Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég skil ósköp vel að þær spurningar skuli vakna sem hér hafa komið fram og sumar þeirra eru auðvitað þess eðlis að það er eðlilegt að þær séu skoðaðar nánar í nefnd.
    Ég vil fyrst vekja athygli á því að í 9. gr. frv. eru ákvæði um það að heimilt sé að semja við Seðlabankann um að hann annist framkvæmd erlendra lánamála ríkisábyrgða og endurlánamála eftir því sem hagkvæmt þykir. Þetta er sett þarna inn vegna þess að ætlunin er auðvitað að reyna að hagnýta sér þá aðstöðu sem í Seðlabankanum er og sérfræðikunnáttu. Vandinn er hins vegar sá að á nútíma peningamarkaði, sérstaklega erlendis, og miðað við ýmsar breyttar hugmyndir um eðli Seðlabanka, og líka í ljósi þess sem síðasti ræðumaður vék að að það eru ýmsir fleiri á lánamarkaðinum en ríkið, m.a. sjóðir, fyrirtæki og aðrir, þá er á ýmsan hátt óeðlilegt að Seðlabankinn sé, ef ég má nota það erlenda orð, ,,agent`` ríkisins við lántökurnar. Vegna þess að Seðlabankinn þarf öðrum þræði að geta verið óháður umsagnaraðili og eftirlitsaðili gagnvart bæði erlendum og innlendum aðilum. Þetta var auðvitað öðruvísi fyrir mörgum árum síðan þegar peningakerfi veraldarinnar var mun einfaldara og peningakerfi okkar sjálfra var mun einfaldara en það er nú.
    Það er alls ekki ætlunin þess vegna að fara að búa til einhverja tvöfeldni í þeim verkefnum sem eiga að vera í Seðlabanka og þeim sem eiga að vera á þessu sviði, heldur fyrst og fremst búa þannig um hnútana að íslenska ríkið geti rekið sína fjármálastarfsemi með sem eðlilegustum og hagkvæmustum hætti. Ég nefni í því sambandi að ávinningurinn af því að ná lánakjörum og vaxtakjörum sem eru kannski aðeins brot úr prósenti hagstæðari en þau voru fyrir getur skipt hundruðum milljóna fyrir íslenska þjóðarbúið. Ég vil taka sem dæmi um nýjar aðferðir í þessum efnum að á sl. ári bauð íslenska ríkið út erlent lán að upphæð 100 millj. dollara. Það var hið alþjóðlega fyrirtæki Goldman Sachs sem
annaðist það útboð fyrir hönd ríkisins með mjög góðum árangri. En það var alveg ljóst í þeim samskiptum að það var dálítið snúið. Annars vegar voru samskiptaaðilarnir hér heima Seðlabankinn sem miðbanki og svo hins vegar fjmrn. sem formleg stjórnsýslustofnun.
    Víðast hvar í stjórnkerfum hliðstæðum því sem við búum við eru það samstarfsstofnanir fjmrn. og seðlabanka, sem á þeirra málum eru nefndar ,,bureaus``, sem þetta annast.
    Hvað snertir þjónustumiðstöðina og þá grein sem birtist í Pressunni þá fagna ég því að geta farið um það nokkrum orðum vegna þess að þessi grein er auðvitað eitt af mörgum dæmum um uppslátt þar sem kjarni málsins er hins vegar falinn inni í greininni. Ég vil aðeins vekja athygli þingmanna á því að inni í greininni, síðasta dálki greinarinnar og það er auðvitað hvergi vakin athygli á því í fyrirsögnum eða sérstökum römmum sem teknir eru út úr, stendur, með

leyfi forseta:
    ,,Þess ber að geta að viðmælendur Pressunnar voru almennt sammála um að stofnun þessarar þjónustumiðstöðvar fæli ekki í sér uppsetningu á nýju bákni og ef eitthvað væri mundi kostnaður ríkissjóðs minnka þar sem söluþóknun til óskyldra umboðsaðila drægist saman.`` Hér viðurkennir blaðið það sem er auðvitað kjarni málsins að útgjöld ríkisins vegna sölu á spariskírteinum á síðasta ári voru minni en þau hefðu orðið ella ef viðskiptabankarnir eða aðrir aðilar hefðu annast þessa sölu. Það er því ljóst að hvað heildarútgjöld snertir er beinlínis sparnaður að því að hafa þetta kerfi sem hefur verið komið upp.
    Ástæðan hins vegar fyrir því að það var nauðsynlegt að gera þetta í mikilli skyndingu í fyrra var að viðskiptabankarnir sögðu upp með litlum fyrirvara þeim samningi sem hafði verið gerður við þá um sölu á spariskírteinum. Fjmrn. átti því engan annan kost en að reyna, miðað við þörfina á að afla þessa innlenda fjár, að finna því farveg sem gæti skilað árangri. Hins vegar var alltaf ætlunin að gera það með þeim hætti að innan tíðar yrði fundinn lagagrundvöllur fyrir það.
    Ég vil svo geta þess m.a., sem ánægjulegt er, að ein af þeim nýjungum sem kom til sögunnar með þessari starfsemi var áskriftarkerfi almennings að spariskírteinum ríkissjóðs. Og hið ánægjulega er að yfir 4000 Íslendingar hafa þegar gerst þátttakendur í þessu áskriftarkerfi þannig að verðmæti þeirra áskrifta í sölu á spariskírteinum er yfir 100 millj. kr. á mánuði. Þetta hefur vakið mikla og alþjóðlega athygli að slíkt áskriftarkerfi almennings að þessu sparnaðarformi skuli gefast svona vel.
    Það er misskilningur hjá Pressunni að þessi kostnaður sé sérstaklega falinn sem vaxtakostnaður. Það hefur ávallt verið gert að færa kostnaðinn við söluna á spariskírteinum ríkissjóðs í tengslum við vaxtakostnaðinn, þ.e. kostnaðinn við hina innlendu lánsfjáröflun ríkisins. Þess vegna var í engu vikið frá þeirri venju sem hafði verið um árabil. Munurinn var bara sá að áður var þessi kostnaður greiddur viðskiptabönkunum eða öðrum söluaðilum en nú var hann
greiddur þessari þjónustumiðstöð en var hins vegar minni en hann hefði orðið ella.
    Tilgangurinn með því að flytja þetta frv. er þess vegna, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, m.a. sá að finna þessari starfsemi fastan lagaramma. Nú hefur þessi tilhögun á tæpu ári gefist vel. Það er samdóma álit allra, líka viðskiptabankanna og verðbréfasjóðanna, að þessi reynsla af þjónustumiðstöðinni sé góð og þá sé tímabært að finna henni varanlegan, lagalegan grundvöll.
    Þess vegna er margt missagt og rangt með farið í þessari grein án þess að ég ætli að gera hana nánar að umræðuefni. Kjarni málsins er sá að það var í engu brugðið út af venju. Ríkisendurskoðun gerði þá athugasemd að æskilegra væri að sérstakur lagarammi yrði fyrir þessa starfsemi til frambúðar. Það er gert með því frv. sem hér er flutt. Kjarni málsins kemur

hins vegar fram í síðasta dálki fréttarinnar, að þessi máti reynist ríkinu ódýrari og hagstæðari en sá sem fyrr var hafður.
    Það er líka ljóst að niðurstaða Seðlabankans varð sú að þó það hafi þótt eðlilegt fyrir 10--20 árum að Seðlabankinn sæi um söluna á spariskírteinum ríkissjóðs sé það ekki eðlilegt í dag í því fjölþætta markaðskerfi í peningamálum sem við búum við þar sem margvíslegir aðrir verðbréfapappírar eru í boði frá verðbréfasjóðum, viðskiptabönkum, lífeyrissjóðum og öðrum og eðlilegt að ríkið standi þar að einnig með svipuðum hætti og aðrir en Seðlabankinn reki ekki þá starfsemi.
    Ég vona að ég hafi greitt úr þeim spurningum sem hér hafa komið fram en ítreka svo það sem ég sagði áðan að eðlilegt er að fjh.- og viðskn. kalli til sín þá sérfræðinga og aðra sem hún óskar eftir til þess að fá nánari skýringar á efnisþáttum frv.