Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Herra forseti. Með lögum nr. 67/1988, um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu, var bannað að flytja til Íslands vörur sem upprunnar voru í Suður-Afríku og Namibíu og að flytja frá Íslandi vörur til Suður-Afríku eða Namibíu, eða gera samning um útflutning vara frá Íslandi þegar ljóst mætti vera að endanlegur áfangastaður varanna væri Suður-Afríka eða Namibía.
    Með setningu laganna var mótmælt aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku og höfðu sams konar lög verið sett annars staðar á Norðurlöndum.
    Með sjálfstæði Namibíu hefur kynþáttaaðskilnaður verið afnuminn þar í landi og er forsendan fyrir viðskiptabanni gagnvart Namibíu brostin. Leggur ríkisstjórnin því til að lögum nr. 67/1988 verði breytt þannig að þau gildi ekki gagnvart Namibíu. Þó þykir rétt vegna ástands í Valvis Bay að láta lögin ná áfram til svæða sem lúta yfirráðum Namibíu, sbr. 2. gr. frv.
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.