Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. hefur nú flutt framsöguræðu fyrir þáltill. um jöfnun orkukostnaðar. Það kom fram í ræðu hans eins vel og komið getur hve mikilvægt þetta mál er. Ég hef engu við það að bæta. Ég held að öllum hv. alþm. eigi að vera það kunnugt.
    Það má kannski segja að tvö grundvallarsjónarmið séu ríkjandi í þessu máli. Annars vegar það sjónarmið að rétt sé að verðskrár fyrir orkukostnað séu það sem kallað er kostnaðarréttar, þ.e. þær endurspegli nákvæmlega kostnað veitunnar við að afhenda viðskiptavininum orkuna. Hins vegar það grundvallarsjónarmið að orkan eigi að vera á sama verði um allt land.
    Báðum þessum grundvallarsjónarmiðum er hafnað í framkvæmd hjá okkur. Ekki er um að ræða kostnaðarréttar verðskrár. Ástandið er þannig að Landsvirkjun hefur sömu verðskrá á öllum sölupunktum sínum hvar sem er á landinu. Orkubú Vestfjarða, sem ég er sérlega vel kunnugur, hefur sömu verðskrá um alla Vestfirði þó munur á kostnaði við að koma orkunni til neytenda sé mikill eftir því hvort það er á þéttbýlisstöðum eða í sveitum. Það má líka segja að í Reykjavík sé verðjöfnun að því leyti að ekki er fylgt grundvallarsjónarmiðinu um að verðskrárnar skuli vera kostnaðarréttar. Það er mismunandi sem það kostar að koma orkunni, jafnvel í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu til einstakra notenda. Samt er verðið það sama.
    En þó að við búum við þetta í dag og að við höfnum í framkvæmd þeirri grundvallarhugsun að verðskrárnar skuli vera kostnaðarréttar, þá er langt í frá að við séum með sama verð hvar sem er á landinu. Það er langt í frá að við séum búnir að ná takmarki verðjöfnunar, ef við setjum okkur það mark að verðið sé hið sama á öllu landinu, þegar verð orkunnar er tvöfalt, þrefalt eða jafnvel meira miðað við orkuverðið hér í Reykjavík.
    Spurningin er, hvernig á að bæta úr þessu? Sú þáltill. sem hér er lögð fram segir ekkert um það. Hún fjallar um að skora á ríkisstjórnina að vinna markvisst að því jafna orkukostnað í landinu. Þessi till. er þess vegna hvorki betri né lakari en fjöldi tillagna sem fram hefur komið um þetta efni.
    Það er alveg rétt og það er deginum ljósara sem hv. frsm. og 1. flm., 2. þm. Vesturl., sagði að það er kominn tími til þess að hv. þm. samræmi orð og efndir í þessu máli. Flestir, ég segi ekki allir, sem rætt hafa um þessi mál á undanförnum árum hafa tjáð sig fylgjandi verðjöfnun, a.m.k. meiri verðjöfnun en er í dag. Ef menn ætla að samræma orð og efndir í þessum efnum verða þeir að horfast í augu við staðreyndir og mæta staðreyndum og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegt er að gera. Og hverjar eru þær staðreyndir? Staðreyndirnar eru þær að það krefst fjármagns að koma á verðjöfnun á orku í landinu.
    Nýjustu tölur sem ég hef handbærar um þetta efni eru þær að ef ætti að verðjafna þannig að sama

orkuverð væri hvar sem er á landinu þyrfti til þess 2,2 milljarða kr. Það eru miklir fjármunir og er von að mönnum hnykki við þegar þeir heyra þetta. En mönnum ætti að hnykkja meir við það að þetta sýnir hvað sá óréttur kostar þá sem búa við hið háa orkuverð. Auðvitað hljóta svona staðreyndir að vera okkur hvatning til að gera eitthvað raunhæft í þessum málum.
    Ég sé ekki annað en í grundvallaratriðum sé um tvær leiðir að ræða. Önnur er verðjöfnun innan orkugeirans með greiðslum orkufyrirtækja í jöfnunarsjóð sem þau sjálf ráðstafa eftir ákveðnum reglum. Hin leiðin er sú að ríkisvaldið verðjafni af almennu skattfé borgaranna. Ég held að nauðsynlegt sé að við sem viljum raunhæfar aðgerðir í þessum málum gerum okkur grein fyrir því hvað hér er um að ræða og leitumst líka við að gera okkur grein fyrir hvernig á úr að bæta.
    Ég hef ekki staðið upp til að ræða þetta mál til neinnar hlítar. Ég hef staðið hér upp einungis til að lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. þingmanna Vesturl. Ég hygg að það hljóti allir að gera hér á Alþingi sem fara með umboð þeirra sem verða fyrir þeim búsifjum og því óréttlæti sem fylgir þeim mismun á orkuverði í landinu sem við nú búum við.