Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Þetta mál er alveg nýtt af nálinni og ég hef ekki kynnt mér það ofan í kjölinn að neinu leyti og get þess vegna ekki fjallað um það efnislega svo mikið vit sé í. En það fer alltaf hálfgerður hrollur um mig þegar nýjar ríkisstofnanir, ekki síst á sviði fjármála, eru til umræðu og þó einkum og sér í lagi þegar menn halda því fram, ekki endilega þessi hæstv. fjmrh. heldur þeir sem í þessari stjórnsýslu eru og fjármálalífinu, að þarna geti orðið um sparnað að ræða. Við höfum nú séð þann sparnað í verki víða um bæ í byggingunum og tölvubúnaðinum sem kallar á fleira fólk en fyrir var áður en tölvurnar komu o.s.frv. Ég vil þess vegna gjalda allan varhug við því að menn fari of langt inn á að þetta hljóti að vera til einföldunar og sparnaðar. En ekkert skal ég fullyrða fyrr en ég hef kannað málið betur og heldur ekki fjölyrða um mál sem ég þekki ekki nægilega til að gera það. En svo vel vill til að ég á sæti í hv. fjh.- og viðskn. sem hæstv. ráðherra leggur til að fái málið til umfjöllunar eðli málsins samkvæmt og ég leyfi mér að skilja orð hans svo að það sé ekki ætlast til að frv. verði afgreitt sem lög á eldingarhraða.
    En málið kemur sem sagt til nefndarinnar og þar verður það skoðað. Kannski er hægt að færa fyrir því einhver rök að það sé verið að sameina stofnanir eða starfsemi á ríkisins vegum sem muni þýða sparnað, en það tek ég ekki svona alveg hrátt. Ég vil melta það betur, enda ekki til annars ætlast. (Gripið fram í.) Ég sagði enda ekki til annars ætlast.