Grunnskóli
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær ítarlegu og málefnalegu umræður sem hafa farið fram um þetta grunnskólafrv. Það er svo fjölda margt sem hefur komið fram í þessum umræðum að það tæki allt of langan tíma ef ég færi að fara yfir hvert einasta atriði. Ég get tekið það fram að ég er sammála ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið frá einstökum þingmönnum. Ég vil þó leggja alveg sérstaka áherslu á það sem hv. 2. þm. Vestf. var að segja hér áðan að þetta frv. er auðvitað tilraun til að finna samnefnara. Við undirbúning frv. hefur verið ráðgast við fjöldann allan af samtökum. Þetta er í raun og veru ekki skrifað af menntmrh. heldur hef ég lagt áherslu á það við undirbúning frv. að reyna að finna samnefnara. Ég held að það sé grundvallaratriði í sambandi við alla skólastefnu hér á landi að það finnist samstaða um skólann. Það má ekki efna til stríðs um skólann eins og stundum hefur gerst á árum áður vegna þess að það spillir því mikilvæga starfi sem þar er unnið. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að finna breiða samstöðu um íslenska skólastefnu. Ég tel að þetta frv. sé ágæt tilraun í þá átt.
    Varðandi einstakar athugasemdir og spurningar ætla ég að segja þetta, og fer mjög hratt yfir sögu, herra forseti.
    Fyrst í sambandi við grunnskólaráð og fræðsluráð. Hér er í raun og veru um að ræða svo að segja sama stjórnkerfi og í framhaldsskólalögunum. Í framhaldsskólalögunum er gert ráð fyrir því að þar sé til samstarfsnefnd framhaldsskólanna. Hún er undir forsæti menntmrh. eða staðgengils hans og í henni eru skólameistarar allra framhaldsskóla í landinu. Grunnskólaráðið mun vinna mjög svipað og þessi samstarfsnefnd hefur gert. Af henni er að vísu ekki mjög löng reynsla en þó nokkuð á annað ár. Hvert er vald grunnskólaráðs? Svarið er: Ekkert. Vald grunnskólaráðs er í raun og veru bara fortöluvald. Grunnskólaráð er ráðgefandi aðili. Eins og fram kemur er það
samstarfsvettvangur til að hafa yfirlit og til að fylgjast með. Dæmi um mál sem ég mundi leita til grunnskólaráðs með er sú umræða sem hér var sl. sumar um einkaskóla. Ég mundi bera slíkt mál undir slíka stofnun. Og ég held að fyrir menntmrh., hver sem hann er, sé það gagnlegt að geta borið sig saman við slíkt viðurkennt, faglegt tæki sem grunnskólaráðið ætti að vera.
    Fræðsluráðið hefur hina svæðisbundnu yfirsýn en grunnskólaráðið á að hafa landsyfirsýn. Auðvitað skarast verkefni fræðsluráðanna og grunnskólaráðsins oft. En óhjákvæmilegt er að þarna sé um að ræða tvenns konar stofnanir. Það mætti hugsa sér að grunnskólaráðið væri sett saman úr fræðsluráðum þannig að fræðsluráðin tilnefndu inn í grunnskólaráðið. Það er hins vegar gallað, m.a. vegna þess að þá nást ekki örugglega sjónarmið allra. Ef meiri hlutarnir í fræðsluráðunum kjósa er mjög líklegt að það yrðu upp til hópa kennararnir sem kæmu inn í grunnskólaráðið.

Þá mundi vanta foreldrana, vanta fulltrúa Námsgagnastofnunar o.s.frv.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði sérstaklega um foreldrafélögin, hvort nógu sterkt væri að orði kveðið í 21. gr. Ég get sagt fyrir mig að ég væri út af fyrir sig tilbúinn til að ganga býsna langt í því að kveða sterkt að orði í þessum efnum. Ég held að það sé ekki ráðlegt að festa þetta mikið nánar. En ég vek athygli á að annars staðar í frv. er kennurunum gert að skyldu að gefa foreldrum kost á að fylgjast með því sem gert er í skólunum. ( ÞÞ: Ég spurði einmitt að því hvernig þeir ættu að uppfylla þá skyldu.) Það eiga þeir auðvitað að gera með því að þeir eru umsjónarkennarar. Þeir eiga að kalla til funda með foreldrum, ræða við foreldra o.s.frv. Auðvitað er þetta frv. til rammalaga og það er ekki skrifað niður í einstökum atriðum hvernig menn eiga að taka á hlutunum.
    Ég er alveg sammála athugasemdum hv. 18. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Vestf. í sambandi við 2. málsgr. 22. gr., varðandi fulltrúa nemenda eða nemendaráðs í kennararáði. Ég tel að greinina þurfi að laga í meðferð nefndar. Þetta eru bersýnilega mistök og yfirsjón eins og það liggur fyrir hér.
    Það var annars athyglisvert að fylgjast með ræðu hv. 2. þm. Reykv. og hv. 18. þm. Reykv. Hv. 2. þm. Reykv. vildi helst festa sem allra minnst af skyldum m.a. vegna þess að þær væru á sveitarfélögunum. En hv. 18. þm. Reykv. vildi ganga ívið lengra í að festa skyldur m.a. á sveitarfélögunum en gert er ráð fyrir í þessu frv. Tíu ára markmiðið er t.d. fyrst og fremst spurning um samvinnu við sveitarfélögin. Það var dálítið fróðlegt að fylgjast með ræðum þeirra tveggja sem ég hlustaði á með athygli, t.d. að því er varðar 25. gr. frv. í sambandi við búnað o.fl. Þar sagði hv. 2. þm. Reykv.: ,,Þetta eru ansi strangar kröfur``, en hv. 18. þm. Reykv. sagði aftur á móti að kannski væri ekki nægilega skýrt og þétt að orði kveðið í greininni auk þess sem markmiðunum væri náð allt of hægt. Út af fyrir sig get ég alveg tekið undir það og maður vildi ná þessu mikið, mikið fyrr. En þarna rekst þetta dálítið á kostnað eins og menn þekkja og ég kem aðeins nánar að hér á eftir.
    Sama var að segja um mismunandi viðhorf þessara tveggja samþingsmanna minna hér úr þessu kjördæmi varðandi 32. gr., um ráðningu, og hvort það væri nóg að
menntmrn. ætti bara að staðfesta ráðningar kennara, námsráðgjafa og skólasafnvarða. Hvort hætt væri við því að menn færu samkvæmt þessum reglum jafnvel að ráða, ef ég skildi þingmanninn rétt, t.d. réttindalaust fólk af einhverjum ástæðum fram hjá kerfinu. Ég tel satt að segja að ákvæðin séu svo skýr um að það eigi að virða lögin um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara að ekki eigi að þurfa að óttast þetta.
    Hv. 18. þm. Reykv. ræddi mikið um 44. gr. varðandi lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemanda í grunnskóla. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að þetta sé ein allra merkasta grein frv.

vegna þess að hún kveður á um lágmark. Hún kveður á um lágmark og menn sjá kannski á bls. 29 í grg. frv. hvað í raun og veru verið er að leggja hér til. Í grunnskólalögum í dag er gert ráð fyrir því t.d. að 3. bekkur hafi 24 tíma á viku. En í gildandi lögum er þetta ekki lágmarksákvæði heldur viðmiðunarákvæði, það eru 24 tímar á viku. Í viðmiðunarstundaskrá, eins og hún er núna orðin eftir niðurskurð aftur og aftur er þetta komið niður í 22 tíma. Í frv. er gert ráð fyrir að þessi botn, þetta lágmark, verði 25 stundir og síðan verði sett markið á 35 stundir á nokkurra ára bili. Með þessu orðalagi um lágmark er verið að tryggja börnunum þennan rétt, foreldrunum þennan rétt og það er líka í raun og veru verið að styðja skólana og menntmrn. Þegar kemur að því að skipta þurfi takmörkuðum fjármunum ríkisins er hægt fyrir ráðuneytið að verja sig með þessu ákvæði, þegar það er orðið lágmarksákvæði frekar en að vera almennt viðmiðunarákvæði. Og ég er viss um að á undanförnum árum hefði svona ákvæði hjálpað menntmrn. til þess að verja skólana fyrir þeirri almennu sparnaðarbylgju, að ég segi ekki köstum, sem stjórnvöld fá oft --- að vísu af ýmsum ástæðum og oftast eðlilegum og óhjákvæmilegum. Þetta er auðvitað ekki aðeins millifærsla eins og ég kem hér að á eftir varðandi kostnaðinn.
    Hvar eiga list- og verkmenntagreinar að koma í efstu bekkjunum þegar þar verður aukið við? Svarið er þetta: Við lengjum skólatímann strax í haust. Við lengjum skólatímann strax í haust í 1., 2. og 3. bekk. Þessi tími verður notaður fyrir lista- og verkmenntagreinar að svo miklu leyti sem mögulegt er. Fyrst og fremst erum við þar hömluð af kennaraskorti. Ég geri síðan ráð fyrir því að núna alveg á næstu vikum, næstu einum eða tveimur mánuðum verði gefin út ný viðmiðunarstundaskrá. Hún einkennist fyrst og fremst af því að hún er sveigjanlegri en gildandi viðmiðunarstundaskrá. Við munum leggja á það áherslu að list- og verkmenntagreinar, heimilisfræði og slíkar greinar fái aukið svigrúm, jafnvel á kostnað bóklegu greinanna af því að þjóðfélagið hefur breyst, eins og hv. 18. þm. Reykv. hefur oft minnt á í ræðum sínum hér í þessari virðulegu deild.
    Varðandi önnur einstök atriði vil ég geta þess í sambandi við kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu og sérkennsluna sérstaklega, sem hv. 18. þm. Reykv. kom aðeins að hér áðan, að við erum núna með í gangi úttekt á sérkennslunni. Við byrjuðum þá úttekt í fyrra, allsherjar úttekt á allri sérkennslu í landinu. Ég bind miklar vonir við að niðurstöður þeirrar könnunar verði góður leiðarvísir um það hvernig á þeim málum á að halda í framtíðinni. Jafnframt erum við að undirbúa setningu nýrrar reglugerðar um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustuna sem ég held að sé mjög mikilvægt að endurmeta frá því sem er í gildandi reglugerð. Í gærkvöldi sat ég félagsfund hjá Sálfræðingafélagi Íslands þar sem farið var yfir þessi mál og þar sem mjög margt fróðlegt kom fram. Það er bersýnilega óhjákvæmilegt að á þessum málum verði tekið á ný

og þess vegna verður reglugerðin endurskoðuð.
    Í 68. gr. frv. er fjallað um þróunarsjóð grunnskóla. Hann fékk í fyrra 4,5 millj. kr. Hann fær í ár 9 millj. kr. Þessu hefur öllu verið úthlutað til líklega 30--40 verkefna í fyrra og álíka margra í ár í skólum allt í kringum landið. Eins og hv. þm. Pétur Bjarnason, sem þekkir þessi mál mjög vel sem starfandi fræðslustjóri á Vestfjörðum, gat um áðan þá hafa þessir fjármunir, þó litlir séu í raun og veru, þegar haft veruleg áhrif á innra starf skólanna og ýtt þar undir áhuga á þróunarstarfi.
    Það er út af fyrir sig athyglisvert að þeir hv. þm. Reykv. sem hér hafa talað tala um að hér sé að einhverju leyti of skammt gengið í valddreifingarátt. Það er ánægjulegt að það sjónarmið skuli vera uppi, þá er í raun og veru samstaða um það. Ég bendi hins vegar á að ekki er full samstaða um það að ganga mikið lengra að sinni. M.a. ekki gagnvart hagsmunasamtökunum, þ.e. stéttarsamtökum uppeldisstéttanna sem við þurfum auðvitað að taka tillit til. Ég held að skynsamlegt sé að stíga skref í þessa átt, ákveðin skref en ekki allt of róttæk á allt of stuttum tíma. Ég held t.d. að það að fara að setja hvern einasta skóla á föst fjárlög og láta hvern einasta skóla um ráðningar síns fólks geti út af fyrir sig gengið í mjög mörgum skólum, en sumir skólarnir eru svo fjarska veikir, bæði að því er varðar uppeldislega forustu og félagslegar aðstæður að ég held að það væri vafasamt að ganga mikið lengra í bili. En stefnan er út af fyrir sig sett hér á það að auka valddreifingu í skólunum og mér heyrist að allir séu sammála um það. Satt best að segja fannst mér á þeim ræðum sem hér voru fluttar að í meginatriðum sé
fólk sátt við þetta frv. sem hugsanlegan samnefnara fyrir þau viðhorf sem fólk hefur í málefnum grunnskólans þó hitt sé auðvitað rétt að við hefðum sum viljað hafa þetta töluvert öðruvísi og sennilega öll.
    Ég vil aðeins víkja að kostnaði að lokum, herra forseti, sem leiðir af samþykkt þessa frv. Það eru fjórir þættir sem þar skipta máli. Í fyrsta lagi er kostnaður vegna tíu ára skólaskyldu sem felur í sér að forskóli verður reiknaður á sama hátt og aðrar bekkjardeildir og síðan fjölgum við kennslustundum í 2. og 3. bekk. Þessi kostnaður, þ.e. við sex ára bekkinn og 2. og 3. bekk, er alls um 100 millj. kr. á ári. Í bráðabirgðaákvæði í frv. er gert ráð fyrir því að fjölgun kennslustunda komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laganna. Og í fjárlögum þessa árs er sérstök fjárveiting að upphæð 40 millj. kr. til aukinnar kennslu yngri barna, þannig að raunverulegur kostnaðarauki miðað við fjárlög er alls 60 millj. kr. af þessum þætti.
    Í öðru lagi er kostnaður vegna fjölgunar bekkjardeilda í 1.--3. bekk, en við ætlum að fækka hámarkinu í 1.--3. bekk. Sá kostnaður er talinn verða 70 millj. kr. á ári. Bekkjardeildum fjölgar vegna þess ákvæðis að hámarksfjöldi nemenda í hverri bekkjardeild verði lækkaður úr 30 í 22 nemendur. Það mun eingöngu hafa áhrif í stærstu sveitarfélögunum.

Gert er ráð fyrir því í frv. að þessi kostnaður upp á 70 millj. kr. alls komi til framkvæmda á fimm árum.
    Í þriðja lagi eru stöður námsráðgjafa. Ef miðað er við eina stöðu námsráðgjafa á hverja 650 nemendur, eins og menntmrn. áætlar, þá verða stöðugildi þeirra rúmlega 60 talsins. Kostnaður við það er 75 millj. kr. á ári og við gerum einnig ráð fyrir því að þetta komi til framkvæmda á fimm árum.
    Í fjórða lagi eru svo ýmsir smærri kostnaðarliðir svo sem rýmkun kennsluafsláttar, níu mánaða starfstími allra grunnskóla, heimild til rekstrar sumarskóla, aukin skólaþróun o.fl. Þeir fela í sér kostnaðarauka sem má áætla að sé á bilinu 50--55 millj. kr. á ári. Heildarkostnaður, rekstrarkostnaður af þessum breytingum er því á ári 300 millj. kr. Þar af eru þegar í fjárlögum ársins 1990 40 millj. kr., kostnaðarauki er því 260 millj. kr. frá gildandi fjárlögum. Við gerum ráð fyrir því að þessi kostnaðarauki komi inn í jöfnum áföngum, þ.e. vegna skólaársins 1990--1991 34 millj. kr., skólaársins þar á eftir 73 millj. kr., skólaársins þar á eftir 73 millj. kr., fjórða skólaárið 40 millj. kr. og fimmta skólaárið 40 millj. kr. þegar allur þessi kostnaður er kominn inn. Þá er auðvitað, eins og fram hefur komið, eftir að reikna þann kostnað sem sveitarfélögin munu leggja í vegna stofnkostnaðar. Það verður örugglega mismunandi. Og eins og hér var bent á hlýtur ráðuneytið að leggja á það áherslu að vinna það verk varðandi einsetningu í samvinnu við sveitarfélögin. Það getur ekki gerst öðruvísi af því að þau bera alla hina fjárhagslegu ábyrgð.
    Herra forseti. Ég vil endurtaka þakkir mínar til þeirra hv. þm. sem hér hafa talað og flutt ágætar ræður og málefnalegar. Þetta hefur verið góð umræða fyrir þá sem hér hafa verið í salnum, hinir hafa misst af miklu. Það er þá bara verst fyrir þá. Ég vænti þess að málið fái góða meðferð í hv. menntmn.