Grunnskóli
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég mun fyrst fara nokkrum orðum um frv. almennt og síðan í einstakar greinar eins og þær horfa við nú.
    Í athugasemdum um frv. er gerð grein fyrir nokkrum helstu meginbreytingum þess, og vil ég þá fyrst nefna þá valddreifingu sem felst í frv. Nú verð ég að viðurkenna að þegar maður les frv. frá grein til greinar er stjórnunarkerfið allt nokkuð flókið og ekki auðskilið svona við fyrstu sýn og í rauninni hefði verið æskilegt að einhvers konar skipurit fylgdi frv. þannig að þingmenn hefðu betri tök á að átta sig á hvernig þessari valddreifingu er í raun háttað og hvernig hvað grípur inn í annað, og vil ég fara fram á það við hæstv. menntmrh. að slíkt skipurit sé útbúið ef mögulegt er. Þó verð ég að segja að ég er ekki sannfærð um að allt í frv. sé í valddreifingarátt, sums staðar sé einungis um tilfærslu að ræða og jafnvel sé hlutur menntmrn. aukinn. Um þetta vil ég þó ekki fullyrða fyrr en ég hef áttað mig betur á þessu stjórnunarkerfi en mun samt koma að því atriði eins og það er í einstökum greinum.
    Heildarmarkmið frv. eru út af fyrir sig gleðiefni, þ.e. lenging skóladags, einsetinn og heildstæður skóli, eins og það heitir, bætt aðstaða í skólahúsnæði og aukin hlutdeild foreldra í starfi skólans svo að eitthvað sé nefnt. Um þetta gildir það sama og um stjórnunina að ég mun koma nánar að því við hverja grein.
    Það vakti athygli mína þegar hæstv. menntmrh. mælti fyrir frv. fyrir tveimur dögum að hann sagði að frv. hefði farið frá menntmrn. og verið lagt fyrir ríkisstjórnina 12. okt. sl. Það hefur sem sagt tekið afar langan tíma fyrir þetta frv. að finna sér leið aftur út úr ríkisstjórninni. Ég skal svo sem ekki segja af hverju þetta stafar, en það setur að manni grun um að annaðhvort hafi áhugi ekki verið nægur eða menn hiki vegna þess aukna kostnaðar sem mun leiða af þessu frv. og hvort tveggja væri vondar fréttir ef sannar væru.
    Nú er það að vísu svo að það fylgir ekki kostnaðarmat með þessu frv. en ef maður ber þetta saman við frv. sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir hafa lagt fram getur maður gert sér einhverja grein fyrir þessum kostnaðarauka. Þó vil ég vekja athygli á því að varðandi skólabyggingar segir í frv. að því markmiði sem frv. setur sér sé hægt að ná með álíka framlögum og nú eru til skólabygginga og verð ég að segja eins og er að ekki þykir mér metnaðurinn nógur í því að það nægi sem lagt er fram í dag og það sýnir skort á þeim skilningi að hér sé um algjört forgangsverkefni að ræða, vegna barnanna sjálfra sem stunda nám nú og eiga eftir að stunda næstu árin, vegna foreldra þeirra, fjölskyldunnar allrar og þjóðfélagsins í heild. Mér finnst að margar blikur hafi verið á lofti undanfarið sem segja okkur það að ekki sé eftir neinu að bíða að gera verulega bragarbót í íslenskum skólum og koma með miklu ákveðnari hætti til móts við breytt þjóðfélag og breyttar kröfur og því sé tíu

ára áætlun ekki endilega það sem væri besti kostur nú. En ég kem aftur að þessu síðar.
    Strax í 1. gr. frv. er eitt nýmæli, þ.e. að nú er það lögfest sem í rauninni hefur viðgengist að stórum hluta til í framkvæmd, að skólaskylda taki til sex ára barna líka. Þetta er í samræmi við tillögu sem bæði var gerð í frv. Kvennalistans og Sjálfstfl. um grunnskóla og er ánægjulegt að sjá það hér, svo sjálfsagt sem það er, því að með því að lögfesta það ætti aukinn jöfnuður barna í landinu að vera tryggður.
    Í 2. gr. þar sem hlutverk grunnskólans er skilgreint í nokkrum orðum eru engar sérstakar breytingar, enda eru þarna á ferðinni nokkur opin og almenn markmið og ekki ástæða til að staldra við þau að svo stöddu. Það er miklu frekar í framkvæmdinni og þá í námsskrá sem betur er hægt að átta sig á inntaki þessarar greinar.
    Í 3. gr. er sú breyting að skólinn er gerður að tíu ára skóla í staðinn fyrir níu ára skóla og er það auðvitað í samræmi við 1. gr., en auk þess er þar að finna ákvæði um að stefnt skuli að því að grunnskóli sé heildstæður og einsetinn. Vegna orða hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar um ýmis orð í þessu frv. sem betur mættu fara, og er ég honum algjörlega sammála um flest, bendi ég einmitt á þetta orð, heildstæður. Ég hef orðið vör við að fólk skilur ekki þetta orð. Sjálf skildi ég það ekki og þurfti að fá skýringu á því fyrst. Nú fyrir nokkru var þetta frv. til umfjöllunar á nokkuð stórum fundi sem ég var stödd á og þar skildu einungis kennarar þetta orð. Aðrir þurftu útskýringar við. En hvað sem líður orðanotkun og orðasmíð er höfuðinntak þessarar setningar allra góðra gjalda vert, þ.e. þetta markmið um einsetinn heildstæðan skóla og að nemendur séu ekki fleiri en að jafnaði 650. Auðvitað má deila um tölur af þessu tagi en í frv. Kvennalistans um breytingu á lögum um grunnskóla var gert ráð fyrir færri nemendum, bæði í þessum svokölluðu heildstæðu skólum en ekki síður í þeim skólum þar sem einungis væru yngri bekkir. Þar hafði Kvennalistinn gert ráð fyrir að nemendafjöldi skóla færi ekki yfir 300 og þar sem seinna í frv. eru ákvæði um skólahúsnæði þar sem talað er um vistlegan vinnustað og heimilislegan og ýmislegt af því tagi er sjálfsagt að huga að því
hvort þessi tala er e.t.v. fullhá, en eflaust er það nú raunsætt mat að sem fyrsti áfangi sé þessi tala haldbær.
    Í 4. gr. er kveðið skýrar á en áður um skólasel. Tillögur um skólasel fluttu einmitt kvennalistakonur hér á þingi fyrir nokkrum árum. Nú hefur þeim verið komið á nokkuð víða, en ekki veit ég til þess að gerð hafi verið nein sérstök úttekt á því hversu víða og hver reynslan hefur verið af þeim. Vonandi liggja einhverjar slíkar upplýsingar fyrir í menntmrn. fyrst ástæða þykir til að setja þetta með skýrari hætti í lög. Ég lýsi reyndar þeirri skoðun minni að það hljóti að vera æskilegri kostur fyrir nemendur en að fara að heiman of ungir. Einnig er tekið fram í þessari grein að óheimilt sé að börn yngri en 10 ára dvelji í heimavist og það hlýtur líka að vera til bóta.

    Í 5., 6. og 7. gr. er komið inn á atriði sem nefnt er í umsögn kennslumálanefndar Háskóla Íslands þar sem það er orðað eitthvað á þann veg að sveitarfélögum og skólanefndum sé fyrst og fremst ætlað að fjalla um undanþágur. Ég veit nú ekki alveg hvort ég tek undir þau ummæli. Þó virðist til bóta í þessum greinum að það kemur nú í hlut skólastjóra fremur en fræðslustjóra að taka ákvarðanir varðandi skólasókn barna og mér finnst það skynsamleg ákvörðun þar sem hann hlýtur í flestum tilfellum að vera kunnugri viðkomandi barni og aðstæðum þess og því færari um að taka slíka ákvörðun, þ.e. síðan er hægt að skjóta málinu til fræðslustjóra en reynt er að leysa það heima í héraði fyrst.
    Þá komum við að II. kafla frv. þar sem fjallað er um stjórn grunnskóla. Í 9. gr. er kveðið á um grunnskólaráð og það er einmitt þegar kemur að þessu grunnskólaráði sem maður staldrar við og leiðir hugann að valddreifingu og líka hvernig vald grunnskólaráðs og fræðsluráða skarist. Nú er það vel skiljanlegt eftir að starfsemi grunnskólanna er komin að því marki sem nú er til sveitarfélaganna að menntmrn. vilji hafa einhver ráð til þess að halda heildarsýn og geta fylgst með því að ekki sé slakað á kröfum í hinum ýmsu skólum og virðist það eiga að vera verkefni þessa grunnskólaráðs. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig háttað verði samstarfi grunnskólaráðs og fræðsluráða og hvernig starfssviðin skarist.
    Í greininni er líka kveðið á um það hvernig ráðið skuli skipað. Það verður nú sjálfsagt athugað betur í nefndinni en þarna er í fyrsta skipti af mörgum í frv. talað um fulltrúa foreldrafélaga eða samtaka þeirra. Foreldrum er nú ætlaður miklu stærri þáttur í stjórnum skólanna og þarna kemur það fyrir í fyrsta sinn.
    Það vaknar sú spurning, þegar einum fulltrúa foreldrafélaga eða samtaka þeirra, og þá væntanlega alls landsins, er ætlað að sitja í þessu grunnskólaráði, hvernig staðið verði að vali þessa fulltrúa og mun ég reyndar koma nánar að því síðar.
    Í 11. og 12. gr. er fjallað um fræðsluráð og starfssvið þess og í 12. gr. segir einmitt, með leyfi forseta: ,,Fræðsluráð markar stefnu um málefni grunnskóla í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi í samvinnu við fræðslustjóra.`` En í 9. gr. segir um grunnskólaráð: ,,Verkefni þess eru m.a. að hafa yfirlit yfir lög og reglur sem varða grunnskóla, gefa ráð um lagfæringar á þeim og samræmi á milli þeirra. Grunnskólaráð fylgist með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámsskrár, veitir ráðgjöf og mótar stefnu um samræmi í starfi þeirra sem vinna að skólamálum.`` Mér sýnist samkvæmt þessu að starfssvið fræðsluráðsins sé í dálítið lausu lofti miðað við þessa 9. gr.
    Menntmrn. ræður svo fræðslustjóra. Í 14. gr., þar sem segir að fræðslustjóri sé fulltrúi menntmrn. gagnvart skólamálum í umdæmi sínu, segir líka: ,,Hann er framkvæmdastjóri fræðsluráðs, sé svo um samið.`` Nú er vel skiljanlegt að ekki sé hægt að skylda sveitarfélög til að ráða sér framkvæmdastjóra

fræðsluráða sem menntmrh. ræður, en þessi spurning hlýtur að vakna: Hvernig verður framkvæmdin ef fræðsluráð ákveður að ráða annan mann til framkvæmdastjórastarfa en fræðslustjóra og hver verða þá skilin milli fræðslustjóra og framkvæmdastjóra?
    Í umsögnum sem bárust um grunnskólafrv. eins og það var lagt fram hér til kynningar í fyrra minnist ég að hafa séð athugasemdir um einmitt þetta og fleira sem varðar ráðningu starfsfólks þar sem lagt var til að það væru sveitarfélög og menntmrn. sem stæðu að ráðningu. Ég er hér með ekki að taka afstöðu til þess hvort það væri hin rétta lausn, en það hvarflar vissulega að manni að þarna gæti komið til verulegra erfiðleika og árekstra.
    Við 15. gr. staldra ég ekki í bili, en í 16. gr. er nýmæli, þ.e. um stærð skólahverfa, sem er í samræmi við frv. sem flutt var af þingmönnum úr öllum þingflokkum í fyrra og virðist helst miðast við Reykjavík, eðlilega þar sem það er langstærsta núverandi skólahverfið og sjálfsagt að skipta því upp. Hins vegar má spyrja sem svo hvort viðmiðunin sé hugsanlega of há, hvort ekki væri til bóta að önnur stór bæjarfélög, þó að minni séu en Reykjavík, skipti upp í skólahverfi. Ég vil t.d. minna á Akureyri sem, þó ekki sé nema landfræðilega séð, virðist mjög eðlilegt að væri skipt upp. ( Menntmrh.: Þeim er skipt hér í
Kópavoginum.) Já, nægir þetta til þess? (Gripið fram í.) Já. Jæja, þá dreg ég þetta til baka.
    Í 17. gr. þar sem kveðið er á um kosningu skólanefnda vil ég bara vekja athygli á vissu ósamræmi í orðalagi. Í 2. mgr. segir að skólanefnd skuli kosin til fjögurra ára í senn af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum og í 3. mgr. segir svo: ,,Í sveitarfélagi þar sem skólahverfi eru tvö eða fleiri skulu fulltrúar í skólanefnd vera kosnir úr hópi íbúa í viðkomandi skólahverfi.`` Þarna þyrfti e.t.v. að hnykkja betur á hver það er sem kýs, sem ég býst nú við að eigi að vera viðkomandi sveitarstjórnir, en það má e.t.v. skilja þessa málsgrein með öðrum hætti. Þá má líka velta þessu fyrir sér um leið: Ef og þegar Reykjavík verður skipt upp í nokkur skólahverfi og allar skólanefndir skulu, eftir því sem ég skil þetta, kosnar af viðkomandi sveitarstjórn, þá fer kannski lítið fyrir valddreifingu þegar vilji kjósenda hefur yddast upp í nokkra fulltrúa í sveitarstjórn sem síðan getur valið í margar skólanefndir.
    Í niðurlagi 18. gr. segir að foreldrafélög eða samtök foreldra í skólahverfinu kjósi úr sínum hópi einn fulltrúa er starfi með skólanefnd o.s.frv. Þarna vaknar enn sú spurning hvernig eigi að standa að vali þessara fulltrúa. Að vísu eru sterk rök fyrir því sem kvennalistakonur hafa lengi lagt til og hafa áhuga á, þ.e. að skipting Reykjavíkur í hverfi sem hafi talsvert
sjálfdæmi væri æskileg, og þessi foreldrafélög sem nú er ætlað að starfi við sem flesta skóla eru svo sannarlega enn ein rök fyrir slíkri skiptingu, ekki bara hvað varðar skólahverfi heldur í miklu fleiri efnum.
    Í 19. gr. er kveðið á um eftirlitsskyldu skólanefndar með því að öll skólaskyld börn í

skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu og hún fylgist og stuðlar að því að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. hvernig sé ætlað að fylgjast með því að skólanefndir uppfylli þessar skyldur. Það hlýtur að vera mikilvægt að fylgjast með því frá ári til árs, ekki síst með tilliti til þessarar 10 ára áætlunar um uppbyggingu skólahúsnæðis, að unnið sé að því jafnt og þétt öll árin.
    Í 20. gr. má finna merki um ýmislegt það sem ég gerði að umtalsefni hér í byrjun, þ.e. nokkuð flókið stjórnkerfi og hvernig það allt skarast.
    Í 21. gr. er svo sagt: ,,Starfsmönnum skóla er skylt að efla sem mest samstarf skóla og heimila, m.a. með því kennarar miðli fræðslu um skólamál til foreldra og veiti upplýsingar um starfið í skólanum.`` Mér er ekki ljóst hvernig á að framfylgja þessu eða hvort uppi eru einhverjar áætlanir um skipulag eða fyrirkomulag þessara upplýsinga og fræðslu sem kennarar eiga að miðla foreldrum og hvernig starfsmenn skólans eiga að uppfylla þá skyldu að efla sem mest samstarf skóla og heimila. Þarna eru tilgreindir ýmsir möguleikar á því að stofna foreldrasamtök og skólastjórar eða almennir kennarafundir geta óskað eftir stofnun slíkra samtaka, en vert er að velta því fyrir sér hvort þetta nægir og hvort ástæða sé e.t.v. til þess að jafnvel lögfesta að slík samtök verði að starfa við skóla. Það verður vissulega að koma til nokkur hugarfarsbreyting á Íslandi ef foreldrar eiga að sinna starfi skóla eins mikið og hér er kveðið á um og ég vil taka það fram að mér finnst það afskaplega jákvætt að að því skuli stefnt að auka þetta samstarf og auka ábyrgð og áhuga foreldra. Ástæðan fyrir því að foreldrar hafa e.t.v. ekki sinnt skólamálum sem skyldi er kannski m.a. sú að skólinn hefur, sérstaklega með tilliti til yngri barna, ekki verið svo stór hluti af lífi barnanna og því ekki sama ástæða til þessa samstarfs milli skóla og foreldra eins og verður ef viðvera barna í skólum lengist því það segir sig sjálft að með aukinni viðveru barna í skólanum verður hlutur skólans snarari þáttur í uppeldi barnanna og því eðlilegt að foreldrarnir séu í nánari tengslum við skólana en nú er.
    Annað kann líka að hafa valdið þessu áhuga- og jafnvel afskiptaleysi margra foreldra um skóla og það er einfaldlega vinnutími foreldra og lítill tími afgangs til þess að sinna hlutum eins og skólastarfi. Ég vil leyfa mér að vitna hér aðeins í skýrslu eða bækling sem vinnuhópur um tengsl heimila og skóla tók saman og er um samfelldan skóladag, tengsl heimila og skóla. Í könnun sem gerð var meðal foreldra um ýmsa þætti sem varða þetta, var m.a. spurt, með leyfi forseta:
    ,,Óska foreldrar eftir meiri þátttöku í skólastarfinu, t.d. kennslu?
    Svör við þessari spurningu eru mjög samhljóða niðurstöðum úr könnuninni meðal foreldra. Ekki er almennur áhugi á þátttöku í skólastarfi og bein þátttaka, t.d. í kennslu, er ekki talin nauðsynleg til að halda góðum tengslum heimila og skóla. Ástæðan fyrir því hve tregir foreldrar eru til beinnar þátttöku í innra

starfi skóla virðist þó fyrst og fremst vera tímaskortur.``
    Og örlítið seinna í þessum bæklingi er líka spurt, með leyfi forseta:
    ,,Eru foreldrar almennt tilbúnir að leggja fram þá vinnu og tíma sem aukið samstarf krefst?`` Og svarið við þessu er: ,,Langoftast er tekið fram að vinna foreldra komi í veg fyrir að þeir leggi fram tíma í aukna samvinnu. Tími er
peningar og peningar eru sama og lífsgæði, segir á einum stað í svörunum. Einnig er getið um að heimilisástæður geti valdið vandkvæðum í samvinnu við skóla.``
    Þetta hlýtur að vera íhugunarefni varðandi framkvæmd þessara grunnskólalaga, ef frv. ef verður að lögum, hvernig á að gera foreldrum kleift að rækja þessar skyldur. Í fyrsta lagi að sjá til þess að viðkomandi foreldrafélög séu stofnuð, séu fyrir hendi, og í öðru lagi má varpa fram hugmyndum eins og þeim að atvinnuveitendum sé hreinlega skylt að gefa foreldrum nauðsynleg frí frá vinnu til þess að sinna þessum mikilvæga þætti í uppeldi og lífi barna sinna, að þetta sé nokkurs konar þegnskylduvinna með sama hætti og er um ýmsa starfsemi í þjóðfélaginu, t.d. þegar fólk er kallað í vinnu í kringum kosningar og í kjörnefndum og annað slíkt. Þetta er vissulega mjög mikilvægur þáttur og það verður að reyna að sjá til þess að hægt sé að uppfylla hann.
    Í 22. gr. er fjallað um nemendaráð sem nemendum grunnskóla er heimilt að stofna og að fulltrúi nemenda eða nemendaráðs eigi rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs. Nú vil ég vekja athygli á því að foreldrar mega ekki sitja fundi kennararáðs samkvæmt þessu frv. en nemendum er heimilt að gera það. Samkvæmt frv. mega nemendur á öllum aldri eiga setu í nemendaráði og ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann telji að heppilegt sé að nemendur í skóla sitji fundi þar sem oft eru tekin fyrir mjög viðkvæm mál, bæði hvað varðar einstaka kennara og einstaka nemendur. Það væri alveg hrapallegt ef kennarar, nemendur og foreldrar gætu ekki treyst því að með þeirra mál væri farið í fullum trúnaði. ( Gripið fram í: Það er í lögunum núna.) ( Gripið fram í: Aðeins formaður nefndarinnar.) Já, en það breytir því ekki að mér finnst þetta þess virði að staldra við, hvort æskilegt sé að nemendur taki með þessum hætti þátt í umræðu um innra starf skólans eins og gert er ráð fyrir að fari fram á fundum kennararáðs.
    Næst staldra ég við 25. gr. þar sem er að finna lýsingu á því hvernig skólahúsnæði skuli úr garði gert svo að fullnægjandi sé og er þar vissulega að finna marga góða hluti. Í frv. Kvennalistans var kveðið fastar að orði varðandi aðstöðu til annarra starfa og hvíldar utan kennslustunda og raunar gert ráð fyrir að skólinn gæti verið athvarf eða verustaður nemenda utan skólatíma líka. Nú veit ég ekki hvort þetta er orðhengilsháttur en ég held að full ástæða sé til þess að gera ráð fyrir að nemendur geti dvalið í skólahúsnæðinu lengur en sem nemur þeim tíma sem varið er til kennslustunda.

    Hér er líka talað um aðstöu til að neyta matar. Þetta er auðvitað afskaplega teygjanlegt því að aðstaða til að neyta matar getur í rauninni verið hvar sem er nema betur sé skilgreint. Hér á Alþingi urðu nýlega miklar umræður um skólamáltíðir eða hvernig því yrði best fyrir komið að nemendur gætu neytt málsverða eða nestis í skólanum og ég ætla ekki að fara að endurtaka hér allt það sem sagt er um nauðsyn þess að séð yrði fyrir því að börn fengju næga og góða næringu í skólanum. Ég spyr því hæstv. menntmrh. að því, ef hann heyrir mál mitt, hvað átt sé við með aðstöðu til að neyta matar og hvernig hugsuð sé nánari útfærsla á því og hvort uppi séu áform um að koma á skólamáltíðum, hvort sem þær væru í formi heitra máltíða eða léttari matar.
    Í 2. mgr. greinarinnar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við gerð heimavistarskóla skal kappkostað að þeir minni sem mest á venjuleg heimili`` o.s.frv. Ef nemendum er ætlað að dvelja í skólanum er auðvitað höfuðnauðsyn á að þeim líði þar vel og umhverfi þeirra minni meira á heimili en stofnun en ég held að ástæða væri til þess að eitthvert slíkt ákvæði eða einhver slík tilmæli væri einnig að finna í 1. mgr. því að með lengingu skóladags eykst auðvitað líka þörf barna sem ekki eru í heimavist fyrir það að skólinn sé vistlegur og heimilislegur.
    Í 26. gr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að hönnun skólabygginga og framkvæmd annarri og nú virðast fleiri eiga að koma þar við sögu og er það til bóta. Að vísu mætti hugsa sér að orðalag yrði örlítið nákvæmara þar sem segir að tillöguuppdrættir að gerð skólamannvirkja skuli kynntir opinberlega í viðkomandi skólahverfi. Auðvitað verður nánar kveðið á um í reglugerð hvernig staðið skuli að því en spurning er hvort ekki mætti tryggja það að a.m.k. foreldrafélög kynntu sér tillögur og það ætti ekkert að koma í veg fyrir að líka væri hægt að kynna þær öðrum í skólakerfinu en nú býst ég við að þetta sé frekar spurning um orðalag sem verði útskýrt nánar í reglugerð. En þarna skal leita eftir samþykki menntmrn. og enn kemur það við sögu.
    Í 29. gr., þar sem segir að sveitarstjórn sé heimilt að ráðstafa skólahúsnæði eða hluta þess til æskulýðsstarfsemi, íþróttastarfsemi og almennrar félagsstarfsemi í þágu íbúa byggðarlagsins, finnst mér e.t.v. einu orði ofaukið. Það verður náttúrlega að tryggja það að skólinn sé fyrst og fremst fyrir nemendur og þeirra starf, bæði lögbundið og tómstundastarf og ég sé ekki ástæðu til að nefna þarna sérstaklega íþróttastarfsemi. Íþróttastarfsemi er svo sannarlega hluti af æskulýðsstarfsemi en þar sem íþróttafélög hafa mjög víða verið frek til fjörsins og eiga eins og ... (Gripið fram í.) Ég er að tala um 29. gr. --- að þar finnst mér ætti að nægja
að segja: ,,hluta þess til æskulýðsstarfsemi og almennrar félagsstarfsemi``, þetta gefur íþróttastarfsemi of mikið vægi finnst mér. Það er margs konar starfsemi sem fer fram í sveitarfélögum sem ætti þá að eiga sama rétt til afnota af skólanum. Mér finnst ekki ástæða til að taka eitt atriði út úr með þessum

hætti. Almenn félagsstarfsemi og æskulýðsstarfsemi ætti að nægja.
    Í IV. kafla, sem fjallar um starfslið grunnskóla, er fyrst rætt um skólastjóra. Nú skal hann ráðinn eins og annað starfsfólk. Er það auðvitað í samræmi við þá stefnu sem nú er uppi í þjóðfélaginu um að afnema æviráðningar að mestu. En það er annað sem hefur verið áberandi í lagasetningu ýmissa stofnana undanfarið og það eru einmitt tímabundnar ráðningar yfirmanna. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort það hafi einhvern tímann komið til álita að setja einhver tímatakmörk á ráðningartíma skólastjóra. Það fer ekki á milli mála að skólastjóri setur auðvitað sitt mark á starfsemi skóla. Það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að skólastjórar gætu flust á milli skóla en að þeir væru ekki of lengi á sama stað. Þeir gætu annaðhvort horfið aftur inn í kennaralið skólans og komið þá til álita seinna aftur sem skólastjórar eða átt jafnan kost á við aðra að sækja um skólastjórastöðu í öðrum skólum. Það væri þeim eflaust viss hvatning því oft er það nú svo að menn takast á við starf af mestum áhuga á fyrstu árum starfsins. Þar með er ég alls ekki að segja að allir slaki svo á með tímanum að ekkert gagn sé að þeim, langt í frá, en vegna þess að of löng dvöl skólastjóra í embætti getur auðvitað drepið
ýmislegt í skólastarfinu í dróma finnst mér það vel þess virði að íhuga hvort einhverjar reglur mætti setja um tímatakmörk í sama skóla.
    Í 31. gr. staldra ég líka við þetta orð ,,aðstoðarskólastjóri`` líkt og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson. Hann hefur þegar gert því svo góð skil að ég ætla ekki að ræða meira um það en held að ágæt skilgreining á starfinu sé alveg nógu lýsandi og því sé allt í lagi að viðhalda orðinu ,,yfirkennari``.
    Í 32. gr. er kveðið svo á að skólastjóri skuli ráða kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði í samráði við skólanefnd o.s.frv. Þá vaknar sú spurning hvort menntmrn., sem nú skal staðfesta ráðningu kennara, hafi tök á því að fylgjast nógu vel með eða sjá til þess að fylgst sé nógu vel með því að kennarar séu eftir því sem við verður komið með full réttindi og uppfylli önnur skilyrði eða hvort þetta geti hugsanlega opnað leið fyrir skólastjóra til þess að ráða kennara sem eru þeim þóknanlegir. Dæmi þekkjast um að slíkt hefur viðgengist og spurning hvort það verði jafnvel auðveldara með þessu móti.
    Ég fer hratt yfir næstu greinar, staldra næst við 36. gr. Það er ekki spurning að það er til mikilla bóta að nú þurfi einungis tíu ára kennsluferil að baki til að njóta þeirra réttinda að kennsluskylda minnki við tiltekinn aldur. Þarf ekki að taka það fram að þetta ákvæði er auðvitað sérstaklega gott fyrir konur sem, eins og kunnugt er, hefja oft sinn starfsferil seint eða að hann er rofinn þannig að þær hafa oft miklu styttri starfsaldur að baki en karlar. Því á þetta örugglega eftir að nýtast mörgum konum vel. Eins er til bóta í 39. gr. að nú skuli það heita námsleyfi í stað orlofs því orlof hefur í hugum okkar þá merkingu að þá séu menn í fríi.

    Í V. kafla er fjallað um starfstíma grunnskóla, námsefni og kennsluskipan. Þar er til bóta að lögfest skuli að reglulegur starfstími grunnskólanemenda skuli vera níu mánuðir á hverju skólaári, það voru eins og kunnugt er sjö til níu mánuðir áður. Samkvæmt töflu sem er að finna á bls. 28 er augljóst að nemendum var nokkuð mismunað hvað lengd starfstíma snerti. Þetta er fortakslaust skref í jöfnunarátt, þ.e. að aðstaða um allt land verði svipuð.
    Í 2. málsgr. 41. gr. er sagt: ,,Með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum getur fræðslustjóri veitt tímabundna undanþágu frá framangreindum ákvæðum. Æski skólanefnd að hluta námsskyldu barna sé fullnægt með sumarskóla`` o.s.frv. Þarna finnst mér e.t.v. ástæða til að kveða nánar eða fastar að orði um afskipti menntmrn. vegna þess að þarna álít ég að menntmrn. gæti oft verið betri umsagnaraðili eða ákvörðunaraðili en t.d. skólanefndin sem mundi e.t.v. taka aðstæður sveitarfélagsins og atvinnuhætti þar fram yfir þarfir nemenda og rétt.
    42. gr. er vissulega mjög viðamikil og verður að athugast vel í nefnd og þá með hliðsjón af aðalnámsskránni og ýmsum umsögnum sem um þetta hafa komið. Hún er í rauninni of viðamikil til að gera henni full skil hér. Margt fannst mér til bóta sem var að finna í áliti kennslumálanefndar Háskólans, eins og fram kom reyndar í máli hv. 2. þm. Reykv. áðan.
    Mér þykir heldur til baga hvað tjáning er mikið tengd íslensku og íslenskunámi. Hún ætti að tengjast öðrum námsgreinum líka. En ég vil líka vekja athygli á því að hér, þar sem segir ,,þjálfun í íslensku í öllum námsgreinum og leikræna og listræna tjáningu``, þá finnst mér athyglisvert að hér er orðið ,,leikræn`` sett inn í án þess að nokkurs staðar sé gert ráð fyrir að kennarar með menntun til að sinna þessari kennslu séu starfandi við grunnskóla. Tónmenntakennarar skulu kenna tónmennt og myndmenntakennarar kenna myndmennt en leikrænni tjáningu er talið að almennir kennarar eða e.t.v. íslenskukennarar geti sinnt. Þetta er fag sem líka þarf sérþekkingu þó að
vissulega gæti bæði íslenskukennarar og aðrir kennarar nýtt sér það að einhverju marki. Hér er m.a. starfandi rándýr skóli sem tekur fjögur ár sem menntar fólk í þessu fagi. Er fráleitt að ætla að aðrir geti tekið það að sér án einhverrar sérmenntunar. Með sama hætti væri eiginlega hægt að halda því fram að allir sem kunna að lesa geti sem best kennt börnum að lesa. Ég er hrædd um að kennurum mundi ekki líka ef t.d. leikarar tækju að sér opinberlega lestrarkennslu. ( ÁrnG: Forseti vill minna á skóla Gunnars Eyjólfssonar.) Ég er nú að tala um börn hérna, ég er ekki að tala um talskóla heldur er ég einmitt að tala um lestrarkennslu. Ég veit ekki til að umræddur talskóli kenni lestur.
    Það er athyglisvert að á sama tíma og bæði í aðalnámsskrá og markmiðslýsingum og raunar alls staðar kemur fram krafa um aukið vægi list- og verkmenntagreina í skólum hefur menntun þeirra sem eiga að kenna þessar greinar veikst. Er hún núna komin að mjög miklu leyti inn í Kennaraháskóla

Íslands. Ég leyfi mér að efast um að þar sé í rauninni fullnægt þeim kröfum sem gera verður til slíkra kennara. Mér er alveg ljóst að það gekk erfiðlega hér áður að fá fólk sem stundaði nám t.d. í tónlistarskóla eða myndlistarskóla til þess að taka að sér slíka kennslu. Orsökin er auðvitað fyrst og fremst slæm launakjör og sú aðstaða sem þessum greinum er búin innan skólanna. Það að taka þessa menntun inn í Kennaraháskólann hefur eflaust gert það að verkum að fleiri kennarar koma til starfa í þessum greinum en ég held að þurfi að huga að eflingu menntunar kennara í þessum greinum, bæði innan Kennaraháskólans og utan ef unnt á að vera að mæta þessum auknu kröfum eða uppfylla einhvern tímann þær óskir sem svo greinilega koma fram, bæði frá kennurum og skólafólki ýmiss konar og foreldrum um aukningu í þessum greinum.
    Ég ætla ekki að fjalla frekar um þessa grein en vonast til að hún verði tekin til mjög vandlegrar skoðunar í menntmn. Nd. en get þó ekki að því gert að staldra aðeins við síðustu málsgrein 42. gr., þar sem segir: ,,Þess skal gætt að námsbækur og önnur námsgögn sem skólar nota samrýmist gildandi lögum og aðalnámsskrá.``
    Ég held að það sé um þessa málsgrein eins og margar aðrar að markmiðið er fagurt og gott en óralangt frá að staðið sé við eða það markmið hafi náðst. Það verður að stórefla Námsgagnastofnun, gerð kennsluefnis og útgáfu ef á að vera hægt að nálgast þetta markmið. Í rauninni er slíkt ófremdarástand í þessum efnum að ekki verður við unað. Sjálfsagt þekkja allir sem eiga börn á skólaaldri það pappírsflóð sem tröllríður heimilum, eða réttara sagt börnum, en berst inn á heimilin. Nú er það auðvitað svo að það er alltaf ástæða til að auka fjölbreytni með ýmsum hætti og útbúa alls konar verkefni fyrir börnin. Ekki er hægt að vænta þess að nokkur bók sé svo góð að ekki komi til einhver verkefni utan hennar, en það virðist svo að svo til allt námsefni barna sé á einhverjum ljósrituðum lausblöðum. Þetta er allsendis óviðunandi. Oft er þetta mjög ljótt og óhrjálegt, börnin týna þessu, þau eru að losa þetta úr möppum til þess að rýma fyrir öðru, þetta rifnar o.s.frv. Þau venjast því ekki að hafa bækur milli handanna sem skyldi, fallegar bækur, vel úr garði gerðar. Þarna verður að gera stórátak og það fyrr en síðar.
    Í 43. gr. er kveðið á um ,,tómstunda- og félagsstarf á vegum skólans, bæði sem lið í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma.`` Svo mörg voru þau orð. Í rauninni er engin skilgreining á því hvað þarna er við átt eða hvernig staðið skuli að því þar sem segir ,,bæði sem lið í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma``. Það tómstunda- og félagsstarf sem nú er í skólum er í lágmarki víðast hvar, því miður. Núna háttar svo til að kostnaður við félagsstörf skal greiðast af sveitarfélagi, hlutaðeigandi sveitarfélagi. Og spurningin hlýtur þá að vakna: Verður þetta eitthvert forgangsverkefni eða kemur það til með að sitja á hakanum?
    Í fyrsta lagi langar mig til að leggja það til strax

að þarna verði ekki einungis sagt ,,tómstunda- og félagsstarf`` heldur verði sagt ,,tómstunda-, menningar- og félagsstarf``, jafnvel ,,menningar-, tómstunda- og félagsstarf.``
    Það eru þegar dæmi þess að ekki fást greiðslur frá sveitarfélagi fyrir félagsstörf í skólum. Og það vekur strax ugg um að það kunni að verða erfiðleikum bundið að halda uppi jafnvel því starfi sem verið hefur hingað til. Varðandi 43. gr. langar mig til að minna á eitt frv. og eina þáltill. sem undirrituð hefur lagt fram. Þáltill. var reyndar samþykkt. Hún var um tónmenntakennslu í grunnskólum og miðaði að því að efla og auka þá tónmenntakennslu, en ekki síður eins og segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa nefnd til að athuga og koma með tillögur að samvinnu og samþættingu tónmenntakennslu í grunnskólum og tónlistarskólum landsins með það fyrir augum að efla og auka tónmenntakennslu í grunnskólum, að koma á samvinnu milli grunnskóla og tónlistarskóla, að það nám í tónlist sem nemendur stunda utan lögboðins grunnskólanáms geti í auknum mæli flust inn í húsnæði grunnskólanna, að samnýta húsnæði og kennara til að draga úr kostnaði og gera tónlistarnám aðgengilegra fyrir nemendur. Nefndin ljúki störfum fyrir upphaf næsta þings.``
    Þessi þáltill. var samþykkt. Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. menntmrh. hvað líði framkvæmd þessarar tillögu. ( Menntmrh.: Það er unnið á grundvelli hennar í ráðuneytinu.) Ég sé engin merki þess hér í frv. nema þessi setning, að nemendum sé ,,gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi á vegum skólans, bæði sem lið í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma`` innifeli framkvæmd þessarar tillögu. Ef svo er hefur það farið fram hjá mér og er ég vissulega tilbúin að taka þá ábendingum í þá átt hér á eftir.
    Þessi tillaga var, eins og fram kom í grg., einungis hugsuð sem byrjunarskref og að eðlilegt væri að byrja á tónlistinni vegna þess að kennslumálum í tónlist og tónmennt er hvað best fyrir komið af þessum greinum. Æskilegt væri auðvitað að sérskólar af ýmsu tagi og starfsemi gæti flust inn í skólana í ríkari mæli en nú er. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað sjá einhverja nánari útfærslu á þessari 43. gr.
    En hér er líka frv. sem flutt hefur verið tvö þing í röð. Að því frv., sem ég er 1. flm. að, standa þingmenn úr öllum þingflokkum. Frv. hefur fengið mjög góðar undirtektir, m.a. hjá hæstv. menntmrh. sjálfum. Það liggur nú í menntmn. neðri deildar og bíður þar afgreiðslu. Komið hefur fram viljayfirlýsing í nefndinni þess efnis að ástæða sé til að samþykkja þetta frv. Ég tek fram að það er ekki formlegt enn þá en virðist vera áhugi á því. Það frv. gerir ráð fyrir því að við 43. gr. laganna bætist þrjár nýjar málsgr. svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í öllum skólum á grunnskólastigi skal nemendum gefinn kostur á að kynnast menningarstarfsemi af ýmsu tagi, svo sem með því að sækja leiksýningar og tónleika, heimsækja listasöfn, þjóðminja- og

byggðasöfn, eða að slík menningarstarfsemi sé kynnt í skólunum.
    Skólastjórum og kennurum er skylt að gangast fyrir því að listamenn og fræðimenn heimsæki skóla til að kynna nemendum íslenska menningu, sögu og arfleifð.
    Nám skv. 6. og 7. mgr. skal fara fram á skólatíma og vera nemendum að kostnaðarlausu. Til þess skal varið minnst sem samsvarar einum kennsludegi í mánuði. Nánari reglur um nám skv. 6. og 7. gr. skal setja í reglugerð.``
    Í grg. fylgja svo mjög margar hugmyndir um hvernig þessu mætti koma fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að þennan þátt vanti sárlega í skólakerfið og sé höfuðnauðsyn að honum sé sinnt betur. Vegna þess, eins og stendur í grg. með frv., með leyfi forseta:
    ,,Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á nokkrum áratugum, vonandi til hins betra, en er enn í örri breytingu og svo mun verða áfram. En þessar breytingar hafa jafnframt haft ýmislegt það í för með sér sem veikir stoðir sjálfstæðis okkar. Áður erfðist reynsla, menning og tunga frá einni kynslóð til annarrar með ,,eðlilegum`` hætti í starfi og leik. Nú hafa þessi tengsl rofnað vegna breyttra samfélagshátta. Staða heimilis og fjölskyldu hefur veikst og aðrir þættir í uppeldi nýrra kynslóða orðið að sama skapi mikilvægari.``
    Þarna er því í rauninni í nokkrum orðum lýst hvers vegna sé þörf fyrir starfsemi af þessu tagi innan skólanna. Langar mig til þess að vitna örlítið nánar í grg., virðulegur forseti. Þar segir einnig: ,,Við eigum sameiginlega tungu, arfleifð og sögu, þ.e. sameiginlega menningu. Meðan svo er eigum við okkur tilverurétt sem sjálfstæð eining í samfélagi þjóða. En komi of djúpir brestir í þessar stoðir sjálfstæðis okkar glötum við þeim rétti því þá mun okkur skorta rök fyrir nauðsyn þess að halda uppi, með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, svo litlu og á margan hátt óhagkvæmu þjóðfélagi hér á hjara veraldar. Því ber okkur að styrkja þessar stoðir sjálfstæðis okkar eftir mætti, jafnframt því sem við opnum gáttir til allra átta, kynnumst og tileinkum okkur það besta úr reynslu og menningu annarra þjóða.
    Þessu markmiði má ná eftir tveimur leiðum og þær höfum við báðar farið. Það er annars vegar skóla- og menntakerfi, hins vegar stofnanir og starfsemi af ýmsu tagi tengt listum og varðveislu íslenskrar menningar þar sem jafnframt eru ástunduð vísindi, rannsóknir og nýsköpun. Ýmislegt má betur fara í skólum og menningarstarfsemi í landinu, en það er ekki viðfangsefni þessa frumvarps, heldur hvernig tengja megi betur þessar tvær leiðir, þ.e. reyna að tryggja að leiðir liggi saman að einu marki.``
    Ég held að þörfin fyrir þessa starfsemi vaxi, mér liggur við að segja með hverjum degi. Það stefnir allt í stóraukin samskipti Íslands við aðrar þjóðir og jafnvel eru horfur á því að efnahagskerfi okkar og atvinnuvegir tengist með einhverjum hætti stærri samfélögum. Þá fer fljótt að bresta rök fyrir því að búa í þessu landi. Þá verða einungis tilfinningaleg og

menningarleg rök sem duga til að viðhalda þessu þjóðfélagi þegar það verður upp á teningnum að það verði þægilegra og e.t.v. auðveldara og gefi meira af sér að búa annars staðar og því fylgi ekkert nema óþægindin ein að búa hér á landi ef ekki eru fyrir því, eins og ég segi, sterk tilfinningaleg og menningarleg rök. Þau eru á hröðu undanhaldi á Íslandi og ef við viljum að hér haldi áfram að búa þjóð sem
talar íslensku verðum við að snúa vörn í sókn með einhverjum hætti. Þetta frv. hér bendir á eina leið til þess.
    Ég vil beina því til hæstv. menntmrh. hvort hann vilji ekki taka þetta frv. til alvarlegrar íhugunar. Það olli mér satt að segja nokkrum vonbrigðum, vegna þess hve vel hann tók undir það hér á hinu háa Alþingi, að hann skyldi nefna það hér í upptalningu á frv. og till. sem hefðu verið höfð til hliðsjónar við samningu þessara frumvarpsdraga.
    Þá erum við komin að 44. gr. Þar er kveðið á um vikulegan kennslutíma á hvern nemanda og hvert lágmark hans skuli vera. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að bæði í frv. Kvennalistans og í frv. sjálfstæðismanna er gert ráð fyrir lengri tíma á viku hverri en hér er. Þetta er að vísu ... ( Gripið fram í: Þetta er lágmark.) Hæstv. menntmrh. greip fram í fyrir mér þegar ég var í miðri setningu. Þetta er að vísu lágmark. En þó er ekki ætlunin næstu þrjú árin að komast lengra en að ná þessu lágmarki, ef ég skil rétt.
    Aukningin er fyrst og fremst í yngstu bekkjardeildunum. Á móti er líka lágmark lækkað hjá þrem efstu bekkjardeildunum. Þar er í núgildandi grunnskólalögum kveðið á um 1440--1480 mínútur á viku en hér er kveðið á um lágmarkið 1400 mínútur. Og eins og málum er háttað hefur maður auðvitað vissar efasemdir um að það verði farið yfir þetta lágmark í bili.
    Ef maður lítur nánar á þessa töflu hér í 44. gr. þá virðist manni að þarna séu einungis um millifærslu á stundum að ræða en ekki fjölgun í heild. Að það sé tekið af efstu bekkjardeildunum og fært niður til þeirra yngstu. 1000 mínútur á viku munu gera 25 kennslustundir. Það er náttúrlega ekki meira en hálfs dags skóli. Svoleiðis að nokkuð þykir manni skorta á stórhug í þessum efnum. Þetta þýðir að hægt er að ljúka af viðveru hvers nemanda á tímabilinu kl. 8--12 eða 1--5 svo ekki þarf að gera skólann einsetinn til að standa undir þessu lágmrki. Síðan að loknum þessum þremur árum er ætlað að ná hærra á næstu sjö. Í lok tíu ára tímabilsins sem þessi áætlun tekur yfir verði vikulegur stundafjöldi allra nemenda 35 stundir. En tíu ár eru langur tími og mörg verða börnin horfin út úr grunnskólunum áður en þetta kemst til framkvæmda.
    Ég vil ekki hverfa frá 44. gr. án þess að minna aftur, enn og aftur á þá áherslu sem allir leggja á aukningu þeirra greina sem nú standa svo höllum fæti, þ.e. list- og verkmenntagreinarnar. Og hvaðan á sú aukning að koma, t.d. í efstu bekkjunum? Á e.t.v. að draga úr þeirri kennslu í efstu bekkjunum? Ég vil minna á skýrslu sem unnin var á vegum menntmrn.,

að minni beiðni og fleiri, um stöðu list- og verkmenntagreina, heimilisfræði og íþróttakennslu í skólum landsins og menntun kennara í þessum greinum sem var lögð fram hér í lok síðasta þings. Þar kom glögglega fram að einmitt þessar greinar eru í algjörum ólestri. Það heyrir til undantekninga að þar náist að framfylgja núgildandi lögum, hvað þá ef á að auka vægi þeirra. Það vantaði kennara, það vantaði húsnæði og greinilegt á umsögnum margra í þeirri skýrslu að virðing þessara greina var ekki mikil innan skólakerfisins og þær liðu e.t.v. stórlega fyrir það líka.
    Í 45. gr. hefur verið gerð sú breyting að orðið ,,nemenda`` hefur verið sett inn í greinina, þ.e. ,,Í grunnskóla skal jólaleyfi nemenda vera frá og með 21. des. til og með 3. jan.`` Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort skilja megi þetta þann veg að kennarar fái ekki þetta sama jólaleyfi og hvort nýta megi kennara til vinnu í jólaleyfi. Þegar eru víst einhver brögð að því að þegar kennarar hafa sótt námskeið í jólaleyfi, t.d. námskeið í starfsleikni, þá hafi verið nokkrum erfiðleikum bundið að fá greitt fyrir það sérstaklega. Leikur manni forvitni á að vita hvort hér er í rauninni verið að setja í lög að kennarar skuli vinna í jólaleyfum nemenda.
    Í 46. gr. er kveðið á um meðaltal í bekkjum. Nú hefur meðaltal í bekkjum farið lækkandi en nokkuð þykja okkur þær meðaltalstölur sem hér eru lagðar til háar. Til samanburðar má geta þess að í frv. Kvennalistans var talað um að meðaltali 18--20 nemendur í bekk og 14--16 í yngstu bekkjardeildunum. Það er sérstaklega þar sem verður að gæta vandlega að nemendafjölda. En auðvitað er samhengi milli markmiðsins ,,einsetinn skóli`` og stærð bekkjardeilda og e.t.v. er ekki hægt að ná báðum markmiðum í einu. Það kann að vera ástæðan fyrir þeim meðaltalstölum sem hér eru nefndar. En mig langar til að varpa því hér fram til íhugunar hvort ekki þurfi líka að tiltaka einhverja meðalstærð eða meðalrými sem hver nemandi skuli hafa. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að skólahúsnæði er auðvitað afskaplega misnýtt, misgamalt. Enn eru í notkun skólar sem byggðir voru fyrir tugum ára. Og skólastofur eru afskaplega mismunandi að stærð, þannig að það getur munað allt upp í 20--30 fermetrum á stofum milli skóla. Ég vil varpa því hér fram hvort ekki sé ástæða til að setja líka einhver ákvæði um meðalrými fyrir hvern nemanda en ekki bara meðalfjölda í bekkjardeildum.
    Ég hleyp nú hraðar yfir sögu næstu greinar.
    Í 49. gr. er mjög jákvætt að tengja atvinnulífið skólanum með þeim hætti sem þarna er og að heimilt sé að meta þátttöku nemenda í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum greinum.
    50. gr. þarfnast auðvitað skoðunar. Hún er, eins og ýmsar aðrar greinar, að mörgu leyti meira markmiðsgrein en raunveruleiki, þ.e. hvort hægt hefur verið að framfylgja því að allir fái kennslu við sitt hæfi og tekið sé sérstakt tillit til nemenda og þeirra erfiðleika sem þeir kunna að eiga við að etja af ýmsum ástæðum. Nú er það svo að framlög til

sérkennslu í skólum hafa verið minnkuð og því erum við sjálfsagt enn fjær markinu en við vorum með það að ná að uppfylla þessar kröfur að allir nemendur eigi sama rétt.
    Það er mjög jákvætt að nú skuli vera kveðið á um það í lögum að námsráðgjafar skuli starfa við grunnskóla og fræðsluskrifstofur. Sömuleiðis eru nemendaverndarráðin af hinu góða, þó að við viljum enn einu sinni taka undir gagnrýni á orð eða orðsmíð. Hér segir að setja skuli reglur um nemendaverndarráð en það hefði vissulega verið forvitnilegt að vita eða fá á því nánari útskýringu hvaða mál nemendaverndarráðið léti til sín taka og með hvaða hætti.
    Í 53. gr. er kveðið á um að nemandi megi ekki stunda vinnu utan skólans valdi hún því að hann geti ekki rækt námið sem skyldi. Jákvætt nýmæli í þessu er að það liggur nú í valdi skólastjóra og kennara að dæma um hvort nemandi verði upptekinn við vinnu utan skóla. En um hitt spyr maður hvort þessu hafi verið og sé framfylgt með einhverjum hætti. Hér var lögð fram tillaga af hv. fyrrv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um könnun á launavinnu framhaldsskólanema. Ekki þótti ástæða til að samþykkja þá tillögu hér á hinu háa Alþingi þó að allir virtust sammála um að það væri stórkostlegt vandamál í framhaldsskólum landsins hve uppteknir nemendur væru við vinnu. Var ekki laust við að gætti í máli margra þingmanna þessarar vinnudýrkunar sem virðist vera svo rík hjá Íslendingum, að það væri merki um dugnað og sjálfsbjargarviðleitni að eyða miklu, miklu lengri tíma í vinnu en nám.
    Ég veit að ég þarf ekki að spyrja hvort slík könnun hafi farið fram í grunnskólum en vissulega væri forvitnilegt að fá einhverjar gleggri hugmyndir um hversu víðtækt vandamál þetta er hjá grunnskólanemendum. Ég hef heyrt það á ýmsum sem starfa við skóla að þess gæti verulega í efstu bekkjardeildum grunnskóla að nemendur stundi talsverða vinnu með námi og oft þannig að það hamli störfum þeirra í skólanum.
    Ég ætla rétt að staldra við 55. gr. bara til þess að minna á það sem ég sagði í upphafi um mjög flókið kerfi. Ef maður les 55. gr. í gegn þá þarfnast þau orð mín ekki skýringa. Þarna er afskaplega flókið ferli sem þarf að fara
fram áður en niðurstaða fæst.
    Í 57. gr., þar sem talað er um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, er sagt, með leyfi foreldra --- með leyfi forseta, meina ég auðvitað, ekki foreldra. ( Forseti: Forseti er foreldri líka.) Já, forseti er foreldri líka svo að þetta á kannski vel við. ,,Eftir ósk foreldra, kennara og heilsugæslu skóla skal hún``, þ.e. ráðgjafar- og sálfræðiþjónustan, ,,annast athugun á nemendum sem annaðhvort eiga í sálrænum, tilfinningalegum, félagslegum og öðrum skyldum erfiðleikum, eða nýtast ekki hæfileikar sínir í námi og starfi.`` Nú held ég að þessi þjónusta hafi fyrst og fremst verið fyrir börn sem eiga við einhverja erfiðleika að etja og ekki ætla ég að draga úr nauðsyn

hennar eða lasta hana. Hitt veit ég ekki hvort það eru mikil brögð að því að fylgst sé með því hvort þörfum annarra nemenda sé sinnt sem skyldi og þessi setning hérna ,,eða nýtast ekki hæfileikar sínir í námi og starfi`` hvort hún hefur eitthvert gildi eins og nú háttar eða hvort hún er þarna meira til skrauts. Okkur hættir til að líta svo á að með þá sem standa sig vel eða alla vega sæmilega sé allt í lagi og sinnum e.t.v. ekki sem skyldi þörfum þeirra. Ég vil varpa því fram hér hvort ekki væri hægt að gera t.d. á hverju ári einhvers konar athugun í hverjum skóla eða hver ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta gæti framkvæmt athugun á hverju ári með úrtaki úr skólum. Einhver fjöldi barnanna væri rannsakaður og skoðaður einmitt með tilliti til þess hvort hæfileikar þeirra, miklir eða litlir, nýtast.
    Í 58. gr. er núna gert ráð fyrir að heimilt sé að reka kennslugagnamiðstöð við allar fræðsluskrifstofur og er auðvitað gleðilegt að sjá þetta komið í frv.
    Varðandi námsmatið teljum við kvennalistakonur að það sé mjög til bóta að hætt sé við þessi svokölluðu samræmdu próf, þ.e. ekki sé lengur tiltekið í hvaða námsgreinum skuli vera samræmd próf. Skólafólk þekkir það vel og foreldrar líka að þegar líður að lokum námsins fá þau fög sem unglingarnir eiga að fara í samræmd próf í forgang og mikilvægi þeirra eykst og liggur við að öll önnur fög verði einhvers konar hliðarstarf sem ekki er áríðandi að sinna. Það hlýtur því að vera mjög til bóta og jafna vægi greina að til standi að breyta þessu.
    Í 68. gr. er talað um að árlega skuli veitt fé á fjárlögum í þróunarsjóð grunnskóla. Væri fróðlegt að fá að vita hversu miklu hefur verið úthlutað til hans og úr honum og hvort hann hefur þegar skilað árangri því að sjóður af þessu tagi hlýtur auðvitað að vera af hinu góða.
    Í 72. gr. er talað um einkaskóla. Ég verð að taka undir þau orð hæstv. menntmrh. sem hann viðhafði hér þegar hann mælti fyrir frv., að afstaða til
einkaskóla getur ekki markast af einföldu jái eða neii. Það er flóknara mál en svo að það verði afgreitt með svo léttum hætti.
    Hér í Reykjavík er m.a. starfandi einkaskóli sem margir þekkja sem er skóli Ísaks Jónssonar. Hann er vissulega mjög jákvætt dæmi um einkaskóla að mínu mati. Ég hef átt því láni að fagna að fjögur barna minna hafa gengið í þann skóla. Mér hefur fundist þau fá svo góða og æskilega byrjun á sinni skólagöngu þar að stundum hefur hvarflað að mér hvort ekki væri ástæða til að gera nokkra könnun á því hvað veldur að svo vel tekst til í þeim skóla. Ég held að þar væri mjög margt til eftirbreytni fyrir aðra.
    Fleira ætla ég ekki að segja í bili um einstakar greinar en mun víkja að ákvæðum til bráðabirgða að lokum. Eins og ég sagði hér áðan finnst mér markið ekki sett nógu hátt með tíu ára áætlun. Ég vil minna á að við höfum áður séð hér á Alþingi, það var að vísu fyrir minn tíma, en hér var gerð mjög merk tíu ára áætlun um uppbyggingu dagvistunarstofnana. Hún skilaði því miður ekki því sem til var ætlast. Ég er ekki að hafa uppi neinar hrakspár um þessa áætlun en

mér finnst að þarna hefði átt að ríkja meiri metnaður, meiri hugur og þessu hefði átt að hraða meira en þarna er kveðið á um. Eins og nú er ætlunin að haga þessu segir hér: ,,Að fimm árum liðnum frá gildistöku laga þessara skal menntmrh. gera Alþingi grein fyrir framkvæmd og undirbúningi þeirra bráðabirgðaákvæða sem hér eru talin.`` Mér finnst að þarna ætti að gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að hann skilaði slíkri greinargerð árlega. Það er allt of seint að gera það eftir fimm ár því að ef þá kemur í ljós að ekki hefur verið staðið við uppbyggingu eins og skyldi eru harla litlar líkur á að hægt sé að gera á fimm árum það sem átti að gera á tíu árum. Sérstaklega ef ekki á að auka fjárframlög til þessara mála eða reyna að ná þessum markmiðum sem mest með því fé sem hér er til reiðu.
    Ég get ekki stillt mig um að gerast örlítið persónuleg í tali mínu um þessa tímaáætlun sem hér er, ekki vegna þess að ég sé svo sérstök heldur einmitt vegna þess hvað ég er dæmigerð. Árið 2000, þegar þessi lög verða komin til fullra framkvæmda ef áætlun stenst, stendur svo á að yngsta barn mitt hefur þá lokið grunnskólanámi, ef guð lofar. Þá munu verða liðin 30 ár frá því að fyrsta barn mitt hóf nám í grunnskóla. Þá mun ég hafa átt börn í grunnskóla á Íslandi í 30 ár samfellt. Allan þennan tíma hefur verið höfð uppi hávær krafa um einsetinn skóla, um lengdan skóladag, að þörfum foreldra og barna og breytts þjóðfélags yrði mætt með einhverjum hætti og ekki síst með bót í skólamálum. 30 ár eru langur tími. Það er langur tími í ævi einnar manneskju og það er mjög langur tími í ævi barna. Á þeim tíma vaxa þau, verða unglingar og að lokum fullorðnar manneskjur. Er það því von að mér finnist, nú þegar ég stend hér, að þessu hafi miðað allt of, allt of hægt. Það hefur engin bót orðið á þeim árum sem ég hef haft reynslu af skólakerfinu sem foreldri og enn líða mörg ár þangað til það verður komið í viðunandi horf.
    Hæstv. menntmrh., þetta er of langur tími. Og það er svo margt í okkar þjóðfélagi sem vekur athygli okkar á því að ekki verður lengur unað við þetta ástand. Við sjáum þess merki alls staðar í kringum okkur og við vitum það öll að það er skammarlega búið að börnum í okkar þjóðfélagi. Foreldrum er ekki gert kleift að sinna þeim sökum þess hvað vinnudagurinn er langur og erfiður, skólarnir hafa ekki mætt þessu, þjóðfélagið hefur ekki mætt þessu með styttingu vinnutímans eða sveigjanleika eða hærri launum eða nokkrum sköpuðum hlut. Skólarnir gera það ekki, dagvistanir gera það ekki. Hvað á þetta að dragast lengi? Við getum ekki beðið svona lengi, við höfum ekki efni á því. Við höfum ekki efni á því að stórum hluta íslenskra barna líði illa sökum vanrækslu, líkamlegrar og andlegrar vanrækslu og fyrst og fremst auðvitað tilfinningalegrar vanrækslu. Við höfum ekki efni á því. Og það er ekki of dýrt að kippa því í lag. Ég hef fyllstu samúð með hæstv. menntmrh. sem augljóslega mátti bíða svo lengi eftir frv. sínu inni í ríkisstjórn en ég brýni hann til þess að hann reyni að tosa ríkisstjórnina með sér. Ég trúi ekki öðru en að

hann vilji standa betur að málum og hann vilji ná skjótari úrbótum. Mér hefur heyrst það á tali hans hér og ég hvet hann til þess að reyna að ná fram skjótari úrbótum í skólamálum. Ekki skal skorta stuðning annarra ef hann getur hjálpað.
    Það eru nokkur atriði sem mig langar til að nefna að lokum. Fyrst og fremst vil ég ítreka hvort ekki sé hægt að fá einhvers konar skipurit eða yfirlit yfir stjórnkerfi skólanna. Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til álita að auka fjárhagslegt sjálfstæði skólanna, þ.e. tryggja þeim fjárframlög en gefa þeim frjálsar hendur með ráðstöfun fjárins. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra heyrði orð mín. (Gripið fram í.) Ég var að spyrja ráðherra um hvort ekki hefði komið til álita að auka fjárhagslegt sjálfstæði skóla, þ.e. tryggja þeim öruggar tekjur en gefa þeim frjálsari hendur með ráðstöfun fjárins. Það er í raun ekkert sem hvetur í dag til sparnaðar, segjum t.d. á því fé sem fer í gegnum Námsgagnastofnun. Skólar geta ekki safnað í sjóði eitt árið og nýtt sér þá
betur næsta ár. Auk þess held ég að það væri til svo mikilla bóta að færa aukna ábyrgð inn í skólana sjálfa.
    Ég vil í því sambandi minna á það sem ég sagði í upphafi að ég hef vissar efasemdir um valddreifingu í þessu frv. eða hvort það er í valddreifingarátt. Satt að segja átta ég mig ekki alveg á því en sýnist að sú valddreifing sem boðuð er, ef einhver er, í þessu frv. sé afskaplega tímafrek og þar af leiðandi auðvitað fjárfrek. Það virðist sem miklum tíma skuli varið í fundi og samráð af ýmsu tagi. Eflaust er margt af því nauðsynlegt en mér finnst oft áberandi í störfum okkar Íslendinga að við höfum einhverja ofurtrú á fundum og ráðstefnum. Stundum dettur mér jafnvel í hug að fundir og ráðstefnur séu einhvers konar ventlar þar sem fólk getur tappað af, en þeir séu ekki alltaf árangursríkir að sama skapi. Valddreifing er ekki endilega að allir hafi samráð um allt, upp og niður allan píramídann, út og suður allt kerfið. Valddreifing er ekki síður fólgin í því að hver og einn sé gerður ábyrgur fyrir sínu starfi, sínu verki. Þetta gildir auðvitað í þessu tilfelli um hvern skóla fyrir sig og jafnvel hvern einstakling. Stór skref í átt til valddreifingar eins og aukið fjárhagslegt sjálfstæði sem gæfi skólunum miklu meira svigrúm til þess að nýta sína fjármuni eins og þeir vildu, svo framarlega sem þeir uppfylltu einhverjar tilsettar kröfur, væri að mínu viti miklu stærra skref í valddreifingarátt en stigið er með þessu frv.
    Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið um þetta frv. að þessu sinni. Ég vil enda á því að segja aftur, eins og ég sagði í upphafi, að margt jákvætt er hér að finna. Markmiðin eru góð og gild, en við ætlum okkur of langan tíma, hæstv. ráðherra.