Veiting ríkisborgararéttar
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar frá allshn. Eins og að undanförnu var sá háttur hafður á við nefndarstarfið að formenn allsherjarnefnda beggja deilda ásamt starfsmanni nefndanna fóru yfir frv. og þær umsóknir sem nefndinni bárust til viðbótar þeim sem í frv. eru.
    Reglur þær, sem allsherjarnefndir beggja deilda settu í nál. 17. maí 1955 og síðan hafa verið gerðar nokkru fyllri, eru nú hafðar til hliðsjónar. Þær reglur voru síðast birtar í nál. 2. maí 1978, þskj. 830. Jafnframt hafa formenn nefndanna og síðan allshn. Ed. lagt til að sérstök regla verði tekin upp varðandi fólk í óvígðri sambúð þar sem umsóknum einstaklinga, sem búa í óvígðri sambúð, hefur fjölgað á undanförnum árum. Reglan er byggð upp á sama grunni og hjúskaparreglan, þ.e. að samkvæmt mati því sem miðað er við hjá Tryggingastofnun ríkisins og fjmrn. er það sama réttarstaða og hjá hjónum ef sambúðarfólk hefur búið saman í tvö ár. En síðan er krafist þriggja ára búsetu fyrir hjón hér á landi þar sem annað hjóna er íslenskur ríkisborgari. Það er því metið sem sama réttarstaða og hjá hjónum ef fólk hefur búið saman í fimm ár og átt hér lögheimili í þrjú ár a.m.k. Þá telur nefndin rétt að kyngreina ekki í sérreglu um íslenskan ríkisborgara sem missir íslenska ríkisfangið við hjúskap en snýr heim eftir að hjúskap hefur verið slitið. Reglurnar eru birtar þannig breyttar í nál.
    Nefndin leggur til að við frv. verði bætt nöfnum 33 einstaklinga sem hún mælir með að hljóti íslenskan ríkisborgararétt að þessu sinni. Eftir þá breytingu, ef samþykkt verður, verða það því alls 43 einstaklingar. Að nál. og brtt. standa allir nefndarmenn í allshn. Ed. og leggja til að frv. verði samþykkt svo breytt.