Ferðamál
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Frsm. meiri hl. samgn. (Egill Jónsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. samgn. um skipulag ferðamála. Eins og nál. ber með sér hafa nefndarmenn undirritað það, aðrir en hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sem mun að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni afstöðu. Málið er flutt á Alþingi sem frv. til laga og eru flm. hv. þm. Jón Helgason, Skúli Alexandersson, Egill Jónsson, Guðmundur Ágústsson og Jónas Hallgrímsson sem sat á Alþingi sem varamaður hæstv. sjútvrh. Halldórs Ásgrímssonar.
    Í grg. með frv. og í þeirri umræðu sem þá fór fram var málið rækilega skýrt. Af þeirri ástæðu eru ekki nein rök fyrir því að endurtaka þá umræðu hér nema að litlum hluta. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ferðamál eru ný grein hér í okkar landi sem reyndar hefur þróast býsna hratt á síðustu árum og áratugum. Það hlýtur að vera eðlilegt með slíka atvinnugrein þegar hún hefur náð þeirri stærð eða svipaðri sem nú er að litið sé til skipulags hennar. Það sem hér er sérstaklega haft í huga er þáttur ferðamálanna í hinum dreifðu byggðum sem, eins og kunnugt er, hafa tekið þar mikinn vaxtarkipp á síðustu árum.
    Segja má að meginmarkmið þessa frv. sé að auka valdsvið heimaaðila í þessari atvinnugrein, stjórn hennar og skipulagi. Leitast er við að koma þessum markmiðum í framkvæmd með stofnun ferðamálanefnda heima í héruðunum sem fá ákveðin verksvið sem ýmist eru ekki unnin núna eða þá helst unnin af utanaðkomandi aðilum eins og Ferðamálaráði og Ferðamálasjóði. Þetta er sem sagt frv. til þess að dreifa valdi og styrkja áhrif hinna dreifðu byggða.
    Í grg. fyrir frv. eins og það var lagt fram eru þessi verkefni skilgreind nokkuð nákvæmlega. Vil ég hér sérstaklega vísa til þess sem þar er sagt um störf ferðamálanefndanna. Í því sambandi má sérstaklega minna á ferðaskipulag og tilhögun þess innan byggðarlaganna, nýtingu og eftirlit með fjölförnum ferða- og dvalarstöðum og annað í þeim dúr.
    Í nál. meiri hl. samgn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Bárust umsagnir frá borgarstjóranum í Reykjavík, Félagi leiðsögumanna, Ferðaþjónustu bænda, Náttúruverndarráði, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Ferðamálaráði Íslands og Sambandi veitinga- og gistihúsa. Með tilliti til þessara umsagna leggur meiri hl. nefndarinnar til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali, og mælir með samþykkt þess svo breytts.``
    Hér kemur greinilega fram að umsagnirnar voru ekki á einn veg og að ýmsar ábendingar komu fram um annmarka á frv. sem slíku. Brtt. lúta að sjálfsögðu að því að færa frv. og þá um leið afgreiðslu málsins hér í þessari hv. deild til þess horfs sem nokkur sátt getur orðið um. Hitt hlýtur að vera eðlilegt að undirstrika hér að þegar valdatilfærsla á sér stað, þó hún sé nú ekki aflmeiri en hér er gert ráð fyrir, er það oft svo að þeir sem völdin og áhrifin hafa haft

eru ekki sérstaklega sáttir við slíkar breytingar. Það er augljóst að sumar umsagnirnar, að hluta til, bera þess auðvitað nokkur merki.
    Ég vil þá í fáum orðum leitast við að gera grein fyrir brtt. á þskj. 862. Vík ég þá að hinni fyrstu þessara brtt. sem er við 7. gr. laga um ferðamál þar sem sérstaklega er kveðið á um verkefni Ferðamálaráðs. Í lögunum eru 13 liðir sem kveða á um verkefni Ferðamálaráðs. Hér er lagt til að nýjum lið verði bætt við og að í honum felist skylda Ferðamálaráðs til að hafa samráð við ferðamálanefndir sveitarfélaganna um skipulag ferðamála. Þetta er að sjálfsögðu nýmæli.
    Þá er enn fremur gerð tillaga um breytingu á 1. mgr. frv. þar sem kveðið er á um skipan ferðamálanefnda í héraði. Þar er lagt til að sú skipan verði markvissari en er í frv. sem gerir ráð fyrir því að ferðamálanefndir væru skipaðar eftir atvikum fimm til sjö mönnum og þar væri bæði um að ræða hagsmunaaðila í þessari grein og eins fulltrúa sveitarstjórna. Hér er hins vegar lagt til að þar sem ferðamálanefnd er skipuð af einu sveitarfélagi verði nefndarmennirnir fimm en sjö þar sem um samstarf fleiri sveitarfélaga er að ræða. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að nefndin geti kallað til sín áheyrnarfulltrúa sem tengjast ferðamálum eftir því um hvaða mál er fjallað hverju sinni.
    Þá er kveðið svo á í b-lið 2. brtt. þar sem fjallað er um verkefni ferðamálanefnda að sú umræða og þær ákvarðanir fari fram í samstarfi og í samráði við Ferðamálaráð. Enn fremur er lagt til í c-lið að 3. efnismgr. a-liðar falli brott en hún kveður einmitt á um heimildir ferðamálanefndar til þess að taka gjald fyrir sína þjónustu.
    Síðan kemur 3. brtt. sem er við 23. gr. laganna um ferðamál, sbr. 4. gr. laga nr. 59/1988, þar sem kveðið er á um heimildir Ferðamálasjóðs til að veita óafturkræf framlög til einkaaðila og opinberra aðila, eins og þar er orðað. Hér er hins vegar lagt til að auk þess sé heimilt að veita sveitarfélögum og ferðamálanefndum sams konar stuðning. Þetta á að sjálfsögðu bæði við um lán og styrki. Þessi breyting er mjög til þess fallin að kveða skýrar á um rétt
þessara aðila til að verða aðnjótandi þess fjárhagslega stuðnings sem Ferðamálasjóði er ætlað að veita samkvæmt þeim lögum.
    Ég hef hér, herra forseti, skýrt þessar brtt. í meginatriðum að ég vona. Ég vænti þess að eftir þessa umræðu geti þetta mál fengið greiða afgreiðslu hér í þessari hv. deild.