Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði að segja nokkur orð um þetta viðamikla frv. við 1. umr. og þá sérstaklega vegna ákveðins erindis sem ég hef þegar gert ítarlegar fyrirspurnir um á þessu þingi.
    Þannig er mál með vexti að skýrslu nauðgunarmálanefndar var skilað til dómsmrh. í október 1988 eins og komið hefur fram hér í umræðum áður. Í þeirri skýrslu voru tillögur til úrbóta. Þær voru í fjórum meginliðum. Fyrsti liðurinn varðaði breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðar sifskapar- eða skírlífisbrot, og lagt hefur verið fram frv. til breytinga á þeim lögum hér á þessu þingi sem er til umfjöllunar í allshn.
    Annar liðurinn varðaði breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, sem þetta frv. fjallar einmitt um og er ítarleg og veruleg endurskoðun á þeim lögum. Ég vil lesa upp úr skýrslunni það sem varðar þennan lið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin telur nauðsynlegt að lögum um meðferð opinberra mála verði breytt, og eru markmið lagabreytingar samkvæmt hugmyndum nefndarinnar einkum þessi: Að draga úr skaðlegum áhrifum brots og málsmeðferðar á brotaþola og tryggja þeim bætur fyrir fjártjón og miska. Að styrkja refsivörslukerfið í baráttunni við refsiverð brot. Tillögur nefndarinnar eru ekki í formi frumvarpstexta heldur settar þannig fram að unnt sé að taka afstöðu til meginstefnu þeirra og þess útgjaldaauka sem af þeim leiðir áður en gengið er frá frumvarpi. Tillögur nefndarinnar eru miðaðar við nauðgunarbrot og önnur þau kynferðisbrot sem falla undir verksvið nefndarinnar, en flest af því sem lagt er til á einnig við um önnur kynferðisbrot og sumt einnig um ofbeldisbrot almennt. Helstu tillögur um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála eru`` og síðan eru taldir upp fimm stafliðir sem ég hef reyndar nýlega gert fyrirspurn um ásamt þrem öðrum ítarlegum fyrirspurnum til hæstv. dómsmrh. og vil ég lesa þá upp:
    ,,a. Að þolendur kynferðisbrota öðlist fortakslausan rétt til endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns allt frá upphafi rannsóknar og þar til meðferð máls lýkur.`` Ég sé þess engin merki að tekið hafi verið tillit til þessa í því frv. sem hér liggur fyrir og verð ég að segja að ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með það.
    ,,b. Að vikið verði frá frjálsu sönnunarmati varðandi fyrri kynferðishegðun brotaþola að fyrirmynd margra annarra ríkja, sbr. t.d. 2. mgr. 185. gr. dönsku réttarfarslaganna. Verður sönnunarfærsla um fyrri kynhegðun brotaþola þá yfirleitt útilokuð nema hún teljist hafa verulega þýðingu í máli sem til umfjöllunar er.`` Þessarar breytingar sér engan stað í því frv. sem hér er til umfjöllunar.
    ,,c. Lagt er til að tilgreint verði tæmandi í lögum hvernig ákæruvaldið megi falla frá saksókn. Einnig verði sett ákvæði um rökstuðning fyrir niðurfellingu

í meiri háttar málum og hverjum hún skuli kynnt.`` Til þessa atriðis eða þessa stafliðar hefur verið tekið tillit í 113. gr. að ég hygg og í 114. gr. Í 113. gr. er fjallað um hvernig falla megi frá saksókn. Þar er aftur orðalagi á ýmsan hátt vikið við miðað við það sem hér stendur og er talsvert þrengra og takmarkaðra en við lögðum til. Í 114. gr. er fjallað um rökstuðning þann sem saksóknara ber að gefa fyrir niðurfellingu máls og það er einnig þrengra en við lögðum til í c-liðnum. En þó verður að fagna því að þar hafi verið tekið tillit til þess sem við lögðum til. Ég les áfram:
    ,,d. Þá leggur nefndin til að endurskoðuð verði gildandi lagaákvæði um meðferð mála fyrir dómstólum í því skyni að veita brotaþolum aukna vernd og stuðning.
    1. Lagt er til að brotaþoli öðlist skýlausan rétt til að krefjast þess að með mál verði farið fyrir luktum dyrum.
    2. Heimiluð verði skýrslutaka brotaþola án návistar hins brotlega.
    3. Ákveðnar reglur verði settar um fortakslaust fréttabann á persónulegar upplýsingar um brotaþola nema knýjandi nauðsyn sé til þess að birta slíkar upplýsingar opinberlega.``
    Í þessum lið sem er í þremur undirliðum hefur einungis verið tekið tillit til eins atriðis og það má finna í 6. lið 59. gr. á bls. 12 í frv. þar sem segir: ,,Dómari getur ákveðið að sakborningi verði vikið úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis er tekin, ef þess er krafist og dómari telur að nærvera sakbornings geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess.``
    Að öðru leyti er ekkert tekið tillit til þessa stafliðs og þeirra tillagna sem þar koma fram.
    Og í síðasta lagi er það e-liður þar sem nefndin telur nauðsynlegt að brotaþola, konu, verði tryggð greiðsla þeirra bóta sem dómstólar dæma henni með því að ríkissjóður greiði henni bæturnar og endurkrefji síðan dómþola.
    Það er sem sagt tekið ákaflega lítið tillit til þeirra vel útfærðu og sanngjörnu tillagna til breytinga til þess að vernda brotaþola og draga úr skaðlegum áhrifum brots og málsmeðferðar á brotaþola. Verð ég að telja að
þarna hafi ekki verið brugðist við sem skyldi. Ég hlýt að krefja hæstv. dómsmrh. svara um það hvers vegna ekki er að finna fleiri af þeim breytingum sem lagðar voru til í þessu viðamikla frv. Og ég vil lýsa yfir óánægju með það að í þessu frv. skuli í raun enginn sérstakur kafli vera um brotaþola sem hlýtur þó að vera aðili að öllum þeim málum meira og minna sem hér er um að ræða.
    Ég ætla ekki að orðlengja neitt frekar um þetta við 1. umr., ég heyri að ekki er ætlunin að þetta frv. eigi að fara í gegnum þingið nú, enda væri það óðs manns æði að ætla að fjalla um svo viðamikið frv. á jafnstuttum tíma og eftir er. Ég vil bara minna hæstv. dómsmrh. á hans eigin orð sem hann hafði þegar hann svaraði fsp. hér ekki alls fyrir löngu. Ég vil minna hann á tvær aðrar tillögur sem nefndin gerði sem

varða neyðarmóttöku og námskeið fyrir lögreglumenn og starfsfólk heilbrigðisþjónustu. Allt eru þetta brýnar tillögur en þær sem varða sérstaklega þetta frv. hef ég þegar lesið upp. Ég legg megináherslu á fortakslausan rétt til endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns og einnig að brotaþola verði tryggðar þær bætur sem henni eða honum eru dæmdar með því að ríkissjóður greiði bæturnar og endurkrefji síðan dómþola. Hinar breytingarnar eru líka mjög mikilvægar og ég get ekki annað séð en það hljóti að verða tekið tillit til þeirra í umfjöllun nefndarinnar. En ég vil spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvers vegna er ekki að finna fleiri af tillögum nauðgunarmálanefndar í þessu viðamikla frv.?