Ræktun íslenska fjárhundsins
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Flm. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér ásamt þingmönnunum Inga Birni Albertssyni, Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, Pálma Jónssyni og Árna Gunnarssyni að leggja fyrir Alþingi svohljóðandi þáltill.:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að vernda íslenska fjárhundinn og hreinrækta stofninn.``
    Í greinargerð með þessari þáltill. er fjallað um þann vanda sem steðjar að hvað ræktun og framtíð íslenska fjárhundsins varðar. En við segjum þar:
    ,,Íslenski fjárhundurinn er þjóðararfur og þjóðargersemi Íslendinga, hann er lifandi listaverk sem okkur ber að varðveita.
    Nú er talið að aðeins 100 til 200 hundar af íslenska fjárhundakyninu séu hér á landi. Þetta eitt segir að kynið er í útrýmingarhættu.
    Útlendingar hafa sýnt hundinum okkar mun meiri sóma en við sjálf. Íslenski fjárhundurinn er nú þegar kominn í ræktun víða um lönd þar sem hann nýtur mikillar virðingar og síaukinna vinsælda. Frændur okkar, Norðmenn og Danir, rækta stofninn í miklum mæli og þar fjölgar hundum af okkar stofni ört. Íslenski fjárhundurinn vekur mikla athygli á hundasýningum í Evrópu og Ameríku.``
    Mér skilst að íslenski fjárhundurinn sé sýningargripur á nokkur hundruð sýningum út um allan heim árlega. Það segir sína sögu. Við tökum kannski stórt upp í okkur þegar við segjum að útlendingar sýni honum meiri sóma en við sjálf því að það verður þó að viðurkennast að allmargir Íslendingar eru bæði meðvitaðir um þá hættu sem steðjar nú að stofninum og hafa sýnt ræktunarmálum íslenska hundsins mikinn áhuga og unnið mikið og fórnfúst starf.
    Það gerðist nýlega að veitt var leyfi til að flytja hingað þrjá íslenska hvolpa frá Danmörku til undaneldis. Þessir hvolpar eru undan hundi og tík sem seld voru til Danmerkur fyrir nokkrum árum til að bæta ræktun þar og þá fylgdi sú kvöð að við fengjum í staðinn hvolpa síðar meir. Nú hefur þeim þætti verið fullnægt og hvolparnir þrír eru nú lausir úr einangrun. Mikilvægt er að Hundaræktarfélaginu og áhugamönnum um hundarækt sé veitt aðstoð til að nýta þessa góðu sendingu til sóknar í ræktunarstarfinu. Ekki síst þess vegna er þessi þáltill. flutt, til að vekja athygli á málinu, til þess að efla ræktunarstarfið.
    Útlendingar eru það hrifnir af okkar fjárhundi að þeir greiða háar fjárhæðir fyrir hreinræktaðan íslenskan hvolp og það er mikil eftirsókn eftir íslenskum hvolpum. Ég hygg að það skipti tugum þúsunda sem fæst fyrir hvern hvolp. En þegar stofninn er aðeins 100 til 200 hreinræktaðir hundar þolir hann illa að bestu dýrin séu jafnan seld úr landi eins og nú gerist. Þess vegna er kannski það háa verðlag sem nú er á hundinum í heiminum enn líklegra við þessar aðstæður til þess að útrýma honum í okkar eigin landi. Það er kannski spurning hvort um sinn verði ekki að stöðva sölu á hvolpum héðan frá Íslandi út í

heim. En um það ætla ég ekki að fjalla frekar hér.
    Frá því að skipuleg ræktun og skráning hófst hafa 140 hreinræktaðir hundir verið seldir úr landi. Enginn vafi er á því að sú deild í Hundaræktarfélaginu sem sinnir málefnum íslenska fjárhundsins hefur unnið ómetanlegt starf en deildin hefur haft yfirumsjón með svo til allri ræktun hér á landi síðustu ár. Sjálfsagt væri enn verr komið ef þarna hefði ekki hugsjónafólk safnast saman og haldið áfram ræktunarstarfi.
    Enn fremur hafa miklir ræktunarmenn unnið gagnmerkt hugsjónastarf. Hér nefnum við til sögunnar þrjár persónur, Svein Kjarval, Sigríði Pétursdóttur á Ólafsvöllum og Pál Agnar Pálsson, fyrrv. yfirdýralækni, en auðvitað mætti nefna mörg fleiri nöfn. Við bendum á það að með nýju átaki væri mikilvægt að fá bændur landsins í miklu meiri mæli inn í ræktunarstarfið.
    Ég gat þess að eftirspurn eftir hvolpum væri mjög mikil í fjölmörgum löndum. Þar vil ég nefna t.d. Bandaríkin, Sviss, Þýskaland, Kanada og öll Norðurlöndin. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hundur um víða veröld er í færri tilfellum eign fátæka mannsins þó það sé sem betur fer kannski með, en það er mjög algengt að efnafólk leyfi sér það að halda hund.
    Jafnvel hefur það sums staðar orðið að tísku úti í heimi að eiga íslenskan hest og íslenskan hund og klæðast íslenskri lopapeysu. Það er ekki lítið atriði að hesturinn og hundurinn, sem hafa fylgt Íslendingum í 1100 ár, njóta þeirrar hrifningar að broddborgarar úti í löndum líta á það sem stöðutákn að ríða á glæstum íslenskum gæðingi, þeim fylgi íslenskur hundur og í ofanálag klæðast þeir lopapeysunni okkar.
    Það er hugsanlegt að með auknu ræktunarstarfi kunni þessar tvær búgreinar, hundaræktin og hestaræktin eða íslenski hundurinn og hesturinn, að styrkja hvor aðra hvað markaðsvöru varðar ef við stöndum okkur vel hér heima í að efla hundaræktina. Því að sannleikurinn er sá með íslenska hestinn að þar höfum við dugað vel. Þar er ræktunarstarfið í góðum farvegi og hesturinn er sterkur í landinu. Enn fremur yrði íslenski fjárhundurinn, ef vel tekst til með markvissu átaki sem yrði stjórnað af okkar besta ræktunarfólki og
sérfræðingum, enn betri auglýsing á erlendum vettvangi og mundi skapa gjaldeyristekjur hér heima. Þeir sem halda hunda, eins og ég sagði, eru oftar en ekki efnafólk þannig að allur kostnaður lagður í eflingu stofnsins mundi skila sér til baka.
    Við getum þess hér að Hundaræktarfélagið átti 20 ára starfsafmæli 4. sept. sl. Í tilefni af því gáfu hundaræktarfélögin annars staðar á Norðurlöndum félaginu peningagjöf sem skal varið til að gera myndband um íslenska hundinn. Það ber að sama brunni að hugsjónafólkið sem er að reyna að vernda íslenska hundastofninn fær oftast styrk og aðstoð frá áhugafólki erlendis meðan íslenskir aðilar láta sér fátt um finnast. Mér er sagt t.d. að íslenski fjárhundurinn sé eina hundakynið í heiminum sem hafi hringaða rófu og að því leyti hefur hann vakið virkilega athygli

víða. Það eru mörg sérkenni við hann, bæði í útliti og ekki síður hversu djúpvitur hann reynist ef rétt er með hann farið í uppeldinu.
    Með þessari tillögu höfum við látið fylgja ágrip af sögu íslenska fjárhundsins til upplýsingar. Hygg ég að ef þingmenn lesa þetta ágrip verði þeir kannski dálítið undrandi á ýmsu sem þar kemur fram. Þar segir t.d.: ,,Á miðöldum voru íslenskir hundar orðnir nokkuð vinsæl útflutningsvara frá Íslandi, sérstaklega til Bretlands, og voru þeir vinsælir sem heimilishundar hjá fyrirfólki.`` Við komum inn á það að þeir sem skrifuðu ferðabækur minntust gjarnan á íslenska hundinn, útlit hans og sérkenni og hversu mikilvægur hann var baráttunni í landinu, hversu tryggur félagi hann var þjóð sinni. Það er getið um hann í hverri einustu ferðabók sem hér er skrifuð og hundurinn vakti verulega athygli ýmissa þeirra ferðamanna sem hingað komu í gegnum aldirnar. Fyrir góða hunda mátti áður fyrr fá gott hestverð. Nú kann það að vera í uppsiglingu á nýjan leik ef vel tekst til, að menn geti fengið fyrir góðan hund hestverð. Ég veit ekki hvað hestverð er en ekki kæmi mér á óvart að góðir hestar færu á nokkur hundruð þús. kr.
    Síðan rekjum við það hvernig þetta hefur þróast. Hér herjuðu pestir o.s.frv. og sullaveiki sem leiddi e.t.v. til þess að farið var að fækka hundum.
    Ég veit ekki hvort ég á að hafa öllu fleiri orð um þessa þáltill. Mér finnst hún segja það sem við erum að hugsa, að menn þurfa að snúa vörn í sókn. Ég er sannfærður um að það er hægt að fara margar leiðir til að styrkja og efla ræktun íslenska fjárhundsins. Það er hægt að fá marga til liðs við sig. Við bendum hér á deildina í Hundaræktarfélaginu. Ég er sannfærður um að það á að leita til Búnaðarfélags Íslands í málinu og enn fremur held ég að það sé mjög mikilvægt að virkja einmitt bændur, stofna stofnræktarbú o.s.frv. þannig að mér finnst leiðirnar margar.
    Ég orðlengi þetta þá ekki frekar, hæstv. forseti, en að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.