Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Pétur Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma hér upp og þakka hv. þm. Vesturl. fyrir flutning þessarar tillögu og taka eindregið undir það sem í henni felst. Það er mjög ánægjulegt og kemur skýrt fram í greinargerð að það sem í tillögunni felst, að markvisst verði unnið að jöfnun orkukostnaðar í landinu, virðist njóta eindregins stuðnings allra stjórnmálaflokka og ætti því kannski að verða auðleyst mál og verður það vonandi. Hér er um mikið réttlætismál að ræða og, eins og hér kemur fram, ekki aðeins um orkukostnað til húshitunar heldur aðra orkunotkun.
    Ég vil benda á að ýmislegt hefur áunnist, bæði í þessum efnum þrátt fyrir allt og öðrum. Ég nefni þar t.d. jöfnun símakostnaðar. Þar hefur náðst nokkur jöfnuður þó að nokkuð sé langt í land enn þá. Ég á ekki von á því að Póstur og sími hafi í rauninni tapað mikið á þessu eða almenningur annars staðar en í dreifbýli hafi þurft að bæta miklu við sig. Staðreyndin er sú t.d. um símakostnað á landsbyggðinni að menn nota símann upp að ákveðnu marki sem efnahagurinn leyfir og þeir nota símann meira eftir að lækkun hefur orðið. Nú ætla ég ekki að halda því fram að svo verði með húshitun. Þó kann svo vel að vera vegna þess að einmitt vegna þess hversu illbærilegur þessi hái hitunarkostnaður er þar sem orkuverð er hæst, þá nýta menn auðvitað hitann eins lítið og þeir geta.
    En það er ánægjulegt að sjá hversu sterk rök liggja fyrir stuðningi við þetta og ég vona að þetta mál fái góðan stuðning hér á þingi og hinn besta framgang.