Skoðunarferðir um Hótel Borg
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseta er ljúft að upplýsa það að fjármálastjóra þingsins var falið að sjá til þess að þingmenn ættu kost á að skoða Hótel Borg. (Gripið fram í.) Ég skal nú játa að ég hafði ekki tekið eftir þessum orðum: ,,með kaup í huga``. Vissulega er ástæðan fyrir því að þingmönnum er gefinn kostur á að skoða húsið að fyrir þinginu liggur tillaga um að heimila forsetum að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg og eins og mönnum er kunnugt er það mál í hv. fjvn. og fyrr en það kemur þaðan verður auðvitað engin afgreiðsla á því hér. Hins vegar er það góð og gild regla að fólki gefist kostur á að sjá hvað er verið að bjóða því til kaups áður en ákvörðun er tekin þannig að forsetum fannst eðlilegt að reyna að skipuleggja skoðunarferð um húsið til þess að menn gætu áttað sig á um hvað verið væri að tala.
    Ég skal játa að ég stóð ekki með ritskoðunarpennann á lofti þegar ég fékk þetta bréf, eins og aðrir, frá fjármálastjóra og við erum þá sjálfsagt bæði um það að biðja forláts á því ef þessi orð hefðu ekki átt að standa þarna, en ég held að með góðvild megi horfa fram hjá því. Vitanlega er verið að skoða húsið vegna þess að til eru þeir hv. þm. sem hugsanlega vilja kaupa Hótel Borg fyrir Alþingi Íslendinga, og aðrir e.t.v. ekki. Hins vegar er sjálfsagt og eðlilegt að öllum gefist kostur á að skoða húsið og ég vona að hv. þingmenn misvirði ekki þessi orð. Ég held að þau hafi þá ekki verið meint öðruvísi en svo að þess vegna væri mönnum boðið að skoða húsið að til greina hefði komið að kaupa það.