Beiðni um skýrslu um nýtt álver
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill upplýsa að beiðni um skýrslu þessa var leyfð 21. febr. sl., þannig að ekki er hægt að segja að skýrslan hafi tekið óeðlilega langan tíma, en eins og hv. þm. er kunnugt eru engin tímatakmörk á því hversu snemma skýrslum skuli svarað. Forseti vill hins vegar upplýsa að skrifstofa þingsins hefur fylgst mjög náið með hvernig gengur að innheimta svör við fyrirspurnum og skýrslur samkvæmt beiðni og hefur, að ég hygg að óhætt sé að fullyrða, haft samband við viðkomandi ráðherra aldrei sjaldnar en vikulega og flestir hæstv. ráðherrar hafa upplýst að skýrslur séu á næsta leiti og svo mun einnig vera með þessa skýrslu. Öðruvísi get ég ekki svarað því þar sem hæstv. iðnrh. er ekki viðstaddur, en ég hygg að mjög langt sé komið gerð þessarar skýrslu og forseti mun að sjálfsögðu fylgjast náið með því að hún berist sem allra fyrst.