Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka það fram í beinu framhaldi af ræðu síðasta ræðumanns að ég hef fyrir reglu að trúa engu sem stendur í Pressunni, en fjmrh. svarar fyrir það þannig að ég ætla ekki að svara neitt fyrir hann.
    Eftir að við höfðum skoðað þetta í þingflokki hjá okkur get ég tekið undir það að full þörf sé á að samræma þessa starfsemi á þann hátt sem hér er gert. En ég geld nokkurn varhug við að séð verði til þess að það verði ekki allt of margir íbúar í Lánasýslu. Ég hef að vísu ekki fengið neina skýringu á því hvar Lánasýsla muni eiga að vera, hvar hún kemur inn í okkar landafræði. Ég vildi því leggja hér mikla áherslu á það að ef það er rétt, sem ég dreg ekki í efa, að nauðsynlegt sé fyrir okkur að samræma þessa starfsemi þá verði séð til þess að henni verði þannig komið fyrir að kerfið bólgni ekki út meira en orðið er. Óneitanlega horfir maður á allt það apparat sem er í svarta húsinu okkar sem hefur séð um þetta fram að þessu og veltir því fyrir sér hvort ekki sé hægt að samræma það þannig að dregið sé úr umfangi Seðlabankans á móti til þess að mæta þeim kostnaði sem við þessa stofnun er.