Þjóðleikhús
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Þjóðleikhús. Þetta frv. er að stofni til samið af nefnd sem ég skipaði og starfaði undir forustu Stefáns Baldurssonar leikstjóra. Nefndin skilaði til mín heildaráliti bæði varðandi Þjóðleikhúsið sem slíkt og sömuleiðis skilaði hún drögum að frv. til laga fyrir Íslenska dansflokkinn, tillögum að reglum um Listdansskólann og auk þess grg. um stöðu Óperunnar á Íslandi.
    Í nefndinni áttu sæti auk Stefáns Baldurssonar Guðrún Þ. Stephensen leikari, Kristinn Hallsson, starfsmaður í menntmrn., Nanna Ólafsdóttir dansari, Sveinn Einarsson dagskrárstjóri, Þórhallur Sigurðsson leikari og Þórhildur Þorleifsdóttir alþm.
    Við meðferð málsins í ríkisstjórninni tók frv. nokkrum breytingum og er gerð grein fyrir þeim ítarlega í athugasemdum við lagafrv. þetta.
    Um einstök efnisatriði frv. er það að segja að það leggur megináherslu á rekstrarlegt sjálfstæði Þjóðleikhússins og listrænt sjálfstæði í senn til þess að stuðla að aukinni bæði listrænni og fjárhagslegri ábyrgð þeirra sem í Þjóðleikhúsinu starfa.
    Gert er ráð fyrir því í 3. gr. frv., til að undirstrika það að Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar allrar, og lögð áhersla á að farið verði í leikferðir sem víðast um landið árlega auk hinnar almennu starfsemi sem
Þjóðleikhúsið heldur uppi á þeim stað þar sem það er með starfsemi sína í meginatriðum.
    Í 5. gr. er að finna nokkrar breytingar frá því sem er í gildandi lögum. Þar er gert ráð fyrir því að þjóðleikhússtjóri verði ráðinn til fjögurra ára en að heimilt verði að endurráða hann tvisvar til tveggja ára í senn ef meiri hluti þjóðleikhúsráðs mælir með því.
    Í 6. gr. er kveðið á um frekara hlutverk þjóðleikhússtjóra og segir þar að hann sé stjórnandi leikhússins og hafi forustu um að móta listræna stefnu þess. Þjóðleikhússtjóri stýrir leikhúsinu samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum en um fjárhagslega framkvæmd er fjármálastjóri honum til aðstoðar en leiklistarráðunautur að því er tekur til listrænnar starfsemi.
    Í 7. gr. er fjallað um þjóðleikhúsráð og samkvæmt frv. verður veruleg breyting á skipan þess. Það er gert ráð fyrir því að í þjóðleikhúsráði sitji fimm fulltrúar. Þrjá þeirra skal starfsfólk leikhússins, bæði fastráðið og lausráðið, kjósa leynilegri kosningu á fundi sem sérstaklega er boðaður samkvæmt reglum sem menntmrn. setur. Fjórði fulltrúinn er kosinn af Leiklistarsambandi Íslands en sá fimmti skipaður af menntmrh. Þjóðleikhúsráð á að kjósa til tveggja ára í senn en þó er heimilt að endurkjósa það tvisvar sinnum þannig að sami aðili sitji í allt að sex ár samfellt. Ráðið kýs sér sjálft formann. Meginhlutverk þjóðleikhúsráðs er að bera ábyrgð á hinu listræna starfi í Þjóðleikhúsinu ásamt þjóðleikhússtjóra.
    Til þess hins vegar að fjalla um fjármálin kemur til

sögunnar sérstök nefnd og ný. En í 8. gr. segir: ,,Þjóðleikhússtjóra og þjóðleikhúsráði til ráðuneytis er sérstök nefnd, þjóðleikhúsnefnd, sem í sitja þrír fulltrúar. Hún er skipuð til tveggja ára í senn. Er einn skipaður af menntmrh., annar af fjmrh. en þriðji fulltrúinn er starfandi formaður þjóðleikhúsráðs og er hann formaður hópsins. Þjóðleikhúsnefnd skal hafa eftirlit með rekstri leikhússins og fjármálum. Hún fylgist með fjármálum leikhússins og er tengiliður við fjárveitingarvaldið í því skyni að tryggja leikhúsinu nægilegt rekstrarfé hverju sinni.``
    Í 9. gr. er tekið fram að við Þjóðleikhúsið skuli starfa fjármálastjóri sem menntmrn. ræður til fjögurra ára í senn.
    Í 10. gr. er talað um að við Þjóðleikhúsið starfi framkvæmdastjóri sem hafi með höndum skipulagsstarf innan leikhússins, yfirumsjón með vinnuhagræðingu hinna ýmsu deilda og fylgist með innkaupum þeirra, raðar niður æfingum o.s.frv.
    Í 11. gr. er kveðið á um það að þjóðleikhússtjóri hafi með að gera mannaráðningar í húsinu að því er varðar leikara, leikstjóra, leikmyndateiknara, höfunda og aðra listamenn leikhússins, eins og þar greinir.
    Í 13. gr. er lögð á það áhersla að Þjóðleikhúsið eigi að hafa sérstakt samstarf við leikfélög áhugamanna, láta þeim í té gestaleikara, leikstjóra og aðra leikhússtarfsmenn eftir því sem unnt er. Með þessum hætti er lögð á það áhersla að tengja Þjóðleikhúsið sem höfuðleikhús þjóðarinnar við þá leikstarfsemi áhugaleikfélaga sem fram fer allt í kringum landið. Einnig tel ég sjálfsagt að hv. menntmn., sem fjalla mun um málið, ræði það sérstaklega með hvaða hætti er unnt að tengja Þjóðleikhúsið og starfsemi þess við hina fjölmörgu atvinnuleikhópa sem hafa orðið til á síðustu árum.
    Segja má að ein meginbreyting frv. felist í 16. gr. þess. Þar segir: ,,Kostnaður af rekstri Þjóðleikhússins skal greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem ákveðið er í fjárlögum og eigið aflafé þess hrekkur ekki til. Þegar fjárlög hafa verið afgreidd skal gera samning milli ríkisins og
Þjóðleikhússins um greiðslur innan ársins. Þjóðleikhúsið ber þá alla ábyrgð á greiðslum fyrir einstaka rekstrarþætti hvort sem um er að ræða laun eða annan rekstrarkostnað.``
    Hér er um að ræða grundvallaratriði. Þjóðleikhúsið verður sett á föst fjárlög. Það verður að bera ábyrgð á sínum fjárhagslega rekstri innan þess ramma sem Alþingi ákveður hverju sinni í fjárlögum fyrir íslenska ríkið.
    Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, þá gerði nefndin sem fjallaði um þetta mál fyrir mig á sínum tíma einnig tillögur að lögum fyrir Íslenska dansflokkinn og tillögur um starfsreglur varðandi Listdansskólann sérstaklega og einnig sendi hún frá sér tillögu að lögum um Íslensku óperuna. En svo lengi sem þau ákvæði eru ekki orðin að lögum er það alveg skýrt að Þjóðleikhúsið mun þegar þetta frv. hefur verið samþykkt eftir sem áður bera sömu ábyrgð að því er varðar listdans, ballett og óperur og það

gerir samkvæmt gildandi lögum þar til ný lög hafa verið sett um Íslenska dansflokkinn og óperustarfsemi hér á landi.
    Ég tel ekki ástæðu til á þessu stigi málsins, herra forseti, að fara frekari orðum um frv. þetta. Það er liður í átaki til allsherjaruppbyggingar og eflingar Þjóðleikhússins sem í gangi er á vegum hæstv. ríkisstjórnar og hefur verið dálítið rætt hér í þingsölum að undanförnu og einnig pínulítið í fjölmiðlum. Ég tel því ástæðulaust að eyða frekari orðum að málinu að sinni og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.