Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég kem til þess að lýsa stuðningi við það mál sem hér er flutt, till. til þál. um jöfnun orkukostnaðar. Ég get tekið undir fjölmargt sem hefur komið fram hjá þeim sem talað hafa hér í umræðunni og þar á meðal mál hv. 1. flm. tillögunnar. Hér er á ferðinni mál sem hefur borið árlega á góma í sölum Alþingis um langt skeið. Það er ekki vansalaust að menn skuli ekki hafa náð hér saman þvert á flokka, óháð ríkisstjórnum til þess að taka á þessum hrikalega mismun sem þarna er um að ræða í lífskjörum í landinu eftir því hvar menn búa.
    Ég vil hvetja mjög eindregið til þess að nú verði gerð að því gangskör af þingmanna hálfu að taka saman höndum um það að skila árangri í þessu máli með þeim hætti að menn útbúi hér frv. til laga til tekjuöflunar til þess að tryggja að árangur náist á þessu sviði. Það hefur ekki verið krafa okkar að þetta leysist í einu vetfangi þannig að það skapist alger jöfnuður í þessum efnum. Sú krafa hefur ekki verið uppi hverju sinni sem mál þessi eru borin fram, heldur að það takist að leiðrétta þetta á stuttum tíma. Það væri árangur sem allir gætu verið sáttir við, auðvitað helst að ná strax fullkominni jöfnun í þessu eftir því sem hægt er. Vissulega verðum við að hafa í huga að aðstæður hvers einstaklings, hvers íbúðareiganda t.d., eru auðvitað misjafnar, hús eru misjafnlega úr garði gerð o.s.frv. Slíkir þættir þurfa auðvitað að vera í lagi. Þegar menn eru að tala um jöfnun orkuverðs óháð búsetu er verið að tala um reiknaðar meðaltalsaðstæður, að menn nái þar sambærilegum árangri.
    Ég held að fullyrða megi að mjög lítið hefur miðað í þessum efnum undanfarin ár. Það er rétt sem fram hefur komið um það. Mismunurinn hefur kannski orðið ögn minni vegna þess að samanburðurinn við þéttbýlissvæðið hérna hefur orðið ögn hagstæðari. Hér hefur verð hitaorku til íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað hlutfallslega meira, eða gerði það a.m.k. um skeið, heldur en
rafhitunarkostnaðurinn og verð hitaveitna annars staðar á landinu, hinna dýru hitaveitna, þeirra sem standa undir miklum fjármagnskostnaði. Þannig hefur mismunurinn orðið ögn minni. Eftir stendur þó þetta, tvöfaldur til þrefaldur munur miðað við meðaltalsaðstæður sem er auðvitað gersamlega óþolandi staða. Ég man auðvitað eftir því þegar ég var í stöðu iðnrh. fyrir um áratug síðan, þá var við þennan vanda að fást. Þá leituðumst við við að leggjast á árar um það að hamla gegn geysilegum hækkunum sem Landsvirkjun taldi sig þurfa á þeim tíma og að leiðrétta stöðu þess fyrirtækis og orkuviðskipti þess við hinn stóra kaupanda ÍSAL og aðra stóriðjukaupendur. Þar lögðust á árar menn úr ýmsum flokkum. Ég minnist mjög góðrar liðveislu hv. 4. þm. Vestf. í þeirri baráttu á þeim tíma, á þessum árum og margir fleiri komu þar að máli. Það tókst að fá mjög verulega leiðréttingu á raforkuverði til álversins í Straumsvík. Baráttan fyrir þeirri leiðréttingu

tengdist vissulega voninni um að hægt væri að jafna orkukostnað í landinu. Ég ætla ekki að rekja þá sögu frekar.
    Meginatriðið er að menn beri sig saman um það fyrr en seinna hvaða ráðum menn geta beitt, um hvaða ráð menn ná saman til þess að leiðrétta þennan mismun. Hér hefur verið vísað í lög um Landsvirkjun, að sækja í sjóði Landsvirkjunar í þessum efnum. Það er vafalaust eitt af þeim ráðum sem koma til álita. En ég hygg þó að víðar þurfi að leita fanga, hugsanlega með almennum orkuskatti sem legðist á þau fyrirtæki sem bjóða hagstæðast orkuverð til þess að ná jöfnuði eftir þeirri leið og safna tekjum eftir þeirri leið. Þetta næst auðvitað ekki nema pólitísk samstaða sé um aðgerðir. Það er auðvitað alveg ljóst að það yrði talsvert lagt á þá sem búa nú við hagstæðan orkugjafa og miklu lægra kostnaðarverð en hinir. Þó skulu menn hafa það í huga að fjöldinn sem býr við erfiðust kjörin í þessum efnum er nefnilega ekki svo ýkja mikill. Það er því ekki um það að ræða að menn þurfi að lyfta kostnaði hjá þeim sem hér búa á þessu fjölmenna svæði svo mjög þó að þeir leggi í sameiginlegan sjóð til þess að leiðrétta mismuninn að einhverju leyti.
    Þetta eru aðeins vangaveltur sem ég hef mælt í tilefni af umræðu um þessa tillögu. Ég heiti mínu liðsinni í þessu máli ef ég get komið þar við sögu. Ég skora á okkur þingmenn hér á Alþingi að taka þegar til höndum um tillögugerð og ætla ekki einvörðungu stjórnvöldum, þ.e. ríkisstjórn, að leysa málið. Við eigum hér á þinginu að hafa alla burði til þess að geta borið fram tillögu til að ná árangri á þessu sviði.