Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir það innlegg sem hún hefur lagt í þetta mál nú sem og fyrr og skal leitast við að svara þeirri fsp. sem hún beindi til mín.
    Eins og okkur bæði rekur sjálfsagt minni til svaraði ég fsp. hennar einmitt um þau atriði sem hún taldi upp, tillögur nauðgunarmálanefndar um þau lagaatriði sem hér er um að ræða, á þann veg að ég mundi leita umsagnar réttarfarsnefndar, einmitt þeirrar nefndar sem hefur haft þetta frv. til meðferðar og raunar samið það að langmestu leyti, og það gerði ég á sínum tíma. Mér barst ákveðið svar frá réttarfarsnefnd eða formanni hennar. Ég held að ég svari best þeirri spurningu sem þingmaðurinn lagði fyrir mig með því að lesa meginhlutann af því svari. Í svari réttarfarsnefndar um þessi atriði segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndinni eru kunnar tillögur nauðgunarmálanefndar og hefur tekið tillit til þeirra í tillögum sínum að frv. til nýrra laga um meðferð opinberra mála en tillögur að texta frv. hafa verið afhentar ráðuneytinu.`` --- Þetta var um líkt leyti og fyrstu tillögur komu til ráðuneytisins. --- ,,Þá hefur ríkissaksóknari vakið athygli dómstóla á skýrslu sömu nefndar.
    Það er tilfinning þeirra sem vinna að dómsmálum að rannsóknaraðilar hafi á síðari árum nokkuð aðlagað sig að líkum viðhorfum og koma fram hjá nefndinni. Engin rannsókn hefur þó farið fram á þessu þannig að þetta verður ekki fullyrt. Það er eindregin skoðun réttarfarsnefndar að það sé við upphaf rannsóknar og á rannsóknarstigi sem eðlilegast sé að koma til móts við þolendur kynferðisafbrota. Nauðgunarmálanefnd leggur til að þetta verði gert með neyðarmóttöku á sjúkrahúsi þar sem þjálfað starfsfólk tekur á móti brotaþola. Þetta er stutt af rannsóknaraðilum en það er í verkahring heilbrigðisyfirvalda að hrinda þessu í framkvæmd. Að því er snýr að lögreglu
og dómsyfirvöldum verður best komið til móts við þessa brotaþola með þjálfun starfsmanna og ákveðnum starfsreglum hjá rannsóknarlögreglu.
    Því skal ekki gleymt að innan rannsóknarlögreglu starfa margir þrautreyndir menn með mikla lífsreynslu sem vel eru í stakk búnir til þess að takast á við þessi mál sem önnur.
    Einnig er um að ræða hér á landi nægilega öflugt almenningsálit til þess að lögreglu og dómurum verði gert mögulegt að beita þeim hlutlægu sjónarmiðum sem á að vera aðall réttarkerfis okkar.
    Þá verður ekki hjá því komist að vekja athygli á því að brot þessi eru mjög ólík innbyrðis.
    Í tillögum þeim að frv. að nýjum lögum um meðferð opinberra mála sem að framan er getið hefur réttarfarsnefnd komið mjög til móts við þær tillögur nauðgunarmálanefndar sem snerta lög um meðferð opinberra mála enda þótt tillögur réttarfarsnefndar nái til meðferðar allra brota en ekki aðeins til kynferðisbrota. Þá hafa tillögur réttarfarsnefndar að

geyma ákvæði þar sem enn frekar er tekið tillit til þolenda kynferðisbrota sem og til þolenda annarra brota en gert er í tillögum nauðgunarmálanefndar. Réttarfarsnefnd hefur lengi unnið að tillögum að frv. til nýrra laga um meðferð opinberra mála. Nú sér fyrir endann á þessu yfirgripsmikla verki og hefur nefndin miðað við að frv. í þessa veru verði lagt fyrir yfirstandandi þing. Þykir einsýnt að réttara sé að leitast við að fá það lögtekið en að efnt verði til einhverrar annarrar nýsmíði á þessu sviði. Hér á eftir verður gerð grein fyrir afgreiðslu einstakra tillagna nauðgunarmálanefndar eins og þær koma fyrir í bréfi því sem dómsmrh. sendi nefndinni.``
    Síðan eru hér í bréfinu svör við hverju þessara atriða en ekki spurningarnar sjálfar eða efnisatriðin. Þess vegna tel ég rétt að ég lesi í svari mínu upp hvern lið fyrir sig. Í a-lið segir, með leyfi hæstv. forseta, að þolendur kynferðisbrota öðlist fortakslausan rétt til endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns, allt frá upphafi rannsóknar og þar til meðferð máls lýkur.
    Um þetta segir í svari réttarfarsnefndar: ,,Í frumdrögum að frv. til laga um opinbera réttaraðstoð`` --- og það er rétt að taka fram að nú hefur þetta frv. verið samþykkt af ríkisstjórn og stjórnarflokkum öllum og mun verða lagt fram á þessu þingi, frv. til laga um réttaraðstoð, --- ,,sem nefnd undir forsæti Björns Friðfinnssonar ráðuneytisstjóra vinnur að [hefur nú lokið við] er ýmist gert ráð fyrir skyldu eða heimild til að kveðja þegar í upphafi máls til réttargæslumenn fyrir þolendur kynferðisbrota. Drög þessi hafa einu sinni verið rædd í réttarfarsnefnd, að ósk Björns`` --- hafa nú verið rædd oftar að því að ég best veit --- ,,og mun svo aftur verða þegar nefndin hefur lokið lagfæringum á drögunum.
    Réttarfarsnefnd styður þessar tillögur og telur að ákvæði í þessa veru eigi heima í lögum um opinbera réttaraðstoð.``
    Þá er það b-liðurinn af hálfu nauðgunarmálanefndar. Þar segir svo: ,,Að vikið verði frá frjálsu sönnunarmati varðandi fyrri kynferðishegðun brotaþola að fyrirmynd margra annarra ríkja, sbr. t.d. 2. málsgr. 185. gr. dönsku
réttarfarslaganna. Verður sönnunarfærsla um fyrri kynhegðum brotaþola þá yfirleitt útilokuð nema hún teljist hafa verulega þýðingu í máli sem til umfjöllunar er.``
    Um þetta segir réttarfarsnefnd: ,,Tillaga í þessa átt er vandmeðfarin. Sönnunarmat í refsimálum hvílir á lagareglum sem samofnar eru mannréttindaviðhorfum. Hafa ber hér í huga mannréttindasáttmála sem Ísland hefur fullgilt. Í 1. málsgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu er áskilið að ákærður maður eigi rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Mannréttindanefnd og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa í fjölmörgum úrlausnum skýrt þennan áskilnað svo að lagaákvæði sem takmarka heimild ákærða til sönnunarfærslu fái ekki staðist nema að því leyti sem þau mæla fyrir um rétt dómara til að neita um sönnunarfærslu sem enga þýðingu hefur fyrir úrlausn máls. Hvernig dómari beiti

slíkum rétti verði að vera komið undir mati hans. Sjá hér tillögur réttarfarsnefndar í 7. kafla tillagna að frv. um meðferð opinberra mála`` --- sem hér er til umræðu.
    ,,Fyrr á öldum voru settar margvíslegar skorður við sönnunarfærslu en þeim takmörkunum hefur smátt og smátt verið rutt úr vegi hérlendis. Að dómi réttarfarsnefndar væri það spor aftur á bak og fæli í sér varhugavert fordæmi að taka umrædda tillögu nauðgunarmálanefndar upp í lög um meðferð opinberra mála.``
    Í c-lið í tillögum nauðgunarmálanefndar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Lagt er til að tilgreint verði tæmandi í lögunum hvenær ákæruvaldið megi falla frá saksókn. Einnig verði sett ákvæði um rökstuðning fyrir niðurfellingu í meiri háttar málum og hverjum hún skuli kynnt.``
    Um þetta atriði segir í bréfi réttarfarsnefndar: ,,Erfitt er að tilgreina tæmandi í lögum hvenær ákæruvaldið megi falla frá saksókn. Réttarfarsnefnd hefur í tillögum sínum sett þær reglur hér um sem hún telur æskilegar. Þær munu í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar, sjá hér tillögur réttarfarsnefndar, 112. og 113. gr. XIII. kafla áðurnefnds frv., og í 114. gr. frv. er gert ráð fyrir þeirri nýbreytni að ákærandi skuli tilkynna niðurfellingu máls þeim sem misgert er við og tiltaka þá lagaheimild sem stuðst er við.
    Hér er þannig komið verulega til móts við tillögur nauðgunarmálanefndar.``
    Í d-lið í tillögum nauðgunarmálanefndar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þá leggur nefndin til að endurskoðuð verði gildandi lagaákvæði um meðferð mála fyrir dómstólum í því skyni að veita brotaþolum aukna vernd og stuðning. Í fyrsta lagi er lagt til að brotaþoli öðlist skýlausan rétt til að krefjast þess að með mál verði farið fyrir luktum dyrum. Í öðru lagi að heimiluð verði skýrslutaka af brotaþola án návistar hins brotlega. Í þriðja lagi að ákveðnar reglur verði settar um fortakslaust fréttabann á persónulegar upplýsingar um brotaþola nema knýjandi nauðsyn sé til þess að birta slíkar upplýsingar opinberlega.``
    Um þetta atriði segir í svari réttarfarsnefndar: ,,Mál þau sem hér um ræðir eru ávallt rekin fyrir luktum dyrum án þess að krafa komi fram um það. Ekki er lögð til nein breyting hér á, sjá hér 8. gr. frumvarpstillagnanna. Samkvæmt frumvarpstillögunum má krefjast þess að skýrsla sé tekin af brotaþola fyrir dómi án þess að ákærði sé viðstaddur og ætti að heimila það sé ástæða til, sjá hér 6. málsgr. 59. gr. Verjandi ákærða á hins vegar skýlausan rétt á að vera viðstaddur slíka yfirheyrslu. Persónulegar upplýsingar eru ekki veittar um brotaþola og nafni hans er leynt við birtingu dóms. Því miður geta slíkar upplýsingar komið annars staðar frá í þjóðfélagi þar sem engu virðist hægt að leyna, sjá hér 10. gr. frumvarpstillagnanna. Þá er rétt að benda hér á nýbreytni sem í því er fólgin að taka má skýrslur upp á myndband, skv. 15. og 72. gr. frumvarpstillagnanna. Þetta getur komið í veg fyrir a.m.k. að börn þurfi að

koma til yfirheyrslu oft og mörgum sinnum.``
    Í lokagrein í tillögum nauðgunarmálanefndar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Nefndin telur nauðsynlegt að brotaþola, konu, verði tryggð greiðsla þeirra bóta sem dómstólar dæma henni með því að ríkissjóður greiði henni bæturnar og endurkrefji síðan dómstóla.``
    Um þetta atriði segir í bréfi réttarfarsnefndar: ,,Þetta atriði á ekki heima í lögum um meðferð opinberra mála. Löggjafinn getur auðvitað ákveðið að þessum brotaþolum séu tryggðar dæmdar bætur. Ríkissjóður yrði líkast til oftast að bera þær endanlega því þeir sem fremja þessi brot sem önnur afbrot eru að jafnaði slakir borgunarmenn.
    Rétt er að í framtíðinni geti þó verið rétt að huga að því hvort ekki má fá í raðir rannsóknarlögreglu fólk með ýmsa félagslega menntun. Þá er það kunnugt að nauðsynlegt er að ráða þangað viðskiptamenntað fólk en það er utan þess efnis sem hér er til meðferðar.``
    Ég hef nú, hæstv. forseti, lokið við að gera grein fyrir þeim svörum sem komu fram í svari réttarfarsnefndar við þeim spurningum sem ég sendi til hennar af þessu tilefni. Í lokum svars réttarfarsnefndar segir þetta almennt: ,,Af framanrituðu má ljóst vera að réttarfarsnefnd vísar aðallega til þegar
saminna tillagna að frv. til laga um meðferð opinberra mála og telur ekki þörf frekari aðgerða. Benda má á að lögfræðingar úr nauðgunarmálanefnd hafa komið tillögum á framfæri við réttarfarsnefnd varðandi þetta frv. og hafa lesið það yfir. Rétt væri að bera það undir þá hvort þeir telja einhverra breytinga þörf og væri þá hægast að koma þeim að í þingnefnd.``
    Um þetta atriði hef ég í rauninni ekki miklu við að bæta að svo stöddu. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að það er ekki ætlun mín að leggja til að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Eins og raunar kom einnig fram hjá hv. 6. þm. Reykv. væri það óðs manns æði og af þeirri ástæðu legg ég það auðvitað ekki til.