Skákskóli Íslands
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Skákskóla Íslands. Það er í raun og veru fylgifrv. með frv. um launasjóð stórmeistara sem þegar hefur verið vísað til hv. menntmn. til meðferðar.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að á vegum Skáksambands Íslands og í samvinnu við ráðuneytið starfi skóli sem nefnist Skákskóli Íslands. Skólastjórn skólans verði skipuð þremur mönnum sem verði tilnefndir af Félagi stórmeistara, Skáksambandinu og af menntmrn. Þá er gert ráð fyrir því í 6. gr. að skólinn skiptist í almenna deild og framhaldsdeild. Og í 8. gr. segir að menntmrh. sé heimilt að semja við önnur félagasamtök eða einkaaðila um rekstur skákskóla samkvæmt lögum þessum.
    Frv. hefur m.a. þann tilgang að hér verði starfræktur viðurkenndur skákskóli þar sem unnt verði að gera ráð fyrir að stórmeistarar sem fá laun frá ríkinu inni af höndum tiltekna vinnuskyldu. Hér er um að ræða mikilvægt mál sem lengi hefur verið í undirbúningi í menntmrn. og birtist nú í frumvarpsformi. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.