Beiðni um skýrslu um nýtt álver
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Nú hagar þannig til án þess að ég geti vísað til ákveðinnar greinar í þingsköpum að mál skal vera búið að leggja fram í síðasta lagi --- eða eins og segir reyndar í 2. mgr. 18. gr., með leyfi forseta:
    ,,Lagafrumvörp, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins tekin til meðferðar að meiri hluti þingmanna í þeirri deild, sem frv. er borið upp í, samþykki það.``
    Á grundvelli þessarar greinar er ljóst að það er síðasti dagur á morgun til þess að leggja fram án afbrigða til umræðu og afgreiðslu frv., þar á meðal stjórnarfrumvörp. Nú hefur það heyrst í fréttum að það sé álit hæstv. iðnrh. að leggja þurfi fram frv. um hugsanlegt álver og undirbúning vegna álversins. Ég hygg að hæstv. iðnrh. hafi ætlað sér að leggja það frv. fram áður en skýrsla sú sem ég gerði að umtalsefni yrði rædd hér á hinu háa Alþingi. Af því tilefni vildi ég spyrja starfandi iðnrh., hæstv. utanrrh., sem var hér rétt áðan í þingsölum, ef hægt er að ná til hans, hvort það sé hugmynd hæstv. ríkisstjórnar að leggja það frv. fram í dag eða á morgun til þess að ekki þurfi að leita afbrigða ef það frv. þarf að afgreiða fyrir þinglok.
    Ég tel, virðulegur forseti, að nauðsynlegt sé að Alþingi fái að vita um þetta mál. Um þetta hefur verið fjallað talsvert mikið í fjölmiðlum að undanförnu og þetta snertir beinlínis efni þeirrar skýrslubeiðni sem ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni.