Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 888 er að finna nál. hv. félmn. varðandi könnun á aðstöðu einstaklinga með glúten-óþol. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna á nokkrum fundum. Umsagnir bárust frá Samtökum fólks með glúten-óþol, Tryggingastofnun ríkisins og landlækni. Einnig komu á fund nefndarinnar til viðræðu um málið Ólafur Ólafsson landlæknir, Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu, og Gestur Pálsson barnalæknir.
    Umsagnaraðilar mæla með að tillagan hljóti afgreiðslu. Fulltrúi Samtaka fólks með glúten-óþol segir m.a. í umsögn sinni:
    ,,Samkvæmt upplýsingum frá Svíþjóð munu sjúklingar með glúten-óþol fá aðstoð með skattaívilnunum og væri það vafalaust æskilegasta lausnin hérlendis, nema ef farið væri að greiða út bætur. .*3.*3. Við hvetjum því eindregið til þess að yfirvöld sjái ástæðu til að kanna hvernig að málum er staðið á öðrum Norðurlöndum svo koma megi málefnum einstaklinga hérlendis, sem haldnir eru sjúkdómnum, í betra horf.``
    Í viðtölum við ofangreinda um málið kom fram að líkt væri ástatt um ýmsa fleiri hópa sem þjást af ofnæmi eða skyldum sjúkdómum og væru svipað settir og fólk með glúten-óþol. Þá var dregið í efa að fjöldi sjúklinga með glúten-óþol hérlendis væri jafnmikill og talið hefur verið og látið er liggja að í
greinargerð með tillögunni. Rannsóknir hafa farið fram um nokkurt skeið á glúten-óþoli hjá börnum hérlendis og aðeins örfá ný tilfelli greinst með sjúkdóminn. Sjúkdómurinn er mun sjaldgæfari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum, t.d. Svíþjóð, og í Bandaríkjunum. Þannig virðist þessi sjúkdómur almennt séð frekar í rénun en vexti að sögn Gests Pálssonar læknis. Það breytir samt ekki eðli vandans hjá þeim sem haldnir eru glúten-óþoli.
    Félagsmálanefnd vefengir ekki að verulegur aukakostnaður geti fallið á einstaklinga sem haldnir eru glúten-óþoli. Það gildir hins vegar um ýmsa fleiri hópa sem haldnir eru ofnæmi gagnvart fæðutegundum. Því virðist ekki sjálfgefið að taka glúten-óþol sérstaklega út úr í þessu efni.
    Nefndin hvetur yfirvöld heilbrigðis- og tryggingamála til að kanna hversu mikil brögð eru að því að fólk haldið ofnæmissjúkdómum, þar á meðal glúten-óþoli, standi verr að vígi hér á landi gagnvart tryggingum og greiðslu opinberra gjalda en samsvarandi hópar í nágrannalöndum og geri tillögur um leiðréttingar eftir því sem réttmætt er talið. Í trausti þess að það verði gert leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn í félmn.