Skoðunarferðir um Hótel Borg
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka út af fyrir sig þessi svör, en ég vil gjarnan fá að vita hverjir af forsetum Alþingis hafa óskað eftir að þessi skoðunarferð yrði farin, hvort það er eingöngu --- það var í fleirtölu, forsetar. Það hljóta þá að vera einhverjir fleiri en hæstv. forseti Sþ. Ég vil fá að vita hverjir það eru. Ég hafði satt að segja haldið að þetta mál væri dautt. Því hefur ekki verið hreyft æðilengi, en ef nú undir þinglokin, í tímapressu, á að leggja þessa pressu á fólk ofan á allt annað, þá líst mér nú ekki á blikuna. En hverjir eru það sem óska eftir að alþingismönnum sé sérstaklega boðið að skoða innviði þessa húss? Og hverjir eru það af hv. alþingismönnum sem sérstaklega vilja gera það? Ég held að ég verði a.m.k. að fá svar við fyrri spurningunni. Hverjir eru þessir forsetar Alþingis sem taka sér það, ég vil nú segja bessaleyfi að hafa þennan óvenjulega hátt á?