiknað með því að bæta neitt við starfsmönnum þó að þessi breyting verði gerð.
    Ég vil hins vegar ítreka það að ef á allra næstu missirum verður opnað fyrir samskipti og beint streymi milli innlends og erlends peningamarkaðar er auðvitað ljóst að þeir hagsmunir sem hér eru í húfi og ætlað er að finna
fastan lagagrundvöll með þessu frv. verða mun meiri. Þá verður það enn meira verkefni fyrir íslenska ríkið að tryggja það að innlend fjáröflun náist á markaði sem verður þá ekki bara samkeppnismarkaður innan lands, heldur einnig alþjóðlegur markaður. Og á sama hátt verður það mjög mikilvægt að þau lántökukjör erlendis sem íslenska ríkið fær séu í samræmi við hagstæðustu kjör á hverjum tíma.
    Eins og ég sagði í upphafi þá er frv. unnið af samstarfsnefnd Seðlabankans og fjmrn. Það hefur verið borið undir ýmsa sérfræðinga á þessu sviði og það er einróma álit þeirra allra að það sé nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að koma þessari starfsemi í hliðstæðan lagaramma og gert er í flestum nágrannalanda okkar.
    Ég mælist svo til þess, virðulegi forseti, að að

lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr. þar sem nánari upplýsingar um eðli málsins geta fengist.